Bubbi Morthens Er ein af íslensku blússtjörnunum á hátíðinni.
Bubbi Morthens Er ein af íslensku blússtjörnunum á hátíðinni. — Ljósmynd/Mummi Lú
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir áralangt hlé snýr Blúshátíðin nú aftur til síns heima á Hilton Reykjavík Nordica og verður hún haldin samkvæmt hefð í dymbilvikunni, dagana 16. og 17. apríl. Blúsdagurinn setur hins vegar hátíðina laugardaginn 12

Anna Rún Frímannsdóttir

annarun@mbl.is

Eftir áralangt hlé snýr Blúshátíðin nú aftur til síns heima á Hilton Reykjavík Nordica og verður hún haldin samkvæmt hefð í dymbilvikunni, dagana 16. og 17. apríl. Blúsdagurinn setur hins vegar hátíðina laugardaginn 12. apríl í Krúser-klúbbnum og opið djamm-session fer fram í Djúpinu þriðjudaginn 15. apríl þar sem allir geta spreytt sig á blúsforminu. Guðmundur Pétursson, gítarleikari og listrænn stjórnandi hátíðarinnar, segir að á dagskrá séu bæði erlendar og innlendar blússtjörnur en meðal listamanna sem koma fram, ásamt Guðmundi sjálfum, eru Bubbi Morthens, Davíð Þór, Carolyn Wonderland, Steini Hjálmur, Fríða Dís, Shelley King, Óskar Logi, LeBurn Maddox og gömlu Vinir Dóra sem munu stíga á stokk með hinstu kveðju. „Hátíðin var fyrst haldin 2004 á Hótel Borg en fluttist svo yfir á Hilton-hótelið sem varð síðan að nokkurs konar bækistöð hátíðarinnar enda voru fastagestir hennar og aðdáendur orðnir vanir þeim stað og aðstöðunni, sem er alveg frábær. Síðan kom covid og setti strik í reikninginn en hátíðin var engu að síður endurvakin í smærri mynd rétt í lok heimsfaraldursins. Nú snýr hún hins vegar aftur í sinni upprunalegu mynd á Hilton, á sínar gömlu heimaslóðir, og er dagskráin orðin fjölbreyttari og stærri eða svona nær því sem hún var,“ útskýrir hann.

Blanda af flottu tónlistarfólki

Inntur eftir valinu á listamönnunum segir Guðmundur markmiðið hafa verið að endurvekja hátíðina eins og hún var með því að fá erlenda gesti að utan. „Við fáum tvær konur frá Bandaríkjunum, Carolyn Wonderland og Shelley King, en Carolyn er vel þekkt í Ameríku og hefur troðið upp með fólki eins og Bonnie Raitt og John Mayall, sem eru stór nöfn í blúsheiminum. Einnig fáum við LeBurn Maddox sem einnig er frá Bandaríkjunum en starfar í Evrópu svo það var stutt fyrir hann að koma,“ segir hann og bætir við að hann hafi einnig viljað bjóða upp á blöndu af tónlistarfólki sem hafi ekki komið fram á hátíðinni áður þar sem hugmyndin sé að víkka hana aðeins út. „Eins og Bubbi Morthens, sem á klárlega stórar og miklar rætur í blúsnum og byrjaði á því að koma fram með Ísbjarnarblús, og Steini Hjálmur sem á rætur í blúsnum líka þótt hann sé þekktur fyrir sitt reggí. Svo má ég til með að nefna Fríðu Dís sem er ein af þessu unga tónlistarfólki sem vakti snemma athygli á hátíðinni. Það er mjög gaman að fá hana aftur því hún er alveg að blómstra núna.“ Segir hann mikla eftirvæntingu fyrir hátíðinni enda sé blúsinn órjúfanlegur hluti af sögunni. Kynnir verður Freyr Eyjólfsson en að lokinni formlegri dagskrá heldur klúbbur Blúshátíðarinnar áfram inn í nóttina þar sem tónleikagestir geta notið lifandi tónlistar í afslöppuðu umhverfi. „Þetta er í rauninni félagsstarf með fullt af sjálfboðaliðum og af því að hátíðin er orðin eins og hún var er búið að ræsa út allan þennan mannskap sem kemur að skipulagningu hennar. Það er því gríðarlega góð stemning og andi í kringum hátíðina. Ég skynja að fólk hafi þráð að koma aftur,“ segir Guðmundur en nánari upplýsingar um hátíðina má finna á midix.is.

Höf.: Anna Rún Frímannsdóttir