Meðan Bríet var frá hafa þær Hafdís Sigurðardóttir og Silja Jóhannesdóttir frá Akureyri stigið upp ásamt fleirum og Hafdís verið afgerandi öflugust síðustu ár. Bríet segir að keppnisskapið hafi hins vegar alltaf verið mikið og löngunin til staðar að mæta til leiks á ný meðal þeirra bestu. Hefur hún síðasta eitt og hálft árið verið í krefjandi þjálfun sem hefur meðal annars skilað bikar og Íslandsmeistaratitili í criterium, bikar- og Íslandsmeistaratitli í innihjólreiðum í ár og Íslandsmeistaratitli í maraþonfjallahjólreiðum síðustu tvö ár.
Íslandsmeistaratitillinn í götuhjólreiðum er þó alltaf eftir og Bríet segir að í sumar stefni hún á að springa út og vonandi toppa á ný, en auk Íslandsmótsins verða Smáþjóðaleikarnir meðal helstu verkefna. Í samtali við Hjólablaðið segir Bríet meðal annars frá því hvernig hún hefur gjörbreytt næringarplani og breytt áherslum í æfingum undanfarin tvö ár til að ná markmiðum sínum og vera í fremstu röð á ný.
Fyrsta hjólið safnaði ryki
Árið er 2015 og Bríet segir að hún hafi fram að því ekki haft neinn áhuga á að hjóla. Hún hafi hins vegar fengið gamalt cyclocross-hjól gefins og barnsfaðir hennar hafi reynt að draga hana út í sportið. Það skilaði litlum árangri á þeim tíma og hjólið var að mestu inni í bílskúr í eitt ár áður en hún fór að nota það. Fyrst til að fara í og úr vinnu, en fljótlega til að hjóla með kvennahjólahópi sem kallaði sig Píturnar. „Við fórum aðallega út að hjóla og skemmta okkur og fá okkur pítur,“ segir Bríet og bætir við að hjólreiðar hafi á þessum tíma aðallega verið sumarafþreying þar sem hún hafði ekki mikinn aukatíma með fjölskyldu og var sjálf í meistaranámi í lögfræði.
Við útskrift úr laganáminu fékk hún hins vegar glænýtt götuhjól að gjöf frá allri fjölskyldunni og þá fór áhuginn upp á næsta stig að hennar sögn. Þátttaka í Wow cyclothon fylgdi með þáverandi vinnustaðnum KPMG, en sama sumar mætti hún einnig í RB classic og eina og eina aðra keppni. „Mér fannst þetta mjög gaman og hugsaði með mér að ég gæti orðið góð í þessu,“ segir Bríet. Var hún með bakgrunn í fótbolta, en hafði slitið krossband og aldrei komið sér á almennilegt strik á ný í boltanum.
Fann sína hillu
Síðan hafði hún prófað ýmsar íþróttir til að reyna að finna „sitt sport“, meðal annars hlaupið hálft og heilt maraþon og farið í crossfit. „Ég var svolítið að leita að sporti til að svala íþróttaþorstanum, en ég er mikill íþróttadurgur,“ segir Bríet hlæjandi og bætir við að í hjólreiðunum hafi hún loks fundið sína hillu.
Árið 2018 tók hún svo þátt í Tour of Reykjavík og ákvað að keppa í A-flokki kvenna. Keppnin var tveggja daga keppni, en fyrri daginn var farið frá Reykjavík yfir Mosfellsheiði, gegnum Grafning, upp Nesjavallabrekkuna og Nesjavallaleið til baka til Reykjavíkur. Upp Mosfellsheiðina missti Bríet af hópnum en náði svo hluta hans aftur upp Nesjavallabrekkuna, meðal annars Erlu Sigurlaugu Sigurðardóttur, sem hafði verið gríðarlega virk í hjólreiðum um tíma.
Segir Bríet að það hafi verið svakalega góða tilfinning að ná þessum hóp aftur og upplifa að mögulega gæti hún átt eitthvað í þær bestu. Hún endaði þriðja af íslensku keppendunum þennan dag. „Ég var mjög ánægð með daginn og fannst ég vera að stíga upp í efstu deild,“ segir Bríet.
