Seðlabankinn Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri vitnaði í Voltaire á fundinum.
Seðlabankinn Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri vitnaði í Voltaire á fundinum. — Morgunblaðið/Karítas
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hélt erindi á ársfundi bankans á miðvikudag. Þar sagði hann meðal annars að þær raddir væru orðnar háværar að þjóðin hefði ekki efni á þjóðhagsvarúð sem hér hefur verið byggð upp undanfarin ár

Magdalena Anna Torfadóttir

magdalena@mbl.is

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hélt erindi á ársfundi bankans á miðvikudag. Þar sagði hann meðal annars að þær raddir væru orðnar háværar að þjóðin hefði ekki efni á þjóðhagsvarúð sem hér hefur verið byggð upp undanfarin ár.

„Sagt er að íslenskir bankar búi við of miklar eiginfjárkvaðir og séu því ósamkeppnishæfir. Leiðirnar til að bæta úr þessu væru annaðhvort sameining banka eða að létta á kvöðum. Ég vil í þessu sambandi biðja fólk að staldra aðeins við og líta aftur til síðustu fimm ára og hvernig hægt er að ná árangri í rekstri án þess að auka gírun og skuldsetningu í kerfinu,“ sagði Ásgeir.

Hann sagði að árið 2019 hefðu hreinar vaxtatekjur hinna þriggja kerfislega mikilvægu banka verið 100 milljarðar króna. Á síðasta ári voru þær 150 milljarðar. Þetta er 16% aukning að raunvirði. Á sama tíma hefði rekstrarkostnaður aukist um sjö milljarða króna, eða lækkað um 19% að raunvirði.

„Þannig lækkaði kostnaðarhlutfall bankanna miðað við reglulegar tekjur úr 57% 2019 í 43% á síðasta ári. Vaxtamunurinn er nokkurn veginn sá sami. Þetta er ekkert annað en bylting í íslenskum bankarekstri! Því er heldur ekki að undra að arðsemi bankanna þriggja hafi verið helmingi betri hin síðustu fjögur ár en næstu fjögur þar á undan. Á árunum 2017 til 2020 var meðalarðsemi bankanna 5,7% en 11,7% á árunum 2021 til 2024,“ sagði hann í ræðu sinni.

Hann sagði að góð afkoma og öflug þjóðhagsvarúð færu því saman og hann gæti ekki stillt mig um að vitna í lokaorð Birtíngs eftir Voltaire (í þýðingu Halldórs Laxness) um að „maður verður að rækta garðinn sinn“.

„Ég fæ ekki betur séð en að stóru bankarnir þrír hafi náð undraverðum árangri í gróðri og garðrækt á sínum eigin heimareitum á síðustu fimm árum – og jafnframt að ótal tækifæri séu enn fyrir hendi. Ég vil hér undirstrika að besti grunnurinn fyrir traustri arðsemi fjármálakerfisins til langs tíma er hagstjórn er tryggir stöðugleika. Sú staðreynd ætti að vera bæði skýr og augljós – þetta er lexía sem við ættum að hafa lært mörgum sinnum. Kjarni málsins er þessi: Öflug þjóðhagsvarúð og fjármálaeftirlit skapa stöðugri tekjur fyrir fjármálakerfið og minnka líkur á útlánatöpum og kollsteypum,“ sagði Ásgeir.

Höf.: Magdalena Anna Torfadóttir