Gunnlaugur Snær Ólafsson
gso@mbl.is
Homer er um fimm þúsund manna byggð á Kenaískaga í Alaska við Cook-flóa, um 200 kílómetra suðvestur af Anchorage, stærstu borg þessa víðfeðmasta ríkis Bandaríkjanna. Þar má finna litlu útgerðina Kaia Fisheries LLC sem hefur lagt áherslu á veiði á kyrrahafsþorski sem er frændi atlantshafsþorsksins sem við þekkjum betur á Íslandsmiðum. Einnig sækja útgerðir á svæðinu í alaskaufsa og lúðu. Kaia gerir hins vegar út frá Dutch Harbor á Amaknak-eyju sem er um 1.200 kílómetrum vestar en Homer.
Það er mikið puð og púl að stunda sjósókn í Alaska enda hefur afurðaverð verið lágt, jafnvel farið niður í 0,25 bandaríkjadal pundið, eða því sem nemur um 71 krónu á kíló fyrir kyrrahafsþorsk. Á sama tíma hafa fengist um 425 krónur fyrir kílóið af íslenskum þorski, eða 1,5 bandaríkjadalir á pundið. Magn skiptir því miklu máli og snýst allt um að ná sem mestum afla á sem skemmstum tíma. Gæði aflans skipta ekki miklu máli þar sem stóru kaupendur aflans vilja bara stöðugt magn sem nýtt er í mikið unnar matvörur. Þessi fiskur er ekki mikið að rata á dýru veitingahúsin í borgum Bandaríkjanna.
Eigandi útgerðarinnar Kaia, Erik Velsko, hefur hins vegar ákveðið að endurskilgreina hvað það er að reka útgerð á svæðinu á grundvelli íslenskra starfshátta og lítur sérstaklega til aflameðferðar. Þetta kallar á allt aðra nálgun og aðferðarfræði og hefur verið unnið í þá átt í samstarfi við íslensku fyrirtækin Sæplast Americas (dótturfélag Sæplasts), Kapp og Matís og unnið markvisst að því að skila afla í mestu gæðum og fá þannig meira fyrir hvert kíló.
Mun meira geymsluþol
„Þeir þurfa að fiska gríðarlegt magn til að hafa í sig og á og halda áhöfninni. Þeir þurfa að fiska svo mikið að það hefur ekki verið hægt að sinna viðhaldi á skipum, það hefur hreinlega ekki verið tími til þess,“ segir Hilmir Svavarsson framkvæmdastjóri iTub, en það félag er hluti af samsteypu Sæplasts og hefur hann komið að verkefninu undanfarin ár fyrir hönd Sæplasts.
„Í Alaska hafa menn verið að kæla fiskinn bara beint í lestinni. Áður hafa þeir bara dælt aflanum í svokallaða RSW-tanka sem eru svo fylltir með kældum sjó, en það kælir bara ekki nógu vel og þegar menn eru að hleypa aflanum bara beint ofan í lest þá hleypa þeir jafnvel bara vatni út til að koma meiri afla fyrir,“ útskýrir hann.
Með því að blóðga aflann um leið og koma honum tafarlaust í ískrapa úr vél Kapps í einangruð ker frá Sæplasti tekst að viðhalda mun meiri gæðum en með þeirri aðferð sem útgerðir á svæðinu hafa nýtt til þessa. Það eru kannski engin tíðindi fyrir ykkur, kæru lesendur, en það er algjör bylting fyrir útgerð í Alaska, fullyrðir Hilmir. Með íslensku starfsháttunum helst hámarksferskleiki fisksins að meðaltali í 16 daga, sem er sex dögum lengri tími en með fyrri aðferð. Sex dagar eru stórmál ef horft er til þess hve langt Dutch Harbor í Alaska er frá þeim mörkuðum þar sem kaupgeta og greiðsluviljinn er hvað mestur fyrir hágæðasjávarfang. Má nefna að frá Dutch Harbor eru 3.135 kílómetrar í beinni loftlínu til Seattle. Það er ekki ósvipað vegalengdinni frá Keflavík til Quebec-borgar í Kanada.
Sóknarfæri
Hilmir segir Kaia hafa fjárfest í krapavélum frá Kapp en það yrði stór biti að kaupa öll kerin líka. Það sé því hentugt að geta fengið ker í gegnum leigufyrirkomulag.
„Stóru aðilarnir hafa verið eitthvað að kaupa ker af Sæplast Americas til að nota í fiskvinnslum en aldrei um borð í báta. Þetta er þannig nýtt, að verið sé að taka ker í bátana. Skipin hafa ekki verið til þess búin og eyddi Erik miklu fé í að breyta bátnum til að geta tekið ker um borð,“ útskýrir Hilmir.
Hann segir ljóst að með kerunum verði ekki jafn mikið pláss fyrir afla um borð en á móti fáist margfalt hærra verð fyrir hvert landað kíló. Auk þess sem auknar tekjur gefi færi á að draga úr sókn og sparast þá einnig kostnaður vegna olíu og beitu, að sögn Hilmis.
„Það er gaman að taka þátt í umbótaverkefni eins og þessu. Það er gefandi. Við höfum verið að bíða eftir þessu í mörg ár, höfum verið að fylgjast með þessum markaði og tekið eftir því að hugarfarsbreyting er að eiga sér stað. Menn hugsa: Ég ætla að koma að landi með mun betri fisk og jafnvel selja hann sjálfur til Seattle en ekki í gegnum þessi stóru félög. Og það geta þeir gert með þessum búnaði, með því að ísa fiskinn strax um borð í ker, og er hann þannig fluttur alla leið til Seattle,“ segir hann.
Hilmir segist finna fyrir miklum meðbyr í Alaska og einhverjar útgerðir hafa þegar ákveðið að taka upp íslensku aðferðina á næstu vertíð sem hefst í haust. Hann kveðst ekki í vafa um vaxandi sóknarfæri fyrir Sæplast/iTub og Kapp í Alaska.