— Morgunblaðið Eggert
Íslenska kvennalandsliðið í handknattleik tryggði sér í gærkvöldi sæti á HM 2025, sem fer fram í Þýskalandi og Hollandi í lok árs. Ísland gerði það með því að vinna tvo örugga sigra á Ísrael á Ásvöllum, í gærkvöldi og á miðvikudagskvöld

Íslenska kvennalandsliðið í handknattleik tryggði sér í gærkvöldi sæti á HM 2025, sem fer fram í Þýskalandi og Hollandi í lok árs. Ísland gerði það með því að vinna tvo örugga sigra á Ísrael á Ásvöllum, í gærkvöldi og á miðvikudagskvöld.

Leiknum í gærkvöldi lauk með 31:21-sigri og leiknum í fyrrakvöld lauk með 39:27-sigri. Samanlagt vann Ísland því einvígið auðveldlega, 70:48.

Ísland er þar með á leið á sitt þriðja stórmót í röð og annað heimsmeistaramót í röð.

Mikil ólga var fyrir leikina tvo og beindi ríkislögreglustjóri þeim tilmælum til HSÍ að leika skyldi þá báða fyrir luktum dyrum vegna ástandsins á Gasasvæðinu. Engir áhorfendur voru því á Ásvöllum en mótmælendur létu sjá sig fyrir utan keppnishöllina og börðu til að mynda á hurðir meðan á fyrri leiknum stóð.

Í samtali við Morgunblaðið kvaðst Arnar Pétursson landsliðsþjálfari ósáttur við að Ísrael hefði verið leyft að spila leikina. „Ég er ósáttur við það. Mér finnst að alþjóðlega íþróttahreyfingin eigi að taka á þessu og að alþjóðasamfélagið ætti að taka á þessu. Mér finnst að ákvörðunin eigi að vera tekin annars staðar en hjá leikmönnum.“

Sömuleiðis fannst honum krafa sem heyrðist um að leikmenn sniðgengju leikina vera ósanngjörn. „Mjög ósanngjörn. Hvað hefði það þýtt? Við hefðum fengið einhverja refsingu, sem er minni háttar í þessu stóra samhengi. Ísrael hefði þá farið inn á stórmótið.

Við höfðum ekki trú á að einhver annar tæki á því. Sagan segir að svo sé ekki. Stelpurnar svöruðu þessu á góðan hátt, tóku þetta í sínar hendur, spiluðu leikina vel og komu í veg fyrir að Ísrael yrði áfram í keppninni. Ég er ánægður og stoltur af því.“