Örlítil auking var í fjölda farartækja sem flutt voru inn í fyrra miðað við árið á undan, en heildarverðmætið lækkaði þó ögn að raunvirði, en rétt er að taka fram að allar verðtölur í greininni eru á föstu verðlagi febrúarmánaðar á þessu ári.
Meðalinnflutningsverð á nýju rafmagnsreiðhjóli sem flutt var inn til landsins í fyrra var um 300 þúsund krónur og fyrir rafmagnshlaupahjól er meðalinnflutningsverðið um 65 þúsund krónur. Lækka þessar tölur úr 315 þúsund fyrir rafmagnsreiðhjól árið áður og 81 þúsund fyrir hlaupahjólin, mælt á raunvirði. Þegar horft er yfir lengra tímabil sést hins vegar að árið 2020 var meðalverð hjólanna hæst, eða tæplega 350 þúsund og árið 2022 fyrir rafmagnshlaupahjólin, en þá var meðalverðið 98 þúsund á hvert tæki.
Meðalverð á hefðbundnum reiðhjólum heldur hins vegar áfram að lækka og er nú aðeins rúmlega helmingur þess sem það var árið 2020.
Þetta er á meðal þess sem lesa má úr tölum Hagstofunnar um innflutning á reiðhjólum, rafmagnsreiðhjólum og rafmagnshlaupahjólum. Rétt er að hafa í huga að hér er um að ræða innkaupsverð og er þá álagning hér á landi eftir áður en hefðbundið söluverð til neytenda er reiknað.
Áhugavert er að sjá að fjöldi innfluttra hefðbundinna reiðhjóla heldur áfram að minnka, en lækkunin er þó öllu minni en árið áður. Í fyrra voru flutt inn 9.336 hefðbundin hjól, en voru 9.716 árið áður. Fjöldi þeirra hafði hins vegar verið miklu meiri í langan tíma þar á undan og í kringum 17 þúsund árlega frá 2019 til 2022. Þar á undan voru jafnvel fleiri hefðbundin hjól flutt inn árlega og var hápunkturinn árið 2017 þegar þau voru tæplega 25 þúsund.
Með tilkomu rafmagnshjóla og rafmagnshlaupahjóla um og eftir 2016 fór fjöldi þeirra tækja hins vegar að aukast í innflutningstölum. Náðu rafhlaupahjólin hámarki árið 2020, en faraldursárið voru flutt inn tæplega 20 þúsund stykki af slíkum tækjum. Hefur fjöldi slíkra tækja sem flutt eru inn síðan farið minnkandi og síðustu tvö ár hafa verið flutt inn rúmlega 1.800 slík tæki árlega.
Rafhjólin náðu hins vegar hápunkti árið 2022 þegar tæplega 7 þúsund slík hjól voru flutt inn. Árið 2023 minnkaði fjöldinn í 3.688 og í fyrra fjölgaði þeim lítillega upp í 4.020 stykki.
Meðalverð rafmagnsfarartækjanna virðist að einhverju leyti haldast í hendur við fjölda innfluttra tækja ár hvert, en í öfugu sambandi. Það er, hæsta meðalverð á rafhjólum var árið 2020 þegar fæst slík hjól voru flutt inn. Þá var lægsta meðalverð slíkra hjóla árið 2022 þegar flest hjól voru flutt inn.
Með rafmagnshlaupahjólin var lægsta meðalverðið árið 2020 þegar langflest hlaupahjólin voru flutt inn, en þau voru talsvert dýrari þegar þeim tók að fækka. Hins vegar hefur verðið síðustu tvö ár lækkað þrátt fyrir færri innflutt tæki.
Þegar kemur að reiðhjólunum virðist hins vegar eins og bæði verð og fjöldi hjóla fari lækkandi ár frá ári eftir að hafa náð hámarki árið 2020 þegar meðalverðið var um 85 þúsund krónur á hjól. Í fyrra var meðalverð hefðbundinna reiðhjóla sem flutt voru inn aðeins 46 þúsund, eða rúmlega helmingur þess þegar mest var. Leiða má líkur að því að þetta hafi bæði með það að gera að færri eru að kaupa sér mjög dýr keppnishjól og að fleiri hafa fært sig yfir í dýrari rafmagnsreiðhjól á kostnað dýrari hefðbundinna hjóla.
Þar sem verðmæti rafmagnshjóla er talsvert hærra en verð á hefðbundnum reiðhjólum er heildarinnflutningsverð allra þessara farartækja nokkuð á pari við það sem var áður en rafmagnstækjunum fór að fjölga til muna. Eins og fyrr segir var algjört stökk árin 2020 til 2022 sem líklega má að stórum hluta skrifa á faraldurinn og aukinn útivistaráhuga landsmanna yfir það tímabil. Nú virðist hins vegar eins og staðan hafi aðeins jafnast á ný og er þróunin meira í átt að því sem sást á árunum fyrir faraldur þegar kemur að heildarverðmæti á öllum þessum farartækjum.