— Ljósmynd/Emil Örn Kristjánsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þeir ræddu við Hjólablaðið um komandi keppnisár, stuðninginn hvors frá öðrum, muninn á keppnum hér á landi og erlendis og vonir sínar um landslag hjólreiða hér á landi til framtíðar. Kristinn er sá eldri af þeim tveimur og er 25 ára, en flestir þekkja hann sem Kidda

Þeir ræddu við Hjólablaðið um komandi keppnisár, stuðninginn hvors frá öðrum, muninn á keppnum hér á landi og erlendis og vonir sínar um landslag hjólreiða hér á landi til framtíðar.

Kristinn er sá eldri af þeim tveimur og er 25 ára, en flestir þekkja hann sem Kidda. Undirritaður kynntist honum fyrst í Wow cyclothon fyrir tæplega tíu árum og verður að viðurkenna að þá var hann smá pirrandi, enda var Kristinn þá í liði með föður sínum sem var í mikilli baráttu við lið undirritaðs og var ótrúlegt að fylgjast með þessum unga hjólara með óendanlega mikla orku og baráttuvilja.

Síðan þá hefur hann þroskast mikið sem hjólari, tekið þátt í gríðarlegum fjölda keppna hér heima og erlendis og landað fjölda sigra, bikartitla og Íslandsmeistaratitla í fjölmörgum greinum hjólreiða. Bara í fyrra er hann með Íslandsmeistaratitil í götuhjólreiðum, criterium og ólympískum fjallahjólreiðum og árið 2022 með bikarameistaratitil í ólympískum fjallahjólreiðum.

Fermingarpeningurinn fór í hjól

Davíð er fimm árum yngri, eða 20 ára, og hefur verið einn fremsti ungi hjólreiðamaður landsins síðustu ár. Hann varð Íslandsmeistari í tímatöku bæði 2023 og 2024 og bikarmeistari í criterium árið 2023. Þá var hann Íslandsmeistari í götuhjólreiðum í U23-flokki bæði árin 2023 og 2024.

„Ég hef eiginlega alltaf hjólað. Hjólaði alltaf á æfingar og í skólann,“ segir Kiddi, en hann æfði einnig handbolta lengi vel. Fjölskyldan bjó í Danmörku um tíma og segist Kiddi hafa byrjað að taka þátt í hjólakeppnum þar á árunum 2009 til 2011. „Pabbi keypti götuhjól og þá fékk ég áhuga á götuhjólreiðum,“ segir hann, en faðir þeirra er Jón Gunnar Kristinsson, betur þekktur sem Nóni.

Þegar heim var komið á ný tók hann þátt í Fjögra gangna mótinu fyrir norðan árið 2014, en hann hafði notað fermingarpeninginn í að kaupa sér sitt fyrsta götuhjól. Næsta ár tók hann svo þátt í fyrsta fjallahjólamóti ársins, Morgunblaðshringnum. „Pabbi spurði hvort ég væri ekki til og hann keypti ný dekk á hjólið, sem voru samt mjög léleg,“ segir Kiddi hlæjandi. „Ég endaði langsíðastur, en hún Helga María [Arnarsdóttir] hjá HFR kom og spurði mig hvort ég vildi ekki koma að æfa og fara svo í æfingaferð til Færeyja síðar um sumarið. Auðvitað var ég til í það.“

Árið 2017 fór Kiddi svo í lýðháskóla í Svíþjóð, en skólanum var lokað eftir eina önn og fór hann þá í íþróttamenntaskólann í Falun í Svíþjóð, en þangað átti Davíð síðar eftir að fara og eru í dag fjórir upprennandi íslenskir hjólarar við nám í skólanum, tvær stúlkur og tveir drengir.

Davíð stígur inn á sviðið

Davíð segir að hann hafi byrjað að hjóla árið 2016, en svo fyrir alvöru árið 2020. Eins og bróðir hans hafði hann æft handbolta í mörg ár. Árið 2021 ákvað hann að taka skrefið eins og Kristinn og fór í nám við Hagströmska gymnasiet í Falun. Þar einblíndi hann á hjólreiðar og útskrifaðist svo síðasta vor, en hluti af þessu námi er að taka þátt í fjölmörgum keppnum bæði í Svíþjóð og víðar á Norðurlöndunum.