Kveikjan að því að ég fer „all in“
Nokkrum dögum eftir keppnina fékk hún svo símtal sem breytti talsverðu að hennar sögn. Það var fyrrnefnd Erla Sigurlaug. „Hún sagði mér að þetta hefði verið frábær frammistaða hjá mér og að ég mætti ekki hætta. Að ég væri geggjað efni og að hún hefði hringt í landsliðsþjálfarann og bent á mig og að ég gæti náð langt.“ Þegar Bríet rifjar þetta símtal upp er augljóst að það hefur skipt miklu að fá svona hvatningu frá annarri konu sem var á fullu í sportinu. „Þetta var að miklu leyti kveikjan að því að ég fer „all in“,“ segir Bríet.
Í kjölfarið fór hún að æfa hjá Maríu og Haffa (María Ögn Guðmundsdóttir og Hafsteinn Ægir Geirsson), í úrtökupróf hjá landsliðinu og að keppa. Hún mætti í flest mót frá 2018 til byrjunar árs 2022 þegar hún varð aftur ófrísk.
Rifjar hún upp tvö minnisstæð mót á ferlinum sem hafi gert mikið til að auka áhuga hennar og virkað sem hvatning. Annað var fyrsta bikarmótið sem hún mætti á, en það var Suðurstrandarvegurinn, tæplega mánuði eftir Tour of Reykjavík. Byrjað var í Grindavík, hjólað upp Festarfjallið og út í Krýsuvík og til baka. Hún segir hópinn hafa verið saman á leið upp Festarfjallið til baka, en að hún hafi verið sú eina sem hafi náð að hanga í Ágústu Eddu að mestu upp. „Hún gerði smá bil þar og ég kom önnur í mark á undan öðrum mjög sterkum og reynslumiklum hjólurum.“
Hin keppnin var Jökulmílan 2021, en þá voru Hafdís og Siljurnar tvær að norðan komnar á fullu inn í sportið. Hafdís og Silja Rúnarsdóttir náðu fyrst að komast frá hópnum en Bríet lokaði bilinu og komst yfir til þeirra og endaði Bríet á að sigra þær í endaspretti. Sama ár varð hún bikarmeistari í götuhjólreiðum. „Þarna var ég í toppstandi og var gríðarlega spennt fyrir framhaldinu,“ segir Bríet.
Fyrsti sigurinn árið 2020
Þessi fyrstu ár segist hún hálfpartinn hafa verið þekkt sem silfurstúlkan þar sem Ágústa Edda bar höfuð og herðar yfir aðra. Bríet segist á þessum fyrstu árum hafa prófað alls konar hjólreiðar, meðal annars mætt á götuhjóli í tímatöku, keppt í maraþonfjallahjólreiðum fyrir vestan og í Bláa lónsþrautinni.
Hún vann samt fyrsta götuhjólasigurinn í Samskipamótinu (Suðurstrandarveginum) árið 2020, ári á undan keppninni sem nefnd er hér á undan. Þá hafði hún betur gegn bæði Hafdísi og Ágústu Eddu í spretti en Bríet og Ágústa Edda voru saman í liði.
Komin algjörlega á bólakaf
Þetta ár fékk Bríet einnig fyrsta tækifærið með landsliðinu, en hún var valin til að taka þátt á heimsmeistaramótinu í götuhjólreiðum á Ítalíu. „Það var risastórt tækifæri og á þessum tímapunkti fann maður að maður var kominn algjörlega á bólakaf í hjólreiðarnar,“ segir Bríet. Hún hafi meðal annars fært sig um set í vinnu og farið á vinnustað þar sem hún hafi haft aðeins meira svigrúm til að geta æft meira.
„Ég fer að stýra því sem ég er að gera almennt þannig að æfingamagnið og allt sem því fylgir gangi upp, enda mjög tímafrekt sport,“ segir Bríet og bætir við að hún sé áfram lögfræðingur í krefjandi starfi með fjögur börn sem sé bara með 24 klst. í sólarhring eins og allir aðrir. Það krefjist því mikils skipulags og aga að finna tíma til æfinga.
