Jón Gísli Jónsson, Gilli, fæddist í Litla-Hvammi í Reykjavík 17. október 1946. Hann lést á Akureyri 28. mars 2025.
Foreldrar hans voru Bjarnheiður Ingimundardóttir, f. 15. september 1913, d. 21. október 1996, og Jón Jónsson, f. 2. nóvember 1915, d. 24. desember 1981. Bróðir hans er Ingimundur Þ., f. 21. júlí 1943.
Eiginkona Jóns Gísla var Þóra Margrét Einarsdóttir, f. 29. ágúst 1945, d. 13. nóvember 2023. Jón Gísli og Þóra eignuðust tvo syni, sá eldri Jón Heiðar, f. 1973, giftur Nönnu Báru Birgisdóttur. Eiga þau saman dótturina Bjarneyju Guðrúnu, f. 2001. Yngri sonur þeirra er Guðmundur Einar, f. 1979.
Eftir hefðbundna grunnskólagöngu gekk hann í Gagnfræðaskóla verknáms og þaðan áfram í Iðnskólann í Reykjavík þaðan sem hann útskrifaðist sem húsasmiður. Hann vann við þá iðn í nokkur ár en varð að hætta árið 1977 sökum gigtarsjúkdóms sem herjaði á hann allar götur síðan. Hann hóf þá störf sem bílstjóri og umsjónarmaður bílaflota Landsbankans, svo síðar sem húsvörður á Laugavegi 77 og loks í aðalbankanum í Austurstræti þar sem starfsævinni lauk árið 2009.
Með einstakri iðjusemi og dugnaði byggðu þau hjónin sér heimili á Álfhólsvegi 43 í Kópavogi árið 1973 og bjuggu þar allt til ársins 2009 þegar þau fluttust til Akureyrar og bjuggu þar ævina á enda.
Einnig byggðu þau sér sumarbústað í landi Kjarnholta í Biskupstungum.
Gilli hafði einstaklega gott lundarfar og var ávallt bjartsýnn og jákvæður. Hann var alla tíð mikill fjölskyldumaður og átti í nánu sambandi við syni sína og fjölskyldu sem hann ræktaði af alúð og góðmennsku.
Útför hans fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 11. apríl 2025, klukkan 13.
Nú er elsku pabbi floginn frá okkur og eftir sitjum við og söknum hans mikið. En á sama tíma eru allar góðu minningarnar um hann fljótar að ná yfirhöndinni og hjörtu okkar full af þakklæti fyrir að hafa átt hann sem pabba.
Það er mikil gæfa að eiga slíka foreldra sem pabbi og mamma voru, gáfu okkur bara ást og umhyggju.
Á undanförnum dögum höfum við rifjað upp æskuna og tímann með honum allt fram á þennan dag. Það koma bara upp góðar minningar af samskiptum okkar. Öll mál hafa verið leyst með góðmennskuna og jafnaðargeðið að vopni og þannig má segja að hann hafi farið í gegnum lífið.
Pabbi og mamma byggðu sér og okkur fjölskyldunni heimili á Álfhólsvegi 43 í Kópavogi árið 1973 og bjuggu þar allt til ársins 2009 þegar þau fluttust til Akureyrar, þangað sem við bræður höfðum flust nokkrum árum áður.
Þetta var ekki síst gert til þess að þau gætu tekið þátt í uppvexti Bjarneyjar sonardóttur sinnar sem þau elskuðu svo mjög og dáðu. Þau nutu þess mjög að fylgjast með henni og styðja með ráðum og dáð í öllu sem hún tók sér fyrir hendur, ekki síst nú á síðari árum þegar hún fór til náms á Ítalíu.