Á þessum árum fór hjólreiðaáhugafólk að taka vel eftir árangri Davíðs hér heima, ekki síst þegar hann kom stundum með óvænta vídd inn í keppnir, eins og eina cyclocross-keppni þar sem hann ákvað að setja allt í botn frá fyrstu mínútu til að sjá hvort aðrir myndu ná honum. Að lokum náðu fremstu menn honum, en um tíma bjó þetta til nýja og óvænta spennu í flokknum.

Þá landaði hann einnig nokkuð óvænt Íslandsmeistaratitli í tímatöku árið 2023 og hafði þar betur gegn Ingvari Ómarssyni, margföldum Íslandsmeistara í tímatöku og öðrum greinum hjólreiða, og bróður sínum.

Mismunandi áhugi bræðranna

„Við erum í öllum greinum hjólreiða nema í fjallabruni,“ segir Davíð um áhugasvið þeirra bræðra. Þó kemur í ljós að hann er helst áhugasamur um götuhjólreiðar meðan Kiddi er hvað helst spenntur fyrir fjallahjólreiðum.

„Maður þarf samt að keppa í öllu ef maður vill viðhalda forminu, en ég er mest sjálfur á götuhjóli,“ segir Davíð.

„Fjallahjólreiðar eru langskemmtilegastar og xco [ólympískar fjallahjólreiðar] skemmtilegastar og mjög góðar til að æfa sig,“ segir Kiddi. Báðir nefna þeir að cyclocross sé í þeirra huga aðallega skemmtilegar keppnir til að halda uppi skemmtanagildi yfir haust- og vetraræfingar. „Við mætum til að hitta fólkið, hafa gaman og líka sérstaklega þegar pabbi heldur keppnirnar,“ segja þeir.

Hefur mikla trú á yngri bróður

Kiddi útskrifaðist úr vélskóla fyrir tveimur árum og segir hann að meðan á námsárunum stóð hafi hann aðeins minnkað æfingamagn og þátttöku í keppnum. En síðustu tvö árin hafi hann hins vegar sett allt á fullt og sé að æfa gríðarlega mikið og í góðu formi.

Kiddi segir að Davíð sé meira efni en hann og eigi enn mikla möguleika á að komast áfram í hjólreiðum, t.d. ef hann kæmist að hjá dönsku liði, en Davíð flutti til Danmerkur ásamt kærustu sinni fyrir nokkru.

„Já, ég er enn á leiðinni upp, en ég þarf að vera duglegri,“ segir Davíð og það má greina smá ábyrgðartón í röddinni. Þróast spjallið næstu mínúturnar út í nokkur góðlátleg föðurleg ráð frá Kidda til Davíðs varðandi æfingarnar. „Hann æfir þriðjungi minna en ég en er jafn góður og ég,“ segir Kiddi meðal annars og er greinilegt að eldri bróðirinn telur þann yngri eiga mjög mikið inni.

Davíð tekur fram að hann sé á fullu að vinna í Danmörku, en reyni einnig að hjóla mikið og undanfarið hafi hann verið að hjóla með FBL [Frederiksberg Bane- og Landevejsklub] og vonist til að komast í liðið þeirra. „Það er ekkert annað sem kemur til greina.“

Segir alltaf já

Spurður út í helstu kosti og galla Davíðs segir Kiddi að það besta við bróður sinn þegar komi að hjólreiðum sé hversu jákvæður hann sé varðandi hugmyndir og að taka þátt í einhverju og alltaf til í allt. „Hann segir alltaf já eða kemur með betri hugmyndir,“ segir Kiddi og bætir við að hægt sé að taka það saman í orðinu hjálpsamur. „En hann gæti verið duglegri að æfa,“ segir hann kíminn um gallana.

Spurður sömu spurningar um Kidda segir Davíð að bróðir sinn sé rosalega mikið í því að prófa hann. „Kiddi er rosalega mikið í því að testa mann. Gá hvort ég sé til í aðeins meira. Þá pælir hann rosalega mikið í því hvað ég er að gera og peppar mann til að komast mögulega í lið. Svo er hann með rosalega gott skap og alltaf til í eitthvað,“ segir Davíð. „En svo er hann líka stundum skapstór,“ bætir hann hlæjandi við.

Bræðurnir eru í dag með sama þjálfara, en það er Sören Lilholt, fyrrverandi danskur meistari í götuhjólreiðum og atvinnumaður frá 1986 til 1992. Varð hann einnig heimsmeistari ungmenna árið 1983. Sören var áður þjálfari hjá HFR og segja þeir báðir að hann sé mjög kröfuharður þjálfari og það passi þeim ágætlega.

