Margir hafa beðið eftir einhvers konar arftaka cyclothon-keppninnar sem haldin var við góðan orðstír um árabil. Ekki síst vegna þess að þar var keppni þar sem vinir eða vinnustaðahópar tóku sig saman og mættu til leiks og fólk á mismunandi getustigi gat tekið þátt saman.
Birgir Fannar Birgisson, forsvarsmaður Reiðhjólabænda, vinnur að því að koma á laggirnar nýjum almenningsviðburði á svipuðum tíma, eða yfir sumarsólstöðurnar þegar dagurinn er lengstur, 21. júní. Verður bæði um einstaklingsviðburð að ræða, en ekki síður áskorun fyrir hópa.
Í fyrra fór hann ásamt félaga sínum og tók þátt í viðburðinum Chase the sun á Ítalíu, en slíkir viðburðir eru haldnir á Bretlandseyjum og Ítalíu. Þá er hjólað frá sólarupprás að sólsetri og á Ítalíu og Bretlandi er farið frá austurströndinni og yfir á vesturströndina. Almennt er miðað við um 200 mílur, eða um 320 km, en á Ítalíu var leiðin 280 km.
Birgir segir að öll leyfi séu komin í hús fyrir viðburðinum og undirbúningur sé á lokastigi, meðal annars í samstarfi með hjólreiðabúðinni Erninum. Hann segir að leiðin sem fara eigi hér sé 335 km. Byrja á í Þorlákshöfn, hjóla þaðan austur að Þjórsá, upp með Þjórsá að Búrfelli, yfir nýju brúna við Þjófafoss og niður Þjórsárdal. Svo upp að Flúðum og Brúarhlöðum og að Geysi áður en beygt er niður að Laugarvatni. Þaðan er svo farið gamla Lyngdalsheiðarveginn yfir á Þingvelli, Grafningsveginn og svo Nesjavallaleið til Reykjavíkur.
Reynt verður að forðast að vera á umferðarþungum vegum, en ljóst er að það þarf samt að gera á köflum, eins og frá Geysi að Laugarvatni. Þá er hluti leiðarinnar á möl til að forðast umferðarþungann. Engar tímatökuflögur verða né verður fylgst með skiptingum eða fyrirkomulagi heldur segir Birgir að það sé bara þátttakenda að eiga það við sjálfa sig hvernig þeir hagi þátttökunni.
Þar sem dagurinn er lengri á Íslandi en sunnar í Evrópu verður lagt af stað um klukkan 03.00 um nóttina, en þá er sólarupprás. Hafa þátttakendur svo tíma til klukkan 00.03 að klára leiðina.
Birgir segir að enn sé verið að þreifa fyrir sér með teymisformið, en hann nefnir að meðal annars sé horft til þess að fjórir séu saman í hópi. Verður leiðinni skipt upp í sex áfanga, 42 til 80 km langa hvern, og þarf hver þátttakandi að hjóla allavega tvo þeirra. Svo getur hópurinn ákveðið hvort hann vilji allur hjóla ákveðna kafla, jafnvel alla kaflana, eða að það sé bara einn sem hjóli einhvern kafla.
Með þessu fyrirkomulagi segist Birgir vonast til þess að aftur komi til þess að áhugasamir hjólarar fari að draga vini og vinnufélaga til að takast á við skemmtilega áskorun. „Þetta er aðeins auðveldara en að fylla 10 manna lið,“ segir hann og vísar í cyclothonið. „Það þarf kannski bara tvo áhugasama sem svo draga tvo aðra með sér.“
„Svo er kirsuberið að taka Nesjavallabrekkuna eftir 290 km,“ segir Birgir í léttum tón. Þeir vita sem vita.