Þau byggðu sér einnig sumarbústað í landi Kjarnholta í Biskupstungum þar sem pabbi átti nær öll handtökin við smíði hans og ber handbragði hans glöggt merki. Allt smíðað frá grunni, t.d. gluggastykki og hurðir svo eitthvað sé nefnt, svo vel úr garði gert að það mun endast okkur út ævina. Er bústaðurinn og gróðurræktin í landinu góður minnisvarði um foreldra okkar og vekur hlýjar minningar að koma þar.
Pabbi var slíkur öðlingur og góðmenni að leitun er að öðru eins eintaki. Ef mannkynið hefði fleiri hans líka þá væri nú heimurinn betri. Hann bjó yfir alveg einstöku lundarfari, jafnaðargeði, jákvæðni og óbilandi seiglu. Einnig hafði hann sérlega gott lag á að sjá skoplegu hliðarnar á hlutunum og alltaf til í grín og glens.
Hann hafði einstakt lag á að gera dagana bjarta, jafnvel á þeim stundum þegar brekkan var brött og erfiðleikar steðjuðu að.
Það þurfti ekki nema góðan kaffibolla eða smá sólaglætu til að okkar maður segði „þetta eru nú meiri gæðin“ og allt var í toppmálum. Þess má til gamans geta að Bjarney hefur þessi orð, sem voru honum svo töm, húðflúruð á sig.
Þegar heilsan var brostin nú undir það síðasta komu þessir mannkostir hans og andlegu styrkleikar berlega í ljós þannig að eftir var tekið.
En pabbi var ekki bara pabbi okkar, heldur einnig besti vinur.
Við vorum þeirrar gæfu aðnjótandi að deila sömu áhugamálum að stóru leyti, sem voru útivera og náttúruupplifun hvers konar ásamt ólæknandi tækjadellu. Nutum við þess mjög að geta stundað þau saman og skipaði þessi samvera okkar stóran sess í lífi okkar allra. Þar eigum við stóra gullkistu af minningum. Alveg toppurinn á tilverunni og verður skrítið og mikill söknuður að því að geta ekki lengur deilt þessum dýrðarstundum með okkar besta manni.
Elsku pabbi, þú munt alltaf eiga stóran sess í hjörtum okkar, haf þú ástarþakkir fyrir allt það sem þú gafst okkur.
Þínir synir,
Jón Heiðar og
Guðmundur Einar (Mummi).
Það er undarleg tilfinning sem fylgir því að átta sig á því að Jón Gísli Jónsson skuli vera allur. Þessi elskulegi frændi sem hafði lent í hverju áfallinu á fætur öðru síðustu misseri en ætíð sigrað, læknum og hjúkrunarfólki til mikillar undrunar. En þessa síðustu orrustu auðnaðist honum ekki að vinna.
Við frændurnir Jón Gísli (Gilli), Ingimundur eldri bróðir og undirritaður ólumst upp í sama húsi. Húsið var tvíbýlið í Litlahvammi í Laugardal, en þar bjuggu foreldrar okkar, afi og amma. Við frændur lékum okkur mikið saman og það var enginn skortur á leiksvæðum enda Litlihvammur nánast sveit í borg á þessum tíma. Gilli stundaði glímu á yngri árum og var ókrýndur glímukóngur ættarinnar. Þegar Álheimahverfið var byggt, nánast í túnunum hans afa, varð talsverð breyting á umhverfi okkar strákanna. Í nýbyggingum var klifrað og stokkið af vinnupöllum eins hátt og komist var. Þetta voru auðvitað stórhættuleg leiksvæði en við komumst allir lítt slasaðir frá þessum leikjum. Seinna þegar hverfin voru nánast fullbyggð fundum við aðra skemmtilega leiki. Í hverfinu var spennistöð RARIK. Undir skyggninu var skynjari sem stýrði götuljósunum í hverfinu. Við uppgötvuðum að með því lýsa á skynjarann slokknaði á öllum ljósastaurum í Álfheimahverfi. Við lýstum því iðulega á skynjarann þegar dimmt var orðið, ljósin slokknuðu og við fylgdumst með þegar starfsmenn veitunnar komu til að kanna þessa bilun. Þá forðuðum við okkur og ljósin kviknuðu. Þetta þótti okkur óstjórnlega skemmtilegt og iðkuðum þessa skemmtun þar til RARIK gafst upp og stjórnaði götulýsingunum á annan hátt.