Of margir að finna upp hjólið

Talið berst að íslensku keppnissenunni, fyrirmyndum og umgjörð fyrir ungt hjólreiðafólk til að stíga upp. Kiddi nefnir að þegar hann hafi verið að taka sín skref í unglingaflokkum hafi vantað mikið þessa sem væru rétt fyrir ofan hann í getu og gætu verið að leiðbeina honum og öðrum ungum og efnilegum. Það hafi verið eitthvað af keppendum í elite-flokki, en flestir þeirra hafi verið nokkuð eldri og talsvert betri í upphafi.

„Það eru oft einhverjir að byrja og þá vantar hvatann og leiðbeiningarnar,“ segir Kiddi. „Of margir eru að finna upp hjólið sjálfir,“ bætir hann við og á þar við bæði æfingaplön, næringarplön og almenna kennslu og þekkingu á hjólreiðum.

Segir Kiddi að þegar fólk byrji að hjóla í hóp þar sem getustigið er svipað verði alltaf skemmtilegra að hjóla og menn fái miklu meira út úr því. Þannig hafi þeir Davíð meðal annars verið með í hópi af HFR-strákum undir merkjum Alvogen, en auk bræðranna eru það Breki Gunnarsson, Björgvin Haukur Bjarnason og Daníel Freyr Steinarsson. Eru þeir allir á milli 20 og 25 ára gamlir.

Ekki að æfa til að vinna

Kiddi rifjar reyndar upp að hann hafi verið heppinn þegar kom að stuðningi við sig þegar hann var að stíga upp í ungmennaflokki. Fyrst hafi hann kynnst Stefáni Hauki Erlingssyni og Elvari Reynissyni sem hafi talað við Hafstein Ægi Geirsson, sem þá var hjá Erninum, um að koma sér á styrktarsamning. Endaði það með að Kiddi fór að vinna í Erninum og fór á styrktarsamning og hann og Hafsteinn fóru að keppa saman. „Hann var eiginlega stóri bróðir minn,“ segir Kiddi um Hafstein og hvernig hann hafi aðstoðað og stutt sig í gegnum tíðina.

Á tímum þegar stór hópur þeirra sem eru ungir og efnilegir í sportinu dettur út, hvernig varð það að þeir bræður héldu áfram að æfa hjólreiðar? „Mín mótívering var eiginlega hvað margir voru að hætta. Mér fannst svo leiðinlegt ef ég myndi hætta líka og þá væri það asnalegt ef ég myndi hætta,“ segir Kiddi og Davíð tekur undir með honum. „Það var líka ástæðan hjá mér.“

Leiðinlegt að hjóla hægt

Kiddi tekur þó fram að svo finnist honum hjólreiðar bara svo skemmtilegar og að hann fái enn mikið út úr því að hjóla í dag. „Mér finnst bara svo gaman að hjóla hratt. Ég er ekkert endilega að æfa til að vinna, ég vil bara hjóla sem hraðast,“ segir hann og uppsker hlátur okkar Davíðs.

Davíð segist vera á svipuðum stað, en að sér þyki líka gaman að hrista aðeins upp í hlutunum, sérstaklega í keppnum. „Mér finnst leiðinlegt að hjóla hægt í keppnum. Þegar það gerist þá förum við tveir að gera eitthvað hressandi.“

Vill vinna á Smáþjóðaleikunum

En hver eru markmið bræðranna fyrir komandi ár? Eitt aðalmarkmið Hjólreiðasambands Íslands er Smáþjóðleikarnir í lok maí í Androrra. „Mig langar að vinna á Smáþjóðaleikunum, annaðhvort í tímatöku eða götuhjólum,“ segir Davíð. Þá segist hann vera spenntur fyrir að fara í Súlur gravel-keppnina, sem er ný í ár og verður haldin í byrjun júní. „Svo eru það Íslandsmótin, en ég verð með áherslu á tímatöku.“ Nefnir Davíð jafnframt að í júlí sé HFR á leið til Svíþjóðar að keppa í U6-keppninni. „Mig langar að gera góða hluti þar, en við vorum í góðri baráttu í fyrra.“

Kiddi segir að hann stefni á Íslandsmeistaratitilinn í ólympískum fjallahjólreiðum og góðum árangri á Smáþjóðaleikunum í sömu grein. Þá vilji hann hjálpa HFR í heildarkeppninni í U6 og sé spenntur fyrir keppnisferð landsliðsins til Danmerkur um páskana og segir að gaman væri að ná góðum árangri þar. Hann viðurkennir að í dag þyki honum ekkert síðra að vinna stundum fyrir aðra og að það að hjálpa einhverjum að vinna keppni gefi honum álíka mikið og að vinna sjálfur.

