Lestur hefur alltaf verið órjúfanlegur hluti af lífi mínu. Ég les til að læra, skilja, gleyma, muna, vinna, njóta – og hreinlega til að lifa af. Með lestri opnast nýir heimar því með tilstilli fjölbreyttra frásagna fáum við tækifæri til að sjá lífið frá sjónarhóli annars fólks. Ég held að það sé fátt mikilvægara í lífinu en einmitt það – að setja sig í spor annarra – sem þroskar bæði skilning og samkennd. Bækurnar sem ég valdi að segja frá endurspegla þennan mátt bókmenntanna.
Miðnæturbókasafnið eftir Matt Haig fylgir konu á mörkum lífs og dauða og varpar ljósi á það með hvaða hætti líf hennar hefði getað breyst ef hún hefði tekið aðrar ákvarðanir. Sagan er þannig byggð á draumkenndri ímyndun en spyr líka áleitinna spurninga um tilvist okkar og tilgang í lífinu í anda vísindaskáldsagna.
Blákaldur raunveruleikinn er hins vegar alltumlykjandi í bókinni Vanþakkláti flóttamaðurinn sem er byggð á sögum flóttafólks víða úr heiminum, þar á meðal sjálfsævisögulegum minningum höfundarins Dinu Nayeri. Bókin tilheyrir bókaflokki Angústúru sem hefur það markmið að opna glugga út í heim en ég gæti mælt með hverri einustu bók úr þessum flokki ef fólk vill leitast við