Svanbjörn Jón Garðarsson fæddist 14. mars 1950 á Sauðárkróki. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Dalbæ á Dalvík 29. mars 2025 eftir erfið veikindi.

Foreldrar hans voru hjónin Garðar Björnsson, f. 27. maí 1920, d. 9. febrúar 1978, og Svanhildur Steinsdóttir, f. 17. okt. 1918, d. 26. ágúst 2002. Þau voru bændur á Neðra-Ási í Skagafirði og Svanhildur var kennari og skólastjóri í Grunnskólanum á Hólum.

Systkini Jóns eru Sigurbjörn Jóhann, f. 6. des. 1948, d. 6. jan. 1951, Sigríður Sigurbjörg, f. 1. jan. 1952, Soffía Steinunn, f. 4. jan. 1954, Sigurbjörn Jóhann, f. 2. ágúst 1957, Erlingur, f. 10. febrúar 1959, og Ásdís, f. 6. maí 1960. Samfeðra systkin eru Anna Jóna, f. 28. nóv. 1945, og Rosemarie Karlsdóttir, f. 31. júlí 1951. Uppeldisbróðir þeirra var Ásbjörn Arnar, f. 28. júní 1942, d. 29. jan. 2017.

Jón kvæntist 25. desember 1977 Sigurbjörgu S. Magnúsdóttur, f. 28. nóvember 1953. Foreldrar hennar voru Magnús Helgi Sigurbjörnsson trésmiður, f. 21. maí 1929, d. 5. apríl 1976, og Hildigunnur Kristinsdóttir húsfreyja, f. 18. júlí 1930, d. 29. okt. 2007. Bjuggu þau á Dalvík.

Jón og Sigurbjörg hófu sambúð á Sauðárkróki árið 1977. Keyptu þau land af foreldrum Jóns Í Neðra-Ási og bjuggu þar á árunum 1980-2018. Í upphafi voru þau með fjár- og kúabúskap en seinna meir sneru þau sér að hestatengdri ferðaþjónustu og stofnuðu fyrirtækið Áshesta. Jón og Sigurbjörg fluttu til Dalvíkur árið 2018.

Jón og Sigurbjörg eiga saman tvö börn: Magnús Helga, f. 25. nóv. 1976, og Soffíu, f. 5. sept. 1981. Magnús er giftur Berglindi Björk Stefánsdóttur, f. 29. nóv. 1979. Eiga þau saman Írisi Björk, f. 3. mars 2006, Hákon Daða, f. 24. okt. 2007, og Kötlu Hrönn, f. 7. nóv. 2013. Soffía er gift Agli Árna Pálssyni, f. 12. feb. 1977. Þau eiga saman Júlíu Freydísi, f. 5. des. 2008, og Emilíu Ísold, f. 7. sept. 2011.

Jón var ætíð vinnusamur, hann tók ungur mikinn þátt í búskapnum og var fjárglöggur. Hann var sérstaklega frár á fæti og þolinn, sem fleytti honum langt í fótbolta og íþróttakeppnum þar sem hann vann til margra verðlauna í langhlaupum.

Hann sótti farskóla í Hjaltadalnum, útskrifaðist
sem búfræðingur frá Bændaskólanum á Hólum og lærði járningar í Danmörku. Fyrir utan bústörfin starfaði hann hjá Sláturhúsinu á Sauðárkróki við kjötmat og við ullarmat hjá RALA.
Hann fór til sjós á vetrarvertíð og vann m.a. hjá Steinull og Loðskinn á Sauðárkróki.

Áhugi á hestum og hestamennsku kviknaði snemma og vann hann til margra verðlauna á hestinum Sokka. Jón stundaði alla tíð tamningar og hrossaræktun.

Hann tók virkan þátt í félagsstarfi t.d. Lions, hestamannafélaginu Svaða, sat í hreppsnefnd Hólahrepps og var fjallskilastjóri Hóla- og Viðvíkurhrepps. Jón var framsóknarmaður og tók þátt í starfi Framsóknar í Skagafirði. Hann var meðlimur í Veðurklúbbnum á Dalbæ og tók þátt í starfi eldri borgara á Dalvík.

