Útgáfa Alls fengu bókaforlög endurgreiddan kostnað vegna 836 verka.
Útgáfa Alls fengu bókaforlög endurgreiddan kostnað vegna 836 verka. — Morgunblaðið/Karítas
Endurgreiðslur frá íslenska ríkinu til bókaforlaga námu alls 431 milljón króna á síðasta ári. Það er lítið eitt lægri upphæð en árið 2023 þegar endurgreiðslur námu 440 milljónum króna. Á síðasta ári voru afgreiddar 836 umsóknir en þar af voru 92 frá árinu á undan

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Endurgreiðslur frá íslenska ríkinu til bókaforlaga námu alls 431 milljón króna á síðasta ári. Það er lítið eitt lægri upphæð en árið 2023 þegar endurgreiðslur námu 440 milljónum króna.

Á síðasta ári voru afgreiddar 836 umsóknir en þar af voru 92 frá árinu á undan. Peningar sem eyrnamerktir voru endurgreiðslum kláruðust í desember og því voru 66 umsóknir fluttar til fjárlagaársins í ár. Rétt er að hafa það í huga að útgefendur hafa níu mánuði frá útgáfudegi til að sækja um endurgreiðslu og það skýrir að hluta þennan flutning á milli ára.

Greiðslurnar eru inntar af hendi í samræmi við lög sem sett voru til að styðja við íslenska bókaútgáfu. Endurgreiðslan nemur fjórðungi kostnaðar við hverja útgáfu að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Þegar rýnt er í þá kostnaðarliði sem fylgja bókaútgáfunni og ríkið greiðir fyrir má sjá að prentun vegur þyngst, með 25,4% kostnaðarins. Þar á eftir koma höfundarlaun, 15,1%, þá auglýsingar, 11,5%, ritstjórn, 11,2%, þýðingar, 10,3%, og hönnun, 9,1%.

Forlagið er sem fyrr langstærsti bókaútgefandinn og tekur til sín tæpan þriðjung heildarupphæðarinnar, 123 milljónir fyrir 250 útgefin verk. Bjartur/Veröld fékk 35 milljónir fyrir 27 verk, Storytel 28 milljónir fyrir 83 verk, Ugla fékk 27 milljónir fyrir 57 verk og Sögur fengu 23 milljónir fyrir 16 verk. Þá fengu Benedikt, Bókafélagið og Bókabeitan 17 milljónir hvert.

Hæstu endurgreiðslurnar vegna einstakra bóka voru 7,5 milljónir króna vegna Sæluríkisins eftir Arnald Indriðason og 5,7 milljónir vegna Árbókar Ferðafélags Íslands. Greiddar voru 5,2 milljónir vegna Frýs í æðum blóð eftir Yrsu Sigurðardóttur, 4,4 milljónir vegna Hvítalogns eftir Ragnar Jónasson og 4,3 milljónir vegna Snjós í paradís eftir Ólaf Jóhann Ólafsson. Þá voru 3,5 milljónir endurgreiddar vegna Syngdu vögguvísur með Láru og Ljónsa eftir Birgittu Haukdal.

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon