Hjólafyrirtækið Lauf er ekki af baki dottið þegar kemur að því að setja af stað og halda metnaðarfullar hjólakeppnir. Eftir að hafa byggt upp risastóra malarhjólakeppni undir nafninu Rift er nú komið að næsta kafla, Rift MTB; fjöldægra fjallahjólakeppni á Norðurlandi þar sem farið verður um Tröllaskaga, Eyjafjörð og að Húsavík.
Þessi nýja keppni kemur í kjölfar þess að Lauf setti á markaðinn nýtt fjallahjól seint á árinu 2023 undir nafninu Elja. Um er að ræða fimm daga keppni sem fer fram dagana 27. til 31. ágúst og verða dagleiðirnar á bilinu 50 til 100 km og með 1.000 til 2.000 metra hækkun. Tveir eru í hverju liði.
Leiðarval var ekki að fullu frágengið þegar Hjólablaðið ræddi við Dönu Rún Hákonardóttur, markaðsstjóra Lauf og mótshaldara. Segir hún þó að gert sé ráð fyrir að þrjár dagleiðir byrji á Akureyri, en farið verður um svæðið frá Tröllaskaga og út á Húsavík. „En hjartað verður á Akureyri, við Kjarnaskóg og í Hlíðarfjalli.“
Stefnt er að því að komast upp á hálendi líka, en Dana segir það þó allt eiga eftir að koma í ljós þegar nær dregur.
Þegar Lauf hóf sölu á Elju vakti athygli að hægt var að kaupa miða í Rift MTB með dýrustu útgáfu hjólsins, en hver miði kostar að lágmarki rúmlega hálfa milljón fyrir lið og með mat og gistingu er pakkinn nær 750 þúsund.
Nokkur áhugi virðist þó á keppninni, ekki síst meðal erlendra keppenda, enda stór hópur sem hefur séð til íslenskrar náttúru í auglýsingum frá Lauf og er áhugasamur um að prófa að hjóla í slíkum aðstæðum.
Dana segir að fjallahjólakeppnin Swiss epic hafi verið ákveðin fyrirmynd þegar ákveðið var að fara af stað með Rift MTB. Hún segir að um sé að ræða krefjandi keppni, en að hvert og eitt lið fari á sínum hraða. „Það eru allir velkomnir sem treysta sér,“ segir hún.
Nefnir hún að sterkustu hjólararnir ættu að klára dagleiðir á 2-3 klst, en þeir sem hægari eru á allt að tvöföldum tíma. „Fólk mun hafa rými til að klára,“ segir hún. „Það verða keppendur sem eru í elite-flokki á heimsmeistarakeppnum, en svo erum við líka með venjulega hjólara,“ bætir hún við.
Þegar eru skráð 50 lið, en Dana segir að miðað sé við um 60 lið þetta fyrsta ár. Hún segir að keppnin hafi ekki verið auglýst mikið en erlendir keppendur hafi margir skráð sig eftir að hafa heyrt um hana í gegnum aðra erlenda keppendur. Með því að skoða keppendalista sést að það verða einnig nokkur blaðamannalið frá nokkrum af stærstu og virtustu hjólafjölmiðlum í heimi, þannig að líklegt er að keppnin fái talsvert meiri athygli á komandi árum.
Dana tekur fram að ekki sé verið að tjalda til einnar nætur og að gaman væri að sjá keppnina stækka á komandi árum. „Við sjáum þetta fyrir okkur sem framtíðartækifæri.“
Rift-malarhjólakeppnin byrjaði fyrsta árið með um 250 keppendur, en fór fljótt upp í um 1.000 keppendur árlega. Dana segir að það taki sinn tíma að byggja upp orðspor svona keppna og þau átti sig á því að Lauf sé ekki mjög þekkt í fjallahjólageiranum. Það verði þó gaman að sjá hvernig samfélagið taki í þetta á komandi árum. Segir hún að Lauf sjái jafnframt fram á að nýta keppnina til að styrkja Elju-fjallahjólið, en svipað var gert með True grit og síðar Seiglu, malarhjól fyrirtækisins, í tengslum við malarkeppnina. „Aðalmálið er þó að styðja við íslenska fjallahjólamennsku,“ segir hún að lokum.