Svanbjörn Jón Garðarsson fæddist 14. mars 1950 á Sauðárkróki. Jón lést á hjúkrunarheimilinu Dalbæ á Dalvík 29. mars 2025 eftir erfið veikindi.
Foreldrar hans voru hjónin Garðar Björnsson f. 27. maí 1920, d. 9. febrúar 1978 og Svanhildur Steinsdóttir f. 17. okt. 1918, d. 26. ágúst 2002. Þau voru bændur á Neðra-Ási í Skagafirði og Svanhildur var kennari og skólastjóri í Grunnskólanum á Hólum.
Systkini Jóns eru Sigurbjörn Jóhann f. 6. des. 1948 d. 6. jan. 1951, Sigríður Sigurbjörg f. 1. jan. 1952, Soffía Steinunn f. 4. jan. 1954, Sigurbjörn Jóhann f. 2. ágúst 1957, Erlingur f. 10. febrúar 1959 og Ásdís f. 6. maí 1960. Samfeðra systkin eru Anna Jóna Garðarsdóttir f. 28. nóv. 1945 og Rosemarie Karlsdóttir f. 31. júlí 1951. Uppeldisbróðir þeirra var Ásbjörn Arnar f. 28. júní 1942 d. 29. jan. 2017.
Jón kvæntist 25. desember 1977 Sigurbjörgu S. Magnúsdóttur f. 28. nóvember 1953. Foreldrar hennar voru Magnús Helgi Sigurbjörnsson trésmiður f. 21. maí 1929, d. 5. apríl 1976 og Hildigunnur Kristinsdóttir húsfreyja f. 18. júlí 1930, d. 29. okt. 2007. Bjuggu þau á Dalvík.
Jón og Sigurbjörg hófu sambúð á Sauðárkróki árið 1977. Keyptu þau land af foreldrum Jóns Í Neðra-Ási og bjuggu þar á árunum 1980-2018. Í upphafi voru þau með fjár- og kúabúskap en seinna meir snéru þau sér að hestatengdri ferðaþjónustu og stofnuðu fyrirtækið Áshesta. Jón og Sigurbjörg fluttu til Dalvíkur árið 2018.
Jón og Sigurbjörg eiga saman 2 börn: Magnús Helga f. 25. nóv. 1976 og Soffíu f. 5. sept. 1981. Magnús er giftur Berglindi Björk Stefánsdóttur f. 29. nóv. 1979. Eiga þau saman Írisi Björk f. 3. mars 2006, Hákon Daða f. 24. okt. 2007, Kötlu Hrönn f. 7. nóv. 2013. Soffía er gift Agli Árna Pálssyni f. 12. feb. 1977. Þau eiga saman Júlíu Freydísi f. 5. des. 2008, og Emilíu Ísold f. 7. sept. 2011.
Jón var ætíð vinnusamur, hann tók ungur mikinn þátt í búskapnum og var fjárglöggur. Hann var sérstaklega frár á fæti og þolinn. Sem fleytti honum langt í fótbolta og íþróttakeppnum þar sem hann vann til margra verðlauna í langhlaupum.
Hann sótti farskóla í Hjaltadalnum, útskrifaðist sem búfræðingur frá Bændaskólanum á Hólum og lærði járningar í Danmörku. Fyrir utan bústörfin, starfaði hann hjá Sláturhúsinu á Sauðárkróki við kjötmat og við ullarmat hjá RALA. Hann fór til sjós á vetrarvertíð og vann m.a. hjá Steinull og Loðskinn á Sauðárkróki.
Áhugi á hestum og hestamennsku kviknaði snemma og vann hann til margra verðlauna á hestinum Sokka. Jón stundaði alla tíð tamningar og hrossaræktun.
Hann tók virkan þátt í félagsstarfi t.d. Lions, hestamannafélaginu Svaða, sat í hreppsnefnd Hólahrepps og var Fjallskilastjóri Hóla- og Viðvíkurhrepps. Jón var Framsóknarmaður og tók þátt í starfi Framsóknar í Skagafirði. Hann var meðlimur í Veðurklúbbnum á Dalbæ og tók þátt í starfi eldri borgara á Dalvík.
Útför hans fer fram frá Dalvíkurkirkju í dag, 11. apríl 2025, kl. 13.
Það er þyngra en tárum taki að setjast niður og skrifa minningarorð um þig elsku pabbi. Minningarnar streyma fram og tárin líka.
Hugurinn reikar heim í sveitina í Neðra-Ási þar sem ég var oft með pabba í
hestastússi, hvort sem það var í hesthúsinu, við smölun, að aðstoða við
reiðnámskeiðin, hestaleiguna eða hestaferðirnar. Í minningunni var hann
alltaf að, enda næg verkefnin í sveitinni.
