Landsfundur Samfylkingarinnar – jafnaðarflokks Íslands hófst í Reykjavík í gær. Á fundinum er fagnað 25 ára afmæli Samfylkingarinnar sem var formlega stofnuð 5. maí 2000 en hreyfingin bauð fyrst fram til Alþingis vorið 1999. Með stofnun Samfylkingarinnar lauk sundrunginni sem einkennt hafði vinstrivæng íslenskra stjórnmála frá fjórða áratug 20. aldarinnar. Uppruna Samfylkingarinnar má rekja til ársins 1916 þegar Alþýðuflokkurinn var stofnaður en að stofnun hennar stóðu einnig Alþýðubandalagið og Samtök um kvennalista, sem skuldbundu sig til að leggja niður gömlu flokkana. Það var hvorki sjálfsagt né sársaukalaust ferli. Áður höfðu þessir flokkar, ásamt þingmönnum Þjóðvaka, sameinast í þingflokki jafnaðarmanna á Alþingi. Tveimur mánuðum fyrir alþingiskosningarnar vorið 1999 klauf hópur sig út úr sameiningarvinnunni og stofnaði Vinstrihreyfinguna – grænt framboð. Það er ástæða til að rifja þessa sögu upp hér þótt hún sé mörgum okkar í fersku minni.
Samfylkingin leiðir nú ríkisstjórn í annað sinn frá aldamótum. Í bæði skiptin undir forystu kvenna í formannsembætti. Jóhanna Sigurðardóttir leiddi ríkisstjórn Samfylkingar og VG frá 2009 til 2013. Í desember var mynduð ný þriggja flokka ríkisstjórn í landinu undir forystu Kristrúnar Frostadóttur. Forystukonur stjórnarinnar hafa á fyrstu vikum samstarfsins tekið til óspilltra málanna við landsstjórnina. Það leika ferskir vindar um íslenskt samfélag.
Fyrir alþingiskosningarnar 30. nóvember sl. lagði Samfylkingin fram plan um efnahagslegan stöðugleika og bráðaaðgerðir í húsnæðismálum. Plan um örugg skref til þess að leysa brýnustu áskoranir í velferðarmálum. Að rjúfa kyrrstöðuna sem ríkt hefur í uppbyggingu innviða um allt land. Á rúmlega 100 dögum hefur ný ríkisstjórn lagt fram frumvörp sem fela í sér bráðaaðgerðir í húsnæðismálum, þjóðarátak í umönnun eldra fólks, bindingu lífeyrisgreiðslna við launavísitölu, bætt kjör öryrkja, styrkingu fæðingarorlofslöggjafar, leiðrétt veiðigjöld og stóraukin framlög til vegabóta og heilbrigðisþjónustu. Einnig hafa verið gerðir tímamótasamningar við sveitarfélögin um uppbyggingu hjúkrunarheimila og þjónustu við börn með fjölþættan vanda.
Yfirskrift landsfundarins – Sterkari saman! – vísar til þess að Samfylkingin sé vettvangur fyrir öll þau sem styðja grunngildi jafnaðarstefnunnar, jafnrétti og virðingu fyrir mannréttindum. Og hún vísar einnig til þess að við sem byggjum þetta land þurfum að standa saman um nauðsynlegar umbætur og framfarir sem munu skila okkur öllum velferð, uppbyggingu og hagsæld til framtíðar.
Höfundur er forseti Alþingis. tsv@althingi.is