Guðmundur Valdimar Guðmundsson fæddist 21. desember 1955 á Hringbraut 78 í Hafnarfirði. Hann lést á deild L-5 á Landakotsspítala 16. mars 2025.
Foreldrar Guðmundar voru hjónin Guðmundur Árnason, f. 29. febrúar 1928, d. 27. janúar 2017, og Hanna Maddý Guðmundsdóttir, f. 12. júlí 1929, d. 17. september 2012.
Guðmundur á tvær systur, Ingibjörgu og Berglindi. Hann var ókvæntur og barnlaus.
Guðmundur gekk í barnaskóla Hafnarfjarðar, fór síðan í Flensborgarskóla, varð stúdent þaðan árið 1975. Síðan lá leiðin til Gautaborgar þar sem hann stundaði nám í hagfræði.
Hann bjó síðast í Starengi 6 í Reykjavík.
Útför hefur farið fram.
Guðmundur var kraftmikill dugnaðarforkur sem svo sannarlega kunni að njóta lífsins og líðandi stundar.
Guðmundur var alltaf að auka lífsgæði sín með alls konar námi, ferðalögum, bæði innanlands og utan, tómstundum, já eða bara fara á kaffihús eða út að borða í góðum félagsskap. Trúrækinn var hann, fór alltaf í messu um helgar.
Mikill tónlistarunnandi, enda í hljómsveit. Vildi alltaf vita hvort fólk héldi meira upp á Bítlana eða Rolling Stones.
Guðmundur hafði einlægan áhuga á fólkinu í kringum sig. Hann hafði gaman af að kynnast nýju fólki og lagði sig alltaf fram við að tala við fólk á þeirra eigin tungumáli, enda mikill málamaður. Þetta var líka hans leið til að taka vel á móti þeim sem hann var í samskiptum við.
Ljúfur, hvers manns hugljúfi, vann þessi góði maður hug og hjörtu þeirra sem í kringum hann voru. Má segja að hann hafi þekkt eða kannast við annan hvern mann í bænum. Að minnsta kosti mætti hann ekki mörgum í bæjarferðum sínum, sem hann kannaðist ekki við.
Það má læra margt af Guðmundi, meðal annars það að taka einn dag í einu og njóta. Vera virkur og gera það sem maður hefur gaman af og gefur lífinu gildi. En að sama skapi gefa sér líka tíma fyrir slökun og núvitund. Sína núvitund tók Guðmundur að jafnaði í heita pottinum í sínum ótal sundferðum í Sundhöllinni. Þessu gullna jafnvægi, að vera virkur en ná jafnframt að njóta, var Guðmundur snillingur í.
Nú hefur þú fengið hvíldina eftir erfiðan tíma undanfarið eitt ár. Þú barðist hetjulega allt fram á síðasta dag og gerðir þitt besta til að dagarnir væru innihaldsríkir. Tókst á móti öllu með þínu jafnargeði.
Minningin um ljúfan, glaðlyndan og góðan mann mun lifa áfram í hjörtum þeirra sem voru svo lánsamir að kynnast honum.
Við kveðjum Guðmund með söknuði og þakklæti.
Hvíl í friði.
Við sendum systrum hans, Ingibjörgu og Berglindi, ásamt öðrum aðstandendum, okkar dýpstu samúðarkveðjur og hlýjar hugsanir.
Fyrir hönd starfsfólks og íbúa íbúðarkjarnans að Starengi 6,
Eva Dögg Júlíusdóttir.