Úkraína hefur ekki verið áberandi á fréttaratsjánni í tollafárinu, sem skekið hefur markaði og hrist upp í viðskiptalífi, en það þýðir ekki að átökum sé að linna. Þvert á móti hafa Rússar gefið í upp á síðkastið og hert sókn sína.
Í gær var greint frá því að Steve Witkoff, erindreki Bandaríkjastjórnar, væri staddur í Rússlandi. Þetta er þriðja heimsókn hans til Moskvu og er erindið að þrýsta á um vopnahlé. Í gærmorgun vildi talsmaður rússneskra stjórnvalda þó ekki staðfesta að Witkoff myndi hitta Vladimír Pútín, forseta Rússlands.
Witkoff hefur nú hitt Pútín þrisvar eftir að Donald Trump tók við embætti forseta. Eftir annan fundinn sagði Witkoff að Pútín væri „frábær leiðtogi“ og „ekki slæmur náungi“.
Vísbendingar eru um þíðu milli Bandaríkjanna og Rússlands. Í vikunni áttu sér stað fangaskipti. Rússar létu lausa Kseniu Karelinu, ballerínu af rússneskum uppruna, og á móti slepptu Bandaríkjamenn manni sem hafði smyglað tæknilegum upplýsingum til Rússa.
Karelina var handtekin í janúar þegar hún heimsótti fjölskyldu sína í Rússlandi og dæmd í tólf ára fangelsi fyrir „landráð“. Hún hafði ánafnað andvirði sjö þúsund króna til góðgerðarsamtaka, sem styrkja Úkraínu.
Bandaríkjamenn og Rússar héldu einnig fund í Istanbúl á fimmtudag um að koma starfsemi sendiráða sinna í Moskvu og Washington í það horf sem það var fyrir innrásina og koma á beinu flugi milli ríkjanna að nýju. Sérstaklega var kveðið á um að stríðið í Úkraínu væri utan dagskrár.
Hvað sem þessum þreifingum líður hefur Trump ekkert orðið ágengt með að koma á vopnahléi í Úkraínu og er meira að segja farinn að hreyta ónotum í Pútín, sagðist bæði reiður út í hann og hundfúll þegar forseti Rússlands dró trúverðugleika Volodimírs Selenskís í efa og hvatti til þess að bráðabirgðastjórn yrði skipuð í Úkraínu undir forsjá Sameinuðu þjóðanna. Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði í liðinni viku að Bandaríkjastjórn myndi ekki líða „endalausar samningaviðræður“ við Rússa um Úkraínu.
Í ofanálag hafnaði Pútín sameiginlegri tillögu Bandaríkjamanna og Úkraínumanna um skilyrðislaust allsherjarvopnahlé og var Trump ekki skemmt.
Trump lét óþolinmæði sína einnig í ljós í gær. Rétt áður en Witkoff gekk á fund Pútíns sagði Trump að Rússar yrðu að hefjast handa við að enda þetta „glórulausa stríð“, sem „aldrei hefði átt að eiga sér stað“.
Eina útspil Rússa var vopnahlé á Svartahafi. Það var hins vegar engin eftirgjöf af hálfu Pútíns því að þar hafa Úkraínumenn haft yfirhöndina og Rússar átt í vök að verjast.
Úkraínumenn tala þessa dagana um að vorsókn Rússa sé hafin. Í rúma viku hefur rússneski herinn sótt fram af aukinni hörku á víglínunni í héruðunum Sumi og Karkív.
Að auki hafa árásir til að skjóta almennum borgurum skelk í bringu verið hertar. Rússar ráðast á íbúðahverfi í fjölda borga í Úkraínu ýmist með því að senda drónager eða skjóta sprengiflaugum. Á föstudag var gerð sprengjuárás á leikvöll og íbúðahverfi í Kríví Rí, fæðingarbæ Selenskís, með þeim afleiðingum að tuttugu íbúar féllu, þar á meðal níu börn og unglingar.
Það er rétt hjá Trump að stríðið í Úkraínu er glórulaust. Pútín gerði allsherjarinnrás í landið fyrir rúmum þremur árum, en í raun hefur stríðið staðið síðan 2014 þegar Rússar innlimuðu Krímskaga og réðust inn í Donbas.
Með stríðinu hefur lífi Úkraínumanna verið snúið á hvolf. Skúli Halldórsson aðstoðarfréttastjóri var á vettvangi nýlega og lýsir heimsókn sinni í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. Þar ræðir hann meðal annars við hermenn, sem hafa særst í stríðinu, menn, sem hafa misst útlimi og nú þurfa að fara í gegnum erfiða endurhæfingu. Einn var framkvæmdastjóri fyrirtækis fyrir stríðið, annar myndatökumaður og ljósmyndari, sem fór til starfa á vettvangi þegar átökin hófust. Líkt og svo margir Úkraínumenn höfðu þeir aðrar áætlanir með líf sitt en að leggja það undir á vígvellinum til að verjast Rússum. Þeir eru á lífi, en það má segja að Pútín hafi rænt þá því lífi sem þeir héldu að þeir ættu í vændum.
Grein Skúla er holl lesning til að minna á þær tilgangslausu hörmungar og eyðileggingu, sem Pútín hefur kallað yfir Úkraínu.