Stefnuræða Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra kynnti nýja stöðugleikareglu um fjármál ríkisins í stefnuræðu sinni í janúar.
Stefnuræða Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra kynnti nýja stöðugleikareglu um fjármál ríkisins í stefnuræðu sinni í janúar. — Morgunblaðið/Eyþór
Í álitsgerð fjármálaráðs vegna fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2026-2030 er dregið í efa að ný stöðugleikaregla ríkisstjórnarinnar stuðli að lækkun skulda og að hún sé nægilega ströng. „Fjármálaráð hefur oft varað við því að…

Andrea Sigurðardóttir

andrea@mbl.is

Í álitsgerð fjármálaráðs vegna fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2026-2030 er dregið í efa að ný stöðugleikaregla ríkisstjórnarinnar stuðli að lækkun skulda og að hún sé nægilega ströng.

„Fjármálaráð hefur oft varað við því að stjórnvöld festi sig í þökum og gólfum tölusettra skilyrða laga um opinber fjármál. Þessi varnaðarorð eiga enn við enda þótt útgjaldaregla komi nú í stað afkomureglu. Ef svigrúm til útgjaldaaukningar er aukið í djúpum niðursveiflum, en tveggja prósenta raunaukning útgjalda er fullnýtt utan þeirra, verður erfitt að greiða niður skuldir til að takast á við síðari efnahagsáföll sem munu óhjákvæmilega eiga sér stað,“ segir í álitsgerðinni.

Reynsla annarra landa hafi sýnt að ef hægt er að brjóta fjármálareglur án afleiðinga hafi almennt reynst erfitt að fá stjórnvöld til að líta á tölusett skilyrði sem hámörk og lágmörk. „Tölusett skilyrði eiga það því til að vera ekki nægilega bindandi.“

Samhliða hafa töluleg skilyrði skuldalækkunarreglu verið afnumin. Þess í stað er stjórnvöldum gert að setja fram skuldaþróunaráætlun byggða á greiningum á A1-hluta ríkissjóð og A-hluta sveitarfélaga þegar skuldir eru umfram hámark reglunnar. Fjármálaráði er falið að meta hvort áætlunin virðist geta uppfyllt skuldareglu innan „ásættanlegs“ tíma.

„Í stjórnmálum er algengt að þó samkomulag ríki um óbindandi reglu þá er oft freistandi að víkja frá markmiðum hennar þegar kemur að framkvæmd. […] Hætta er á að ásættanlegur tími verði aðeins dauður bókstafur sakir fyrrnefndrar tilhneigingar stjórnvalda.“

Ekki nógu ströng

Í því samhengi óttast fjármálaráð að útgjaldareglan í stöðugleikareglunni sé ekki nógu ströng.

„Til þess að útgjaldaregla í ríkisfjármálum virki þarf hún bæði að vera ströng, þ.e. að einungis séu fáir vel skilgreindir útgjaldaliðir sem reglan nær ekki til, og bindandi en á sama tíma þarf hún að gefa nægilegt svigrúm til að hægt sé að bregðast við ytri þróun með viðeigandi hætti. Útgjaldaregla þar sem frávik frá reglunni er flutt á milli ára myndi tryggja slíkan sveigjanleika.“

Stöðugleikareglan feli í sér undanþáguákvæði sem bjóði upp á að vikið sé frá henni í meiri háttar og óvenjulegum aðstæðum.

„Með því að gera regluna [um flutning frávika milli ára] bindandi þyrfti því að jafna slík óvenjuleg útgjöld á næstu árum ef ekki er hægt að standa undir þeim með uppsöfnuðum heimildum fyrri ára. Þannig mætti koma í veg fyrir ótilhlýðilega notkun undanþágunnar og tryggja að jöfnuður náist að meðaltali.“

Undanþágur of víðtækar

Þá veltir fjármálaráð því upp hvort nægilega sterk rök séu fyrir því að undanskilja alla þá útgjaldaliði sem eru undanskildir samkvæmt reglunni. Erfitt sé að færa rök fyrir því að undanskilja eigi öll áföll sem rekja megi til náttúruhamfara. „Ísland er land þar sem veður eru válynd, jörð skelfur og eldfjöll gjósa títt og að einhverju marki ættu stjórnvöld að gera ráð fyrir slíku í áætlunum sínum.“

Meginreglan sé sú að aðeins ætti að undanskilja þau útgjöld sem torvelda sjálfvirkum sveiflujöfnurum að vinna sitt verk.

„Með öðrum orðum, undanskildir liðir ættu aðeins að vera hagsveifludrifnir eða áföll sem snúa að stóráföllum eins og heimsfaraldri eða meiri háttar náttúruhamförum.“

Þá leyfi ákvæði, um að auka megi við útgjöld ef slík útgjaldaaukning sé fjármögnuð með aukinni skattheimtu, stjórnvöldum að „hafa áhrif á umfang hins opinbera til samræmis við pólitískan vilja þeirra og stefnumörkun“.

Fjármálaráð er sjálfstætt í störfum sínum og starfar samkvæmt lögum um opinber fjármál. Ráðinu er ætlað að tryggja að fram fari hlutlægt mat á stefnumörkun í opinberum fjármálum.

Höf.: Andrea Sigurðardóttir