Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Hjalti Árnason, forstöðumaður lögfræðisviðs Byggðastofnunar, segir það sinn skilning að breytingar á skilmálum Íslandspósts á afsláttum magnpósts haldi gildi sínu þar til annað hefur verið ákveðið. Úrskurður úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála 31. mars síðastliðinn þýði ekki að hinir nýju skilmálar afsláttarins falli úr gildi.
„Málið snýst um ákvörðun sem Byggðastofnun tók 12. ágúst í fyrra sem var svo kærð til úrskurðarnefndar samkvæmt heimild í lögum um póstþjónustu. Það tók sinn tíma en nú er komin niðurstaða um að ákvörðunin sé ógild og lagt fyrir Byggðastofnun að taka málið til málsmeðferðar að nýju.
Gert að meta málið á ný
Úrskurðurinn fellir aðeins ákvörðun Byggðastofnunar úr gildi en segir um leið að nefndin taki ekki afstöðu til þess hvort skilmálabreyting Íslandspósts hafi verið í samræmi við ákvæði laga um póstþjónustu, nr. 98/2019. Hún leggur í raun fyrir okkur að meta það aftur. Það þýðir að hinir breyttu skilmálar eru í gildi þar til breytingarnar hafa verið metnar og þeim hugsanlega synjað eða farið fram á úrbætur á þeim með nýrri ákvörðun frá okkur,“ segir Hjalti en stjórnsýsla póstmála er á hans borði hjá Byggðastofnun.
Kalla eftir upplýsingum
Hvað eruð þið að gera í málinu?
„Eins og úrskurðarnefndin mælir fyrir um erum við að taka málið aftur til málsmeðferðar, sem þýðir að við þurfum að óska eftir ítarlegri upplýsingum frá Íslandspósti fyrst og fremst en það þýðir líka að við þurfum að gefa þeim sem kærðu málið til nefndarinnar kost á að taka þátt í málsmeðferðinni. Það var einn punkturinn í úrskurðinum að þeir hefðu átt að hafa aðilastöðu og þar með aðgang að öllum upplýsingum sem koma fram í málsmeðferðinni og tækifæri til að tjá sig um þær áður en ákvörðun var tekin. Við munum því óska eftir upplýsingum og gefa þeim sem kærðu kost á að tjá sig um þær upplýsingar, koma að sínum sjónarmiðum í málinu, og taka svo ákvörðun í því að því loknu, þegar að við teljum að það sé allt komið fram sem þarf að koma fram,“ segir Hjalti.
Hvað með þær athugasemdir nefndarinnar að Byggðastofnun hafi ekki nógu vel rækt rannsóknarskyldur sínar í téðri ákvörðun um Íslandspóst?
„Kjarni málsins er að úrskurðarnefndin segir að við hefðum átt að fá fram betri upplýsingar um kostnaðarlegar forsendur [breytinganna hjá Íslandspósti], og þar sem við gerðum það ekki höfum við ekki fyllilega uppfyllt skyldur samkvæmt 10. grein stjórnsýslulaga um rannsókn málsins. Það er það sem við þurfum að gera betur, sem og að gæta að andmælarétti skv. 13. gr. stjórnsýslulaga og rökstuðningi skv. 22. gr.“
Fá að gera athugasemdir
Hvenær áttu von á að það liggi fyrir?
„Það er erfitt að segja. Það eru frí fram undan en við munum allavega senda upplýsingabeiðni á Íslandspóst fyrir helgina. Þau hafa um tvær vikur til að svara. Svo þurfum við að taka saman þær upplýsingar og kynna þær þeim tveimur félögum sem kærðu en þau eru Póstmarkaðurinn ehf. og Burðargjöld ehf. Við munum svo gefa þeim kost á að leggja fram athugasemdir og tefla fram sínum sjónarmiðum og röksemdum. Svo tökum við okkur tíma í að fara yfir þær athugasemdir og taka ákvörðun. Vonandi erum við að tala um [að ákvörðun liggi fyrir] í maí að öllum líkindum.“
Hversu langan tíma hefur Íslandspóstur til að breyta umræddum skilmálum, ef það verður niðurstaða Byggðastofnunar að gera þurfi breytingar á þeim, eftir að hafa skoðað málið betur og fengið meiri upplýsingar frá Íslandspósti og öðrum málsaðilum sem kærðu?
„Hann yrði mjög stuttur ef sú yrði niðurstaðan,“ segir Hjalti og vekur svo athygli á því að fyrirtækin Burðargjöld og Póstmarkaðurinn hafi krafist frestunar réttaráhrifa vegna þessarar ákvörðunar Byggðastofnunar [nr. Á-10/2024] en úrskurðarnefndin hafnað þeirri kröfu. Nánar tiltekið kröfðust fyrirtækin tvö þess að gildistöku hinna nýju skilmála Íslandspósts yrði frestað en því var sem sagt hafnað.
Heimildir til að fresta
„Úrskurðarnefndin var beðin að fresta réttaráhrifum en þótt hún fjalli ekki endanlega um gildi ákvörðunar hefur hún heimildir til að fresta þeim áhrifum sem hún á að hafa,“ segir Hjalti til skýringar. Vekur svo athygli á málsgreinum 145 og 146 í áðurnefndum úrskurði en þar komi fram að Íslandspóstur hafi uppfyllt tilkynningaskyldu sína.
„Tilkynning ÍSP á heimasíðu félagsins hinn 28. júní 2024 greindi frá helstu áhrifum breyttra skilmála á viðskiptavini vegna magnpósts og breyttra afsláttarkjara þar að lútandi. Var tilkynningin því fullnægjandi að efni til og kynnt á réttum vettvangi með að lágmarki 30 daga fyrirvara í skilningi ákvæðisins,“ segir orðrétt í málsgrein 146.
Rætt var við Þórhildi Ólöfu Helgadóttur forstjóra Íslandspósts í Morgunblaðinu í gær. „Breytingin sem var tilkynnt Byggðastofnun í lok júní var engin breyting á afsláttarprósentu heldur einungis að fyrirtæki fengju afslátt á uppsafnað magn yfir mánuð í stað einnar stakrar afhendingar,“ sagði Þórhildur Ólöf í samtali við blaðið. Það sé mat Íslandspósts að afsláttartafla bréfa standi óbreytt hjá Póstinum þar til ný ákvörðun taki gildi hjá Byggðastofnun. Fyrirtækið muni lúta ákvörðun Byggðastofnunar þegar hún liggi fyrir.