„Við erum ótrúlega stolt af þessari viðurkenningu,“ segir Hlynur Björnsson, vörumerkjastjóri íslenska bjórsins Thule.
Thule hlaut á dögunum bronsverðlaun á European Beer Challenge, árlegri bjórverðlaunahátíð þar sem besti bjór álfunnar er verðlaunaður.
Segir Hlynur að bronsverðlaunin séu mikil viðurkenning á gæðum bjórsins og staðfesting á því að Thule hafi ávallt verið eitt af fremstu bjórvörumerkjum landsins. Framleiðsla á Thule hófst á Akureyri árið 1966, upphaflega til útflutnings undir nafninu Thule Export.
„Við höfum alltaf vitað að Thule er alveg einstaklega vel heppnaður bjór. Það er bara eitthvað við það hvernig hann nær að vera í fullkomnu jafnvægi. Mjög líklega er það bruggmeistaranum honum Baldri að þakka, hann er alltaf í fullkomnu jafnvægi. Svona þegar ég fer að hugsa út í það þá er það mjög líklega ástæðan, báðir eru þeir með lítinn biturleika, með skemmtilegan karakter og alltaf stutt í húmorinn,“ segir Hlynur og hlær.
„Þetta er mikil áfangi fyrir okkur og við erum heppin og stolt af því að fá að bjóða landsmönnum upp á þennan þriðja besta bjór í heimi. Þessi verðlaun eru staðfesting á þeirri vinnu og ástríðu sem við setjum í hverja einustu dós.“