Dóra Ósk Halldórsdóttir
doraosk@mbl.is
„Við félagarnir vorum búnir að ganga með þann draum lengi að opna okkar eigið bakarí,“ segir Jón Árni Haraldsson, en hann, ásamt Elvari Haukssyni og eiginkonum þeirra, Rakel Birnu Björnsdóttur og Kristínu Snæfríði Sigurðardóttur, opnaði á dögunum Týnda bakaríið á Tjarnarbraut 24 í Reykjanesbæ.
Það hefur verið vel tekið á móti nýja bakaríinu og fyrstu dagana var allt uppselt stuttu upp úr hádegi. „Já, það er óhætt að segja að við höfum fengið frábærar viðtökur og við erum búnir að vera að auka framleiðsluna svo við eigum nóg til,“ segir Jón Árni.
Spurður út í nafnið á bakaríinu segir Jón Árni það tengjast því að þetta svæði í gömlu Njarðvík hafi verið kallað „Týnda Njarðvík“ því ekki lá alveg ljóst fyrir hvort það tilheyrði Innri- eða Ytri-Njarðvík.
„Okkur fannst Týnda bakaríið hljóma vel og skemmtilegt að hafa þessa vísun í Týndu Njarðvík.“
Kynntust í náminu
„Við Elvar kynntumst í bakaranáminu og höfum verið miklir vinir síðan,“ segir Jón Árni, sem á rætur að rekja til Grindavíkur þótt hann hafi alist upp í Mosfellsbæ.
„Ég fór á samning hjá Mosfellsbakaríi og svo fórum við Rakel konan mín til Sviss í þrjú ár þar sem ég vann í bakaríi í Zürich. Við höfðum verið í heimsókn hjá systur hennar í Sviss þegar hugmyndin kom upp að prófa að búa erlendis. Þegar við komum aftur heim fór ég að skoða þetta og gúglaði bakarí og fékk svo bara tilboð um að koma og vinna,“ segir Jón Árni en þau Rakel komu eftir þessi ár í Sviss heim þegar covid skall á.
Elvar var á samningi hjá Bakarameistaranum en vann líka m.a. hjá Brikk og Brauði og co. „Já við erum með góðan grunn fyrir reksturinn og svo erum við mjög samhentir vinir, sem gerir þetta mögulegt,“ segir Jón Árni.
Hann segir hugmyndina um að stofna eigin rekstur hafa komið upp reglulega, en tíminn hafi ekki hentað fyrr en núna. Þegar þeir Elvar sáu laust húsnæði var ákveðið að slá til. „Við gripum tækifærið þegar það gafst og sáum húsnæði sem við töldum að gæti hentað vel fyrir bakarí,“ segir hann og bætir við að það hafi nánast verið gert fokhelt áður en hafist var handa við að setja upp bakaríið.
„Við unnum þetta öll saman, og gerðum eiginlega allt sjálf, nema rafmagn og pípulagnir, en fengum aðstoð hjá frænda mínum við smíðarnar og ákváðum útlit og liti í sameiningu. Eiginkonurnar voru mjög duglegar í framkvæmdunum meðfram barnauppeldinu. Rakel er barnshafandi en hún stóð sig eins og hetja,“ segir hann stoltur. Nú búa hvor tveggja vinahjónin í Reykjanesbæ, nánar tiltekið í Innri-Njarðvík, og stutt að fara í vinnuna.
Týnda bakaríið er með allt hefðbundið bakkelsi, auk þess sem áhersla er lögð á beyglur og kleinuhringi. Síðan er hægt að keyra upp að bakaríinu og kaupa í gegnum lúgu að bandarískum sið. „Fólki finnst þægilegt að geta keyrt upp að lúgunni.“