Sigurgeir Sigmundsson fæddist 23. september 1957. Hann lést 21. mars 2025.

Útför Sigurgeirs fór fram 31. mars 2025.

Minn kæri frændi Sigurgeir Sigmundsson hefur kvatt okkur allt of fljótt. Þessi öðlingsdrengur sem gekk í málin þegar á þurfti að halda. Við töluðum stundum saman í síma og það var yfirleitt ekki mikið minna en klukkutími, nóg um að tala enda báðir innfæddir Kotarar. Fjölskylda foreldra Sigurgeirs var einstaklega fín fjölskylda, alltaf opið fyrir gesti og gangandi. Ég var vetrarpart í fæði og húsnæði hjá þeim þó að plássið væri takmarkað. Hlýjan umvafði þetta heimili. Þá var Sigurgeir bara lítill strákur og yngstu systkinin yndislega skemmtileg og komu stundum upp í fangið á frænda. Eitt langar mig að minnast á sem lýsir Sigurgeiri vel. Rúnar bróðir minn, sem bjó á Akureyri, barðist við sams konar sjúkdóm og Sigurgeir og komið var að leiðarlokum hjá honum. Sigurgeir fréttir að Rúnar langi svo að koma í Kotið, fæðingar- og uppeldisstað sinn, í síðasta sinn en treysti sér ekki til að sitja í bíl alla þessa leið. Þá hefst Sigurgeir handa eins og hans var von og vísa. Hann talar við félaga sinn í fluginu og fær hann til að fljúga norður og sækja Rúnar og fljúga með hann suður í Múlakot í Fljótshlíð. Þetta var mikil ævintýraferð og gaman þegar Sigurgeir sagði mér söguna, auðvitað var hann með að sjá hvar væri gat í skýjunum! Geri aðrir betur. Þetta sýnir kærleika og umhyggju af stærstu gerð. Við áttum símtöl undir hans síðasta og hann var svo bjartsýnn á bata og við báðum góðan Guð að taka hann ekki strax frá fjölskyldunni sinni, börnunum og barnabörnunum sem hann þreyttist ekki að segja mér frá. En þeir sem Guð elskar deyja ungir segir máltækið, ég get séð fyrir mér frændurna uppi á himnum með málband og hamar enda báðir meistarar í sínu fagi.

Ég vil senda Kristínu eiginkonu hans, börnum þeirra og allri fjölskyldu þeirra beggja innilegar samúðarkveðjur.

Himneskt

er að vera

með vorið

vistað í sálinni,

sólina

og eilíft sumar

í hjarta.

Því hamingjan

felst í því

að vera með

himininn

í hjartanu.

Lifi lífið!

(Sigurbjörn Þorkelsson)

Már Guðnason, Kirkjulækjarkoti.