Æfingar og þátttaka í keppnum halda áfram frá 2020 til 2021 og aftur fær hún miða á HM, sem árið 2021 er í Flanders í Belgíu, sem er talað um sem mekka hjólreiðanna. Í þetta skiptið tekur hún þátt í bæði götuhjólreiðum og tímatöku. „Ég var ótrúlega stutt frá því að klára götuhjólakeppnina á HM þá en það hefur engum Íslendingi tekist eftir því sem ég best veit,“ segir Bríet.
Eins og margir þekkja eflaust eru HM-keppnir venjulega þannig að farin er nokkuð löng vegalengd áður en endað er með að taka nokkra minni hringi nálægt endamarkinu. Byggir slíkt upp áhuga og spennu meðal áhorfenda sem fá þá að sjá keppnisfólkið fara fram hjá nokkrum sinnum. Ef það stefnir í að keppendur verði hringaðir í þessum lokahringjum eru þeir flaggaðir út. Bríet segir að hópur sem hafi verið innan við mínútu á undan henni hafi fengið að halda áfram en hún verið flögguð út.
Vinnandi mæður á fertugsaldri
Hún segir að fyrir almenning hljómi það mögulega furðulega þegar upphaflega markmiðið er fyrst og fremst að geta klárað keppnina, en ekki að keppa um ákveðin sæti. Hins vegar sé reyndin sú að getumunurinn á milli áhugafólks, eins og íslenska hópsins og svo atvinnumanna er alveg gríðarlegur.
„Við konurnar sem komum og keppum fyrir Íslands hönd erum jafnan vinnandi mæður á fertugsaldri sem er annað en atvinnumennirnir sem eru fæstir með börn og aðalstarfið er að æfa og keppa í hjólreiðum,“ segir Bríet. „En fyrir okkur er það að fara á þessi stórmót gríðarleg gulrót eftir alla erfiðisvinnuna.“ Vísar hún jafnframt til þess að æfingaaðstæður hér á landi séu nokkuð aðrar en víða um heim. Hér sé útiæfingatímabilið mun styttra en úti í heimi og veðráttan jafnan nokkuð leiðinlegri. „Það er mjög „mental“ að vera hjólreiðamaður á Íslandi þegar þú æfir stóran hluta ársins innandyra og hinn hluta ársins ertu að reyna að hjóla í alls konar veðri.“
Keppnisþorstinn enn til staðar
Bríet segir svo að hún hafi verið á fullu að æfa fyrir árið 2022 þegar hún varð ófrísk á fyrri hluta ársins, en hún eignaðist barn í september það ár. Hún segir að hún hafi strax fundið fyrir því á meðgöngunni og í orlofinu að keppnisþorstinn væri enn til staðar og að hún vildi aftur koma sér í keppnisform. „Það blundaði í mér alla meðgönguna og orlofið hvað ég átti frábært ár 2021 og það hélt mér gangandi í gegnum þetta tímabil. Svo gera hjólreiðar einnig gríðarlega mikið fyrir mig andlega. Þetta er bara mín gleðipilla og þegar ég er dugleg að æfa þá líður mér vel. Annars get ég verið algjört „kaos“ svo það er hagur allrar fjölskyldunnar að ég
fái mína endorfín-hjólavímu daglega.“
Strax um haustið byrjaði hún að hjóla rólega og að keppa árið eftir, eða 2023. Hún tekur þó fram að þá hafi hún alls ekki verið komin á fullt getustig, en hennar hugmyndafræði hafi verið að sýna að hægt væri að taka þátt í mótum, eða fyrir konur að koma aftur eftir barnsburð, án þess að vera í 100% formi eða á þeim stað sem maður vil vera.
Slíkur hugsunarháttur myndi hjálpa hjólasamfélaginu að vaxa og dafna. „Ég vildi sýna að það væri í lagi að mæta í keppnir þó svo að maður yrði síðastur. Það skiptir máli að vera með, fá reynsluna og að fá meiri breidd í hópinn. Það stappar frekar stálinu í fleiri konur að vera með sem gerir þetta frábæra sport ennþá skemmtilegra,“ segir Bríet.