Útför hans fer fram frá Dalvíkurkirkju í dag, 11. apríl 2025, klukkan 13.00.

Kynni okkar Jóns Garðarssonar hófust þegar við fjölskyldan fluttumst að Hólum í Hjaltadal og áhugi vaknaði á hestamennsku. Sá var hængur á, að við vorum byrjendur og það hefði verið stórhættulegt bæði fyrir menn og hross ef við hefðum gert þetta á eigin spýtur. Þá var mér bent á að Jón Garðarsson í Neðra-Ási gæti greitt götu okkar. Í honum og Sísí eignuðumst við trausta vini og síðar nágranna þegar við fluttum í Haga. Jón lagði sig fram um að gera úr okkur hestamenn og góða sveitamenn enda vílaði hann ekki fyrir sér erfið verkefni.

Jón var frjór í hugsun, gat séð hlutina frá mörgum hliðum og allt sem hann gerði var þaulhugsað. Þessu kynntist ég þegar við störfuðum saman í nefndum á vegum sveitarfélagsins. Hugmyndaauðgi Jóns naut sín líka vel í skipulagningu á hestaferðum, sem við nutum með óvæntum útúrdúrum og áföngum. Föruneytið var ávallt gott enda held ég að Jón hafi bara þekkt skemmtilegt fólk, í það minnsta áhugavert. Ferð yfir Heljardalsheiði kemur upp í hugann. Forfeður Jóns fluttust úr Svarfaðardal að Neðra-Ási hundrað árum fyrr og hann vildi halda upp á þessi tímamót með því að fjölskyldan gengi í fótspor feðranna yfir Heljardalsheiði. Fyrst vildi hann þó hafa eins konar generalprufu þar sem ferðin var endurgerð og prófuð á útvöldu fólki áður en fjölskyldunni væri stefnt í óvissu eins og hann sagði. Til fararinnar fékk hann nokkra góða vini sína, kvíguna Helju og hundinn Kát. Við bundum koffort og annan varning upp á hrossin og klæddumst vaðmálsfötum. Ferðin var kvikmynduð og Jón hafði í rauninni samið handritið. Hersingin lagði upp frá Atlastöðum með Jón í fararbroddi í hlutverki bóndans, síðan komu fylgdarlið og dýr, en ég rak lestina sem niðursetningurinn. Helja var aðeins hikandi við að fara yfir skaflinn upp á heiðina að austan, en heimfús þegar hallaði undan fæti niður í Kolbeinsdal.

Jón var höfðingi og í fimmtugsafmæli mínu hélt hann ávarp sem hófst með orðunum frægu „Ég á mér draum“. Draumurinn reyndist vera trippi, gjöf sem yrði draumur annaðhvort sem reiðhross eða dýrindis steik. Síðan fylgdi nákvæm lýsing: Sótrauður, sokkóttur að framan, leistóttur að aftan, með stjörnu sem eiginlega væri þó frekar stjörnuþoka, hringeygur öðrum megin og glaseygur hinum megin. Hann vissi sem var að ég er rati að þekkja hross og þess vegna var Draumur vel valinn. Mér tókst að þekkja hann úr stóðinu samkvæmt lýsingunni og ruglaði honum aldrei saman við önnur hross enda engum líkur. Draumur varð prýðis reiðhross, en ögn sérsinna, átti til að fara eigin leiðir. Seinast sá ég hann á mynd í Feyki þar sem hann stóð einn á sandrifi í flóði við eystri ósinn í Héraðsvötnunum. Ég er ekki viss um að Draumur hafi upplifað sig í háska, en björgunarsveitir voru kallaðar út. Þeir voru báðir eftirminnilegir, Draumur og Jón, ég sakna þeirra beggja.

Ég votta fjölskyldu og vinum Jóns innilega samúð um leið og ég þakka stundina.

Helgi Þór Thorarensen.

