Ríkisstjórnin var mynduð rétt fyrir jól, en nú er komið að næstu kirkjuhátíð án þess að mikið liggi eftir hana, hvað sem líður öllu tali um að hún sé „verkstjórn“. Þetta má þó frekar rekja til væntingastjórnunar en slælegrar verkstjórnar, segja þeir Stefán Pálsson og Gísli Freyr Valdórsson, viðmælendur Dagmála í dag.
Þess hafi aldrei verið að vænta af ríkisstjórn, sem við tók á miðjum þingvetri, að hún myndi dæla í gegn nýjum, tilbúnum þingmálum.
Hins vegar hafi stjórninni orðið enn minna úr verki en vænta mátti, þar sem hún hafi verið ákaflega upptekin við að slökkva þá elda sem kviknuðu af vandræðum Flokks fólksins. Undirbúningur stórra mála eins og veiðgjaldahækkunar bendi ekki til þess að það myndi lagast í bráð.