Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
Heldur hefur ræst úr vatnsbúskap miðlunarlóna Landsvirkjunar sem öll búa nú að betri vatnsstöðu en útlit var fyrir seinni hluta síðasta árs og framan af þessu, að því er segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.
Kemur þar fram að vatnsár Landsvirkjunar hefjist 1. október ár hvert, en daginn þann á síðasta ári hafi útlitið ekki verið bjart. Eftir kalt og þurrt sumar hafi fyrirtækið þurft að tilkynna stórnotendum á syðri hluta landsins að skerða þyrfti raforku til þeirra. Sú staða hafi þó skánað í nóvember með auknu innrennsli í miðlunarlónin sem hélt síðan áfram næstu mánuði. Í byrjun febrúar hafi síðan verið unnt að aflétta öllum skerðingum, eftir óvenju gjöfula vetrarmánuði.
Segir Landsvirkjun að staða Blöndulóns og Hálslóns sé með besta móti í sögulegu samhengi. Um sl. áramót hafi staða Þórisvatns verið viðkvæm, en frá þeim tíma hafi hins vegar enginn niðurdráttur orðið þar. Hlýr og vætusamur vetur hafi því bætt stöðuna verulega. Því til viðbótar séu snjóalög á hálendinu með ágætum, auk þess sem vænta megi jökulbráðnunar í sumar.
Segir að þessi staða mála komi sér vel, þar sem stöðva verði vinnslu í Sigöldustöð í þrjá mánuði á næsta ári, vegna stækkunar stöðvarinnar.