Eitt af öðru hljóðna smalaköll félaga minna og vina sem settu svip sinn á búskap og mannlíf í Hjaltadalnum fyrir 35 árum. Það var mér ómetanlegt, ungum og óreyndum strákpjakki, að eignast bandamenn í öllum þeim góðu nágrönnum sem ég kynntist og varð samtíða þau eftirminnilegu ár sem ég dvaldi á Hólum, í „dalnum sem Guð skapaði“. Einn af þeim var Jón Garðarsson í Neðra-Ási sem nú er látinn eftir erfið veikindi. Jón var fæddur og alinn upp á Neðra-Ási í Hjaltadal, en ásinn sá skilur að Hjaltadal og Kolbeinsdal. Búskapur á slíkum stað hafði því í för með sér mikla fénaðarferð einkum hrossa og sauðfjár, því var Jón enginn meðalmaður í göngum og smalamennsku, alinn upp við eltingaleik í skriðurunnum og snarbröttum fjöllum, óvílinn og þindarlaus. Kannski hefur það frjálsræði í uppvexti orðið til þess að Jón fór sjaldan troðnar slóðir, hvorki í orðum né gerðum. Hann var meðal þeirra fyrstu sem fóru utan og lærðu að járna hross einir, en hrossarækt og hestamennska voru honum mjög hugleikin viðfangsefni og urðu stór þáttur í búskapnum í Ási. Á yngri árum tamdi Jón allmikið og m.a. í Sýsluhúsinu á Sauðárkróki, sem kunnugt er var í miðjum bænum. Fræg er sagan þegar hann ásamt félögum sínum ákvað að fara með rekstur austur í Hegranes. Lítt skipulagt, leyst út og látið gossa. Við tók eltingaleikur stefnulausra trippa um götur, baklóðir og blómagarða, sem varði lengi dags en þó án eftirmála. Um margra ára skeið var Jón með reiðskóla fyrir börn og byrjaði gjarnan fyrst á vorin heima hjá sér en rak svo úthaldið á undan sér í Hofsós, þaðan í Siglufjörð og endaði á Ólafsfirði. Hestaferðir og hestaleiga fléttaðist svo inn í þessa túra. Það sást vel á reiðnámskeiðunum hve Jón hafði einstakt lag á börnum, var þeim hlýr, næmur á ólíkar þarfir og oft tóku þau Sísí til sín börn sem lent höfðu til hliðar. Það var sjaldnast lognmolla í kringum Jón, eldfljótur að hugsa, húmoristi og tilsvör hans mörg slík að fáu var hægt að bæta við þegar sá gállinn var á. Ég naut oft hjálpsemi hans bæði við smölun í Hólahaganum og fékk að auki lánaða trausta hesta við ýmis tækifæri. Eitt er þó eftirminnilegra öðru sem við brölluðum. Skömmu eftir að ferðamálabrautin var stofnuð á Hólum sat Jón námskeið í afþreyingu. Í hádeginu einn daginn viðrar hann hugmynd sína að leika eftir að hluta flutninga forfeðra hans, sem komið höfðu í byrjun tuttugustu aldar úr Svarfaðardal yfir Heljardalsheiði og sest að á Skriðulandi í Kolbeinsdal. Sumarið 2001 lagði því kostuleg lest af stað frá Atlastöðum í Svarfaðardal og stefndi á heiðina undir forystu Jóns. Var þarna hópur fólks, flest frá Hólum, klætt í búninga sem rímuðu við tíðaranda búferlaflutninganna. Einnig voru með í för tveir reiðingshestar, hundurinn Kátur og kvíga. Vakti uppátækið mikla athygli. Árið eftir fór svo Jón með ættingjana sömu leið en án nautgripa a.m.k.

Elsku Sísí, Soffía, Magnús og fjölskyldur. Ég hugsa með hlýju og þakklætis til góðra kynna af Jóni og vináttu ykkar og geymi þær minningar í gullakistunni minni.

Gunnar Rögnvaldsson.