Það sem helst einkenndi Gilla alla tíð var hið góða skap, skopskynið og einstök manngæska. Allir sem kynntust Gilla fundu að hér var einstaklega vel heppnað eintak af manni. Jón Gísli var mikill fjölskyldumaður, alla tíð í miklu sambandi við börn sín og fjölskyldu. Því var það eðlilegt að hann og Þóra flyttu norður til Akureyrar þegar Jón Heiðar og fjölskylda hafði búsett sig þar sem og Guðmundur Einar. Þeir félagarnir Gilli og synirnir Jón og Guðmundur nýttu fjöll og firnindi í nágrenninu til óteljandi gleðistunda á fjórhjólum, en þeir höfðu allir mikla ánægju af ferðum á slíkum tækjum. Og ekki skemmdi fyrir þótt menn lentu í ófærð eða festum, bara enn skemmtilegra að bjarga sér úr ógöngum.
Jón Gísli og Þóra reistu sér sumarhús í landi Kjarnholta í Biskupstungum, en þaðan var Þóra ættuð. Sumarhúsið smíðaði Gilli að mestu sjálfur og var einnig síðustu ár sísmíðandi alls konar nytjahluti svo sem stóla og annað gagnlegt.
Nú að leiðarlokum er aðeins minningin ein eftir. En það er ekki lítill sjóður minninga sem eftir stendur eftir langt og viðburðaríkt líf. Þær minningar eru óbrotgjarnar og meðan þær lifa meðal okkar er hann hér á sinn hátt, Jón Gísli Jónsson. Genginn er góður og hjálpsamur drengur sem gaf svo mikið af sér af svo miklu örlæti og gleði meðan hann gat. Veröld okkar væri betri staður ef til væru fleiri einstaklingar eins og Jón Gísli Jónsson. Far þú í friði frændi minn góður.
Steinar Harðarson.
Þegar Jón Gísli, Gilli, fæddist heima í Litla-Hvammi voru margar hendur á lofti til að hjálpa og mikil eftirvænting lá í loftinu. Hinn nýfæddi drengur, bjartur yfirlitum og vel skapaður, bættist í hóp frændsystkina sem áttu þar heimili í ranni Ingimundar afa og Þorbjargar ömmu. Bær afa og ömmu hafði sameiginlegan inngang með húsi Jóns og Heiðu, móðursystur okkar, foreldra Gilla og Munna, og áttum við þar leið um daglega. Við systur fengum mikla athygli hjá Heiðu, sem hafði vonast eftir dóttur, en fékk ljósgeislann sinn hann Gilla. Hún fór að kalla okkur eldri systurnar Gitteren og Hittan-hæ og gerði endalaust að gamni sínu við okkur. Gilli bar nafn Jóns afa síns og Gísla frænda síns og afabróður sem ættaðir voru úr Þingeyjarsýslu. Gísli frændi kom oft í heimsókn og bjó um tíma í litlu húsi sem síðan varð heimili Jóns afa og Fjólu föðursystur hans sem fluttu frá Akureyri til að leita sér lækninga. Gilli átti eiginlega þrjá afa, Jón afa, Gísla frænda og afa með skeggið, eins og þeir bræður kölluðu Ingimund afa okkar. Leikvöllur Gilla var á hlaðinu framan við húsin, þar undi hann sér best. Hann var ekki hár í loftinu þegar hann var kominn upp á lag með að hjóla. Eftir það sá maður hann ekki öðru vísi en hjólandi. Hann var léttur í skapi, glaður og kátur og hvers manns hugljúfi. Áhugi á bílum var honum í blóð borinn en þó fór svo að Gilli valdi að feta í fótspor föður síns og læra húsasmíðar á sínum tíma. Þegar Gilli fermdist var haldin mikil veisla í Skíðaskálanum í Hveradölum, vegleg og fjölmenn. Nokkru síðar breyttust aðstæður hjá stórfjölskyldunni í Litla-Hvammi. Heimahverfið byggðist upp og gömlu húsin í holtinu við Engjaveg urðu flest að hverfa. Fjölskylda Gilla flutti í nýtt húsnæði að Goðheimum 12 og nefndi Litla-Hvamm. Þorbjörg amma bjó hjá þeim til dauðadags en samfélagið, sem blómstraði í skjóli þeirra afa Ingimundar, var tvístrað og eftir lifir minningin ein.
