Bogi Nils Bogason
Bogi Nils Bogason — Bogi Nils Bogason
Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair stakk niður penna hér á síðum blaðsins í gær og furðaði sig á stefnu stjórnvalda gagnvart ferðaþjónustunni, einni mikilvægustu útflutningsgrein þjóðarinnar. Bogi benti á að ferðaþjónustan væri mannaflsfrek og…

Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair stakk niður penna hér á síðum blaðsins í gær og furðaði sig á stefnu stjórnvalda gagnvart ferðaþjónustunni, einni mikilvægustu útflutningsgrein þjóðarinnar. Bogi benti á að ferðaþjónustan væri mannaflsfrek og að hér á landi hefði hún þurft að bera mun meiri launahækkanir en í nágrannalöndunum á liðnum árum. Af því fái ríkið auknar skatttekjur.

Á sama tíma hafi stjórnvöld í samkeppnislöndum í nágrenninu sett verulegar fjárhæðir í markaðssetningu landanna, ólíkt því sem íslensk stjórvöld hafi gert á síðustu árum. Augu erlendra ferðaþjónustuaðila hafi því beinst í auknum mæli annað. Á síðustu vikum hafi aðstæður einnig breyst vegna neikvæðra teikna frá Bandaríkjunum, en þar sé mikilvægasti markaður Íslands sem ferðamannalands.

Bogi hefur áhyggjur af því að á sama tíma og ferðaþjónustan glími við þessar erfiðu aðstæður skuli ríkisstjórnin áforma frekari skattlagningu á greinina. Ríkisstjórnin virðist að hans mati ekki vera í raunheimum og hann varar við því að þetta verði á endanum til efnahagslegs tjóns fyrir þjóðina.

Sömu áhyggjur hafa komið fram í máli þeirra sem koma að sjávarútveginum, ekki síður mikilvægri útflutningsgrein. Hvernig stendur á því að stjórnvöld telja skynsamlegt nú að leggja auknar byrðar á þessar atvinnugreinar?