Pabbi var víðlesinn, sagði skemmtilega frá og hann var hnyttinn í tilsvörum. Hann var félagslyndur og naut sín vel í góðra vina hópi, þá voru oft sagðar sögur og mikið hlegið með neftóbakið við höndina. Pabbi fór ekki í manngreinarálit og átti vini úr öllum áttum. Hann mældi ekki lífsgæði í peningum né dauðum hlutum. Barnabörnin fimm, sem hann kallaði alltaf trippin sín, áttu hug hans allan og var væntumþykjan gagnkvæm. Pabbi var duglegur að spyrja frétta af þeim, naut samverunnar með þeim og alltaf var stutt í stríðnina í báðar áttir. Hann bauð þeim stundum í bíltúr og fannst þeim afi bæði keyra fullhægt og horfa lítið á veginn og var þá óspart skotið á hann. Barnabörnin elskuðu að koma til ömmu og afa, afi bauð upp á ís og græjaði heita pottinn fyrir þau, svo var dýnum skellt á stofugólfið og gistu þau öll saman og nutu dekursins.
Það var foreldrum mínum ekki léttvæg ákvörðun að fara frá Neðra-Ási, en
gigtin gerði pabba ómögulegt að sinna áfram bústörfum. Þau komu sér vel
fyrir á Dalvík og naut pabbi nálægðarinnar við barnabörnin þar, börn
Magnúsar bróður. Pabbi var meðlimur í Veðurklúbbnum á Dalvík, tók þátt í
starfi eldri borgara á Dalvík. Hitti félaga í göngutúrum og kaffispjalli.
Mamma og pabbi höfðu ánægju af að ferðast bæði innanlands og erlendis.
Afmælisferð pabba til Grænlands var honum ógleymanleg og ferð
stórfjölskyldunnar til Kanaríeyja í tilefni stórafmælis mömmu. Minningarnar
ylja svo sannarlega á stundum sem þessum.
Á þessum tíma var farið að bera á einkennum lungnasjúkdómsins. Í kjölfar
alvarlegra lungnabólgna fyrir rúmu ári samfara versnun á lungnasjúkdómnum
náði pabbi sér því miður aldrei á strik aftur. Hann þurfti að sætta sig við
að notast við hjólastól og súrefnisaðstoð. Algjör viðsnúningur varð á lífi
hans og mömmu og allrar fjölskyldunnar. Pabbi lagði sig allan fram um að ná
bata, sama hversu lítil skrefin væru. Það gaf honum mikið að finna samhug
frá góðu fólki sem voru duglegt að kíkja í heimsókn, hringja og bjóða honum
í bíltúr ef heilsan leyfði. Við pabbi skruppum í dagsferð í Skagafjörðinn í
sumar, hann hafði ekkert komist milli sýslna eftir veikindin. Við fylltum
bílinn af súrefniskútum og hjálpartækjum og lögðum af stað. Það var eins og
við manninn mælt þegar við keyrðum yfir Öxnadalsheiðina og horfðum niður í
fjörðinn fagra að það birti upp með sól og fallegu veðri. Skagafjörðurinn
skartaði sínu fegursta. Við tókum stopp á nokkrum bæjum þar sem hann
heilsaði upp á ættingja og góða vini. Því næst tókum við hring í
Hjaltadalnum og nestispásu í Áskoti. Þar hafði pabbi ræktað upp land sem nú
er skjólsælt og fallegt svæði, sem honum þótti vænt um. Eftir góða kríu í
Áskoti héldum við ferðinni áfram, út Fljótin og yfir Lágheiðina og pabbi
sagði mér skemmtilegar sögur frá fjölmörgum hestaferðum sínum um
Tröllaskagann. Þetta reyndist hans síðasta ferð í Skagafjörðinn sem ég er
þakklát fyrir að hann gat notið til hins ýtrasta þar sem fólkið og
fjörðurinn tóku vel á móti okkur.
Heilsu pabba fór að hraka enn frekar eftir því sem leið á veturinn. Hann
tókst á við veikindin af miklu æðruleysi. Mamma stóð eins og klettur við
hlið pabba, vakin og sofin yfir líðan hans. Það gerði honum kleift að geta
verið heima mun lengur en annars og var hann mjög þakklátur fyrir það.
Undir það síðasta fór hann á hjúkrunarheimilið Dalbæ á Dalvík. Við erum
þakklát því góða fólki sem kom að umönnun pabba í veikindum hans.
Þín verður sárt saknað elsku pabbi, ég veit að þú vakir yfir okkur og
verndar hópinn þinn.
Hvíl í friði.
Þín dóttir,
Soffía.