Nýr þjálfari
Haustið 2023 var svo komið að kaflaskilum hjá Bríeti. Hún ákvað að fara á bólakaf á ný og stefna á að byggja sig vel upp fyrir næstu keppnistímabil. Hún fékk sér bandarískan þjálfara sem heitir Tim Cusick og er þekktur fyrir að vera á bak við Trainingpeaks-viðbótina WKO. Ekki er ofsögum sagt að hann sé algjör gagnagrúskari þegar kemur að árangursmiðuðum æfingum, bæði varðandi næringu og svo æfingaálag. Hefur hann meðal annars komið að þjálfun heimsmeistara í tímatöku, þjálfun stórra liða í Evrópu og ýmissa annarra afreka.
„Ég fékk ábendingu um hann og vildi prófa að leita út fyrir landið,“ segir Bríet, spurð af hverju hún valdi Cusick. Segir hún að Rúnar Örn Ágústsson, fyrrverandi þjálfari hennar og vinur, hafi mælt með honum. „Ef Rúnar mælir með honum þá treysti ég því í blindni,“ segir hún hlæjandi, en Rúnar er einmitt líka þekktur sem mikill gagnagrúskari og er fyrrverandi Íslandsmeistari í tímatöku. Eftir eitt ár af skipulögðum æfingum með Cusick var hún komin aftur í íslenska hjólalandsliðið og keppti með því á Evrópumótinu í Belgíu 2024.
Mest lært um næringarmálin
Aðkoma Cusicks að þjálfun hennar er ekki bara að fá æfingaplan heldur lýsir Bríet henni sem 360° nálgun. „Ég fæ aðstoð með næringu og styrktarþjálfun frá hans þjálfarateymi. Það eru vikulegir fundir og við ræðum bæði æfingar, andleg málefni og annað sem ber undir. Það sem ég hef þó lært mest í okkar samvinnu er um næringarmál og hversu vannærður maður var áður. Ég er að gera þetta allt öðruvísi en áður,“ útskýrir Bríet.
Segir hún að nálgunin í dag snúist mikið um kolvetnainntökuna og rifjar upp að þegar hún var að byrja hafi fólk almennt ekki sett kolvetni í vatnsbrúsann nema kannski á langri sunnudagsæfingu eða í keppni. Í dag sé hún hins vegar alltaf með kolvetni í brúsa og að næra sig ekki ósvipað og í keppni.
Lýsir hún því þannig að þegar byrjað sé að hlaða inn kolvetnum í mun meira mæli sé hún aldrei að tæma bensínið alveg og að endurheimtin verði þar með mun fljótari. Hugmyndin sé aldrei að passa sig að eiga næga orku fyrir eina æfingu eða eina keppni, heldur að passa upp á næstu daga, jafnvel vikur, varðandi orkubúskapinn.
Búin með 1.600 kcal fyrir kl. 9
Ein besta birtingarmynd þessarar hugmyndafræði er að þrjá virka daga vikunnar vaknar Bríet fyrir klukkan fimm og hjólar í um 2,5 klst. þá morgna. Bríet segist fá sér banana og ristað brauð fyrir æfingu, svo taki við gel og kolvetni í brúsa meðan á æfingu stendur og svo morgunmatur eftir æfinguna. „Þannig að klukkan 9 á morgnana er ég kannski búin að klára 1.600 kcal,“ segir Bríet.
Það getur þó verið erfitt að innbyrða öll þau kolvetni sem nauðsynlegt er og þá koma gel og kolvetni í drykk að góðum notum að hennar sögn. Í hverju geli eru kannski 40 grömm af kolvetnum og 150 kcal og hún borðar þrjú slík á æfingu auk vatnsbrúsa með kolvetnum. „Þetta er algjör breyting fyrir mig.“
Bríet viðurkennir að fyrst um sinn hafi þessi breyting reynst henni mjög erfið og að fyrsta mánuðinn hafi henni liðið eins og hún væri að blása út. Svo hafi kerfið og líkaminn lært á þetta og það komist í rútínu. Hún segist telja að of margir sem séu í afreksíþróttum, ekki síst þegar komi að þolíþróttum, hugi ekki nógu vel að orkuinntöku, en að þetta sé að verða mun algengara erlendis.
