Ráðherrar höfðu varnaðarorð í vinnu- skjölum að engu

Þegar viðræður hófust í desemberbyrjun um myndun „Valkyrju­stjórnar“ Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins var upplýsinga, greininga og svara leitað hjá ráðuneytum um stórt og smátt.

Mikið var gert úr vægi þeirrar vinnu og hinna veigamiklu minnisblaða, sem sögð voru hátt í 60 talsins og hillumetrarnir skýr mælikvarði á vönduð vinnubrögð valkyrjanna.

Forsætisráðherra tafði það þó í 106 daga að Morgunblaðið fengi að sjá minnisblöðin, en nú þegar leyniskjölunum er flett blasir við að ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa án hiks eða umhugsunar virt þau að vettugi.

Þetta sést berlega af minnis­blöðum um hækkun veiðigjalda, sem Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra og Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, vísuðu til við kynningu á frumvarpsdrögum um tvöföldun veiðigjalda.

Í minnisblöðum ráðuneytisins var eindregið varað við þeirri leið sem ráðherrarnir völdu til þess að „leiðrétta“ veiðigjaldið; bent var á að fiskmarkaðsverð bæði hér og í Noregi væri svo bogið að það væri í raun ekki markaðsverð. Ráðherrarnir létu það sem vind um eyru þjóta og vilja samt reikna út frá því hið eina rétta verð!

Ítrekað var að afla yrði betri gagna, greininga og nákvæmari útreikninga til þess að breyta lögunum, en jafnframt hamrað á því að leggja yrði mat á áhrif slíkra breytinga á bæði sjávarútvegsfyrirtæki og byggðarlög þeirra, líkt og lög bjóða. Ráðherrarnir gerðu ekkert með neitt af því.

Enn fremur var minnt á að víðtækt samráð þyrfti um slíkar breytingar, en algert lágmark væri að birta drögin í samráðsgátt stjórnvalda í 2-4 vikur. Samráð við hagsmunaaðila í sjávarútvegi var í skötulíki, ekkert við sveitarfélög eða verkalýðshreyfingu, og drögin voru aðeins eina viku í samráðsgátt.

Allt ber þetta í besta falli vott um fúsk, en ekki fagleg vinnubrögð. Verra er að ráðherrarnir hafa vísvitandi leitt hjá sér svo veigamiklar ábendingar minnisblaðanna að frumvarpið er í raun ekki þingtækt, hvílir á röngum ef ekki fölskum forsendum og stenst hvorki skilyrði laga né ríkisstjórnarsamþykktar um undirbúning og gerð stjórnar­frumvarpa.

Það skýrir hugsanlega hvers vegna frumvarpinu var ekki útbýtt á þingi fyrir páska, en eins og sakir standa væri réttast að ráðherra drægi það til baka. Hann gæti þá gert aðra tilraun til að leggja það fram síðar og þá í samræmi við góða og heiðarlega stjórnsýslu. Því að rétt skal vera rétt.