Allt annað að keppa úti

Umræðan þróast út í keppnir erlendis og hverju þátttaka þar skili fyrir íslenska keppendur í keppnum hér heima. „Keppnisreynslan úti hefur lítið að segja fyrir þig hér heima. Hún hjálpar þér bara í keppnum úti,“ segir Davíð. Nefnir hann að meðan keppendur í elite-flokki hér heima séu kannski 20-30 séu þeir 80-150 í mörgum keppnum úti. Það þýðir að öll taktík og slíkt sé allt öðruvísi. Meðal annars skipti öllu máli úti að vera vel staðsettur og þurfa ekki alltaf að brenna eldspýtur eftir hverja einustu beygju. Þá skipti liðataktík mun meira máli þar og erfiðara geti verið að fara í einstaklingsárásir.

Hér á Íslandi sé mun mikilvægara að vera bara í nógu góðu formi og að þá sé jafnvel hægt að sigra með löngum einstaklingsárásum.

Báðir segja þeir þó að ekki megi horfa þannig á að íslenska keppnissenan sé fámenn eða léleg. Bendir Davíð á að hlutfallslega séu fleiri hér á landi að keppa í elite-flokki en til dæmis í Svíþjóð. Hér séu það 20-30 manns, en í Svíþjóð, þar sem búa um 11 milljónir, séu 80-90 að mæta og keppa í elite-flokki alla jafna.

Þar er þó skylda að vinna sig upp og byrjar fólk í D-flokki og þarf að sanna sig á hverju stigi áður en það kemst í A-flokk, eða elite-flokkinn.

Þarf fleiri krakka í sportið

Kiddi ítrekar það sem hann hefur áður sagt í viðtalinu og það er að grunnurinn að því að byggja upp hjólreiðar sé að fá fleiri krakka í sportið. „Og þá þarf fleiri félög með ungmennastarf,“ segir hann.

„En ég myndi líka vilja að hjólreiðaverslanir myndu sameina krafta sína með félögunum og vera með fleiri krakkakeppnir og styðja við æfingar í bæði fjalla- og götuhjólreiðum og setja „punch“ og ást í þetta starf. Núna er HFR eina félagið með ungmennastarf, en svo er líka hjólaskóli, en það er því miður ekkert beint sem tekur við krökkunum hjá Tindi eftir hjólaskólann.“

Mikil breyting á stuttum tíma

Rifjar Kiddi upp að árið 2019 og 2020 hafi verið um 100 krakkar á sumarnámskeiði í fjallahjólreiðum og að það hafi þurft að skipta hópnum upp í þrjá aldurshópa. Í dag hafi hins vegar aðeins verið um 20 krakkar og bara einn hópur.

Þá nefna þeir báðir að það væri gaman að sjá íslenskt lið sem myndi keppa úti. Í ár stefnir reyndar landsliðið á einhvers konar sambærilegar ferðir og verður fróðlegt að sjá hvort það skili sér í samhentum hóp sem vinnur saman sem lið. Kiddi segist hins vegar viss um að það væri hægt að gera þetta á mjög skemmtilegan hátt ef almennilegt fjármagn fengist til að koma af stað ungu liði sem færi reglulega út og myndi þannig byggja sig upp.

Að lokum rifjar Kiddi upp stöðuna fyrir um 10 árum og nefnir að hægt hafi verið að halda Tour of Reykjavík þannig að götum var lokað víða um Reykjavík meðan á keppni stóð. Slíkt hafi skapað gríðarlega stemningu og áhuga á hjólreiðum sem þörf sé á í dag. Umstangið gæti þó reynst erfiðara í dag. „Þetta var hægt því menn vissu að það væru þúsund manns að fara að mæta,“ segir hann. Keppnir sem þessi séu þó grunnur að því að auka áhuga almennings og vonandi draga fleiri í sportið.