Tollastríð Donald Trump forseti Bandaríkjanna og Xi Jinping forseti Kína.
Tollastríð Donald Trump forseti Bandaríkjanna og Xi Jinping forseti Kína. — AFP/Mandel Ngan
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, tilkynnti í fyrradag 90 daga frestun á nýlegum tollum fyrir flest lönd, nema Kína. Í gær hækkaði hann svo tolla á innfluttar vörur frá Kína enn frekar og verða þeir nú 145%

Einar Árnason

einar@mbl.is

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, tilkynnti í fyrradag 90 daga frestun á nýlegum tollum fyrir flest lönd, nema Kína. Í gær hækkaði hann svo tolla á innfluttar vörur frá Kína enn frekar og verða þeir nú 145%.

Skömmu áður en Trump hækkaði tolla á Kína höfðu Kínverjar brugðist við tollaaðgerðum Bandaríkjanna með eigin viðskiptahindrunum. Ákvörðunin kom í kjölfar mikils óróa á fjármálamörkuðum og gagnrýni víða að. Trump sagði að frestunin ætti að skapa rými fyrir sanngjarnar viðræður um nýja viðskiptaskilmála.

Hvatti til kaupa

Stuttu fyrir tilkynninguna birti Trump færslu á Truth Social þar sem hann hvatti almenning til að kaupa hlutabréf. Eftir tilkynninguna rauk markaðurinn upp: S&P 500 hækkaði um 9,5%, sem jafngildir um fjórum billjónum dala í auknu markaðsvirði. Þeir sem fóru strax að ráðum Trumps gætu því hafa hagnast verulega á örfáum klukkutímum. Þetta vakti spurningar um hugsanlega markaðsmisnotkun, þar sem forsetinn hafði mögulega þegar tekið ákvörðunina um frestunina áður en hann gaf fjárfestum þessi ráð.

Frestunin og ástæður hennar

Ákvörðunin virðist einnig tengjast mikilli spennu á skuldabréfamörkuðum. Fjárfestar höfðu selt ríkisskuldabréf í stórum stíl, sem leiddi til hækkandi ávöxtunarkröfu og vaxandi ótta um neikvæð efnahagsáhrif tollanna. Marko Kolanovic, háttsettur sérfræðingur hjá J.P. Morgan, sagði í viðtali við CNBC að þessi þrýstingur hefði líklega haft áhrif á stefnumótun Trumps. Sumir greiningaraðilar telja að forsetinn hafi óttast aukinn fjármagnskostnað fyrir ríkið sjálft og að frestunin gæti verið taktísk viðbrögð við markaðsviðbrögðum fremur en breyting á grundvallarstefnu. Þetta var talið merki um að forsetinn væri að hlusta á aðvaranir frá fjármálageiranum og aðilum sem höfðu lýst áhyggjum.

Þrátt fyrir að markaðir hafi brugðist jákvætt við í kjölfar tilkynningarinnar, ríkir enn óvissa um næstu skref. Sérstaklega veldur ástandið í samskiptum við Kína áhyggjum. Trump hefur þó lýst yfir vilja til að gera tvíhliða viðskiptasamninga við önnur ríki á meðan frestunin stendur yfir og hafa ýmis lönd sýnt því áhuga undanfarna daga. Næstu vikur gætu skipt sköpum fyrir bæði framtíð tollastefnu Bandaríkjanna og traust fjárfesta á alþjóðamörkuðum.

Höf.: Einar Árnason