Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Afkoma, búvörusamningar, rekstrarumhverfi, nýliðun, tollavernd og loftslagsmál voru í deiglu á bændafundi á Breiðumýri í Reykjadal í Þingeyjarsveit sl. þriðjudagskvöld. Í vikunni héldu forysta Bændasamtaka Íslands (BÍ) og Hanna Katrín Friðriksson fundi á sjö stöðum hringinn í kringum landið þar sem málefni landbúnaðar voru rædd. Fyrir ráðherrann var tilgangurinn meðal annars að kynnast sjónarmiðum bænda og taka á þeim hús, í leiðangri sem bændaforystan átti hugmyndina að.
Afkoman sé tryggð
„Fyrir okkur bændur eru þessir fundir einstakt tækifæri til að koma á framfæri við ráðherra milliliðalaust þeim málum sem á okkur brenna,“ sagði Trausti Hjálmarsson formaður BÍ í ræðu sinni á Breiðumýri. Þar vék hann meðal annars að gerð nýrra búvörusamninga, sem væru leiðin að því að bændur fengju réttlátar tekjur fyrir sína vinnu. Skynsamt samfélag tryggði þeim réttláta afkomu og öruggt starfsumhverfi.
„Það er í allra hag að íslenskur landbúnaður fái að þróast í umhverfi sem styður bæði við framleiðendur og neytendur,“ sagði Trausti sem vék að mikilvægi nýliðunar í landbúnaði. Skilyrði þar væru hins vegar erfið og ekki fýsilegt fyrir ungt fólk að hasla sér völl í búskap, sbr. miklar fjárfestingar og háa vexti. Á Íslandi eins og í öðum löndum þyrfti landbúnaður opinberan stuðning sem gæti verið með ýmsu móti. Tollar og takmarkanir á innflutningi landbúnaðarafurða væru þar mikilvæg. Rangt væri að halda því fram að búvörusamningar, tollvernd, dýravelferð og fæðu- og matvælaöryggi væru sérhagsmunir bænda.
Best og heilnæmast
„Kannanir sýna að íslenskir neytendur vilja kaupa íslenskar afurðir,“ sagði Trausti og bætti við: „Íslenskir bændur vilja bjóða neytendum bestu, heilnæmustu og umhverfisvænustu vörur sem þeim er unnt og leggja gríðarlega vinnu á sig til þess. Rekstrarumhverfi bænda þarf að vera þess eðlis að bændur geti sinnt sínu hlutverki og neytendur fengið þær afurðir sem þeir raunverulega vilja.“
Landbúnaður er þess virði að verja, styðja og styrkja, sagði Trausti. Tiltók að nú væri fólki enn betur en áður ljóst mikilvægi fæðuöryggis í heimi alheimsvæðingar þar sem aðfangakeðjur gætu rofnað með ófyrirséðum afleiðingum.
„Ég hef trú á íslenskum landbúnaði og ég hef trú á íslensku samfélagi. Ég hef líka trú á því að ríkisstjórnin hafi metnað til að standa vörð um það góða í íslenskum landbúnaði og styrkja hann til frekari sóknar. Og ég hef trú á því að með því að hitta og tala við bændur í þessari ferð dýpki skilningur ráðherrans á stöðu landbúnaðar,“ sagði Trausti Hjálmarsson.
Landbúnaður er lykilþáttur
„Stefna ríkisstjórnarinnar í landbúnaði er skýr,“ sagði Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra í upphafi tölu sinnar. Þar boðaði hún að á kjörtímabilinu yrði gripið til aðgerða til að efla nýsköpun í landbúnaði, auka fjölbreytni framleiðslu í landbúnaði og auðvelda nýliðun og kynslóðaskipti. Þá ætti að breyta jarðalögum til að vinna gegn samþjöppun og stuðla að nýtingu á ræktarlandi til búrekstrar. Allt þetta væri í samræmi við þau sjónarmið sem birtast í landbúnaðarstefnu fyrir Ísland til ársins 2040. Fyrrgreind atriði kæmu einnig inn í myndina við gerð nýs búvörusamnings sem taka skal gildi í byrjun árs 2027.
„Landbúnaður er ekki aðeins grunnstoð samfélagsins heldur líka lykilþáttur í menningu okkar, atvinnuþróun, byggðafestu, sjálfbærni og auðvitað fæðuöryggi. Atvinnugreinin er þannig með traustar rætur í sögunni en tekur líka breytingum eins og samfélag okkar í heild,“ sagði ráðherra.
Bændur standa í dag andspænis ýmsum áskorunum, sagði ráðherra og nefndi þar til dæmis háa vexti og svo háan raforkukostnað. Að slíku þyrfi að huga nú þegar aðfangakeðjur í matvælaframleiðslu væru undir álagi til dæmis vegna Úkraínustríðsins sem truflað hefur útflutning á korni. Einnig hefði órói skapast vegna tollastefnu Bandaríkjanna. Þetta væri haft í huga nú þegar íslensk stjórnvöldu mótuðu aðgerðir um neyðarbirgðahald á matvælum og nauðsynlegum aðföngum.
Einföldun kerfis er mikilvæg
Um stuðningskerfi landbúnaðar sagði ráðherra að byggt væri á grunni samninga sem gerðir voru fyrir 40 árum. Grunnstef þess eru beingreiðslur til bænda en reynslan af því væri misjöfn, m.a. í því ljósi að markmið kerfisins séu margþætt og stjórnvöld hafi ítrekað gripið til sértækra aðgerða. Nýlegar viðhorfskannanir sýna líka að reynsla bænda af kerfinu sé með ýmsum hætti og nærri helmingur þeirra telji það þjóna sér í meðallagi vel. Einföldun þess sé því mikilvæg svo og ráðgjöf, sérstaklega fyrir þá bændur sem eiga í fjárhagslegum erfiðleikum.
„Mér er ljóst að það er stundum tortryggni gagnvart breytingum á landbúnaðarkerfinu,“ sagði ráðherra. „Bændur hafa oft kallað eftir auknum fjármunum til stuðnings landbúnaði og kannski er ykkur það einnig ofarlega í huga. Við erum hins vegar ekki hér til að takast á um fjármagn. Hérna þurfum við fyrst og fremst að horfa á umgjörð stuðnings við landbúnað en við getum samt sagt að það er enginn að tala um að skera hann niður.“