Hlutabréfavísitölur lækkuðu á bandarískum mörkuðum í gær þrátt fyrir að Donald Trump Bandaríkjaforseti hefði tilkynnt um 90 daga tollahlé á flest ríki nema Kína í fyrradag. Hækkaði hann tolla á innfluttar vörur frá Kína í gær í 145% eftir að…

Hlutabréfavísitölur lækkuðu á bandarískum mörkuðum í gær þrátt fyrir að Donald Trump Bandaríkjaforseti hefði tilkynnt um 90 daga tollahlé á flest ríki nema Kína í fyrradag. Hækkaði hann tolla á innfluttar vörur frá Kína í gær í 145% eftir að Kínverjar höfðu svarað með því að setja 84% tolla á vörur frá Bandaríkjunum.

S&P 500-vísitalan lækkaði um 3,5%, Dow Jones-vísitalan um 2,5% og Nasdaq-vísitalan um 4,3%. Gengi hlutabréfa í Warner Bros Discovery féllu um 14% og gengi bréfa féll um 7% í bæði Apple og Amazon.

Trump sagði í ræðu í Hvíta húsinu í gær að alltaf mætti búast við erfiðleikum þegar breytingar ættu sér stað, en bætti þó við að þetta hefði verið „stærsti dagurinn í sögu markaðanna“.

Tollar Kína hafi áhrif

Þá kvaðst hann vera vongóður um að Bandaríkin myndu ná að semja við Kína, „nokkuð sem yrði mjög gott fyrir bæði ríkin“, sagði Trump. Sérfræðingar telja að viðskiptaþvinganir Kína gegn Bandaríkjunum hafi áhrif á fjárfesta í Bandaríkjunum og því hafi hlutabréfavísitölur lækkað.

Hlutabréfavísitölur hækkuðu á bæði evrópskum og asískum mörkuðum í gær. » 14, 16 og 17