Ætlar að springa út í ár
Meðan Bríet var frá vegna barneigna tók Hafdís tvö ár þar sem hún tók við af Ágústu Eddu sem öflugasta hjólreiðakona landsins. Bríet segir að það hafi verið erfið tilhugsun að koma til baka og sjá fyrir sér að geta keppt við þær bestu á ný eftir að þær hafi náð góðu tveggja ára æfinga- og keppnisforskoti.
„En ég vona miðað við alla vinnuna sem ég er að leggja inn að ég nái að springa út í ár,“ segir Bríet. Aðalmarkmið ársins er að hennar sögn Smáþjóðaleikarnir í Andorra, en nánar má lesa um þá í viðtali við landsliðsþjálfarann á öðrum stað í blaðinu. Þá segir Bríet að hún horfi mikið til Íslandsmeistaramótsins, enda er það titill sem hún hefur hingað til ekki náð að landa.
Þegar árangur Bríetar er skoðaður sést að undanfarið ár hefur hún náð góðum árangri í styttri keppnum, svo sem í criterium og e-hjólreiðum, en þá eru keppnirnar jafnan um ein klukkustund. Þá hefur hún jafnan verið þekkt fyrir öflugan sprengikraft umfram til dæmis að vera jafn öflug í lengra klifri.
Spurð hvort hún hafi eitthvað horft til þessa við æfingar, segist Bríet sannarlega hafa gert það. Segir hún stutta áreynslu vera sinn styrkleika og rifjar upp að hún hafi ekki tapað í spretti í criterium í fyrra. Þá vann hún einnig öll e-bikarmótin nú í byrjun árs. „Ég tel mig líka vera taktískt nokkuð góða og ég reyni að fylgjast vel með því sem er að gerast í bæði karla- og kvennahjólreiðum [úti í heimi],“ segir Bríet.
Unnið í að umbreyta hjólaforminu
Síðustu tvö árin hafa því að einhverju leyti farið í að umbreyta aðeins hjólaforminu, „setja smá dísil á vélina þannig að ég eigi möguleika á að koma mér alla leið í lokin á lengri keppnum. Þarf að geta þraukað til að komast þangað,“ segir hún. Bendir hún á að með því að hafa aukið æfingaálagið talsvert hafi henni tekist þetta að einhverju leyti. Í Zwift-bikarkeppunum hafi hún til dæmis getað trukkað áfram í 30 mínútur á 95% af FTP sem hafi ekki verið hennar styrkleiki áður.
Til að setja æfingaálagið í samhengi fyrir lesendur segir Bríet að róleg vika hjá henni sé 12 klukkustundir á hjólinu og upp í 18 klukkustundir. Með styrktaræfingum séu þetta að meðaltali um 15-20 klukkustundir á viku sem fari í æfingar, en hún tekur einn hvíldardag og annan dag í endurheimt sem er ekki með í fyrrnefndum tölum. Getur það verið rólegur hjólatúr eða út að ganga.
Til viðbótar við erlendu mótin segist Bríet eiga von á að taka þátt í flestum götuhjólamótum ársins og tímatökum. Hún segist þó ekki hafa æft tímatöku of mikið í vetur, en að hún muni setja einhverjar klukkustundir í það fyrir sumarið. Þá stefnir hún á keppnisferð til Danmerkur með landsliðinu um páskana.
„Efsta stig kvennahjólreiða á Íslandi er orðið mjög sterkt í dag. Það eru allir að æfa á fullu og það hafa efnilegar og sterkar stelpur verið að bætast við hópinn. Ég vonast til að geta veitt þeim harða samkeppni í sumar. Það mun auðvitað eitthvað fara eftir því hvaða brautir henta hverjum, en ég er ekki að stefna á annað sætið í sumar og tel mig á góðum degi geta staðið á toppnum á verðlaunapallinum,“ segir Bríet um innlendu markmið sumarsins.
