Ársfundur Seðlabanka Íslands var haldinn í salnum Silfurbergi í Hörpu í gær. Á fundinum fluttu þau Gylfi Magnússon, formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands, Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra og Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri ávörp.
Í ræðu sinni sagði Kristrún Frostadóttir að þótt fólk hefði alls konar skoðanir á því hvaða peningastefna væri heppilegust fyrir Ísland, og hvernig svo sem við myndum haga gjaldmiðlamálum í framtíðinni, þá væri í öllu falli mikilvægt fyrir Ísland, sem fullvalda ríki, að geta starfrækt sterkan Seðlabanka sem heldur úti okkar eigin gjaldmiðli.
„Og við höfum sýnt að það getum við gert. Það er mikilvægt að hafa val um ólíkar leiðir í þessu efni eins og öðru. Umræða um sjálfstæði Seðlabanka er ekki bara eitthvert pólitískt deilumál úr fortíðinni heldur þvert á móti. Það snýst um grundvallarafstöðu til þess hvernig hagstjórnarmarkmiðum okkar er best náð, og þar með til starfsemi Seðlabankans sem stofnunar,“ sagði hún í ræðu sinni.
Hún segir að hún vilji tryggja öryggi fyrir venjulegt fólk í daglegu lífi.
„Með kraftmikilli verðmætasköpun og sterkri velferð – sem fer best hönd í hönd. Og þá blasir við að Seðlabankinn er lykilbandamaður í að vinna að þessum markmiðum með því að stuðla að stöðugleika í efnahagslífi. Ekki í þeim skilningi að Seðlabankinn eigi að vera pólitískur. Heldur er reynslan einmitt sú að það virðist ganga best að tryggja stöðugleika þegar Seðlabankinn er sjálfstæður í sínum störfum,“ sagði Kristrún í ræðu sinni.