Við kveðjum góðan frænda með þakklæti og sendum eftirlifandi bróður, sonum og öðrum aðstandendum samúðarkveðjur.
Sigríður Ágústa,
Þorbjörg Kolbrún,
Ása Margrét og
Inga Hlíf.
„Er þetta Eiríkur á Gafli fyrir aftan okkur?“ sagði Gilli sposkur og ljúfur eins og hann var alltaf. Ég var um það bil 10 ára í aftursætinu á Lada Sport og á barmi þess að gera allt vitlaust og kominn tími til að róa mig niður. Engin læti, ekkert öskur heldur einstök næmni fyrir aðstæðum, hann vissi að ég myndi koðna niður við að heyra þetta.
Jón Gísli Jónsson eða Gilli eins hann var alltaf kallaður var pabbi eins af mínum bestu og traustustu vinum, hans Jóns Heiðars. Við Jón Heiðar höfum verið vinir í að verða hálfa öld og saga okkar samtvinnuð á margan hátt og samgangurinn milli heimilanna mikill. Gilli var einstakur maður á allan hátt. Hann var ljúfmenni fram í fingurgóma sem var alltaf sáttur í sínu, eða eins og Jón Heiðar lýsti honum svo listilega þegar hann sagði að hann hefði verið „meistari í núvitund“ og það er algjörlega einstakt og lýsir Gilla vel að þeim feðgum hefur ekki orðið sundurorða alla tíð.
Í seinni tíð hef ég oft velt fyrir mér setningunni „hvernig villtu láta minnast þín?“ Ég væri sáttur ef mín yrði minnst eins og Gilla, einstakt ljúfmenni sem var gríðarlega annt um sína nánustu og sáttur í sínu við guð og menn.
Að lokum langar mig að minnast Þóru Margrétar Einarsdóttur, eiginkonu Gilla sem lést fyrir rúmu ári.
Þóra hafði glímt við heilsubrest síðustu ár en þeir feðgar höfðu sinnt henni vel í sínum veikindum og eitt sinn þegar heilsunni hafði hrakað talsvert fékk Jón Heiðar þá frábæru hugmynd að hringja í mig í myndsímtali frá Akureyri. Símtalið byrjaði þannig að Þóra starði frekar tómum augum á símann og síðan allt í einu heyrðist frá henni: „Nei, Valur minn … Af hverju ertu með svona mikið skegg? Þú ættir að fara að raka þig,“ sagði Þóra af sinni einskæru hreinskilni. Mikið sem mér þótti vænt um að hún skyldi þekkja mig – sagði bara það sem henni fannst.
Það er ekki hægt að minnast þeirra hjóna án þess að minnast á Sporðinn, en það er landspilda frá Kjarnholtum í Biskupstungum, þar sem þau hjón reistu sér sumardvalarreit. Við guttarnir fengum þar frelsi til að spæna og spóla um á milli þess sem við létum okkur dreyma, drauma sem margir hafa ræst og fyrir það er ég þakklátur.
Jóni Heiðari, Nönnu, Bjarneyju og Mumma vottum við Hildur okkar dýpstu samúð.
Valur Hlíðberg.