Bríet á að baki tvo Íslandsmeistaratitla í maraþonfjallahjólreiðum. Hún segir þær keppnir mjög skemmtilegar og minna tæknilegar en ólympískar fjallahjólreiðar.
Það henti henni betur og aldrei að vita nema hún taki þátt í slíkum mótum.
Getur verið erfið söluræða
Ljóst er að hjólreiðar hafa átt ögn undir högg að sækja í áhuga. Ekki eru mörg ár síðan yfir þúsund manns mættu í cyclothonið ár eftir ár, tæplega þúsund í Bláa lónskeppnina og nokkur hundruð manns í Tour of Reykjavík og álíka keppnir. Spurð hvað hægt sé að gera til að fjölga í sportinu, segir Bríet að í raun sé þetta tvískipt mál. Annars vegar séu það almennar vinsældir og svo sé það hversu vel gangi að ná krökkum inn.
Bendir hún á að þegar keppnishjólreiðarnar voru sem vinsælastar hafi það mikið til verið fólk sem var komið yfir þrítugt og var að taka þátt í cyclothoninu. Í dag þurfi að leggja meiri áherslu á að fá fleiri börn inn og það sé starf sem sé í gangi innan hjólreiðasambandsins og meðal aðildarfélaganna. Það geti hins vegar verið nokkuð erfið söluræða þegar æfingar séu mikið til inni í World class eða heima á Zwift. „Það er ekki „easy sell“ fyrir einhvern sem er undir 20 ára að sitja einn inni að hjóla,“ segir Bríet.
Hún segir þó að vonandi geti aukin áhersla á almenningsviðburði aukið áhugann á ný. Í fyrra hafi t.a.m. verið almenningskeppnir á Mývatni og á Egilsstöðum en það að slíkar keppnir séu mjög fjarri höfuðborginni geri það aftur erfitt fyrir yngri keppendur að mæta og ólíklegt að þeir sem séu ekki í sportinu af fullum krafti geri sér ferð í slíka keppni út á land.
Segir hún að gaman væri að fá slíka keppni alveg við höfuðborgina, en að reyndar hafi það því miður ekki gengið upp að lokum fyrir Gullhringinn sem var nokkuð skammt frá borginni. „En svo fara þessi sport öll í hringi, golf, fjallahlaup, hjólreiðar o.fl.,“ bætir hún við og segir að vonandi sé komið að hjólreiðum aftur eftir mikið vinsældartímabil fjalla- og utanvegahlaupa undanfarin ár.
Algjört íþróttafjölskyldulíf
Núverandi eiginmaður Bríetar keppir einnig í hjólreiðum og hefur á undanförnum árum verið í elite-flokki. Hún segir hann þó ekki vera alveg í sama æfingaálagi og hún, en segir hlæjandi að hann hafi fengið tveggja ára forgang meðan hún hafi verið ólétt. Það er því rétt að segja að fjölskyldan sé á kafi í hjólreiðum, en við bætist að börnin eru í körfubolta, fótbolta og fimleikum. „Þetta er algjört íþróttafjölskyldulíf – nema litli 2 ára guttinn, hann er smá „wild card“. Kannski verður hann bókaormur,“ segir Bríet og bætir við að vor og sumar hjá þeim snúist að öllu leyti um íþróttir, ekki bara hjá sér.
Hún segist vona og vita að börnin geti lært mikið af foreldrunum þegar komi að því að sjá hversu mikið þurfi að leggja á sig til að ná árangri. „Þau sjá líka hversu mikið þetta getur tekið á og hvað maður er búinn á því eftir sumar æfingar og læra þannig að einnig að það er mikið undir manni sjálfum komið hversu langt maður nær.“ Segist hún vona að þetta muni efla þau í þeim íþróttum sem þau stundi. „Ég veit að ég er góð fyrirmynd fyrir þau, jafnvel þótt þau elski það kannski ekki alltaf þegar ég fer að hjóla á laugardagsmorgnum,“ segir hún að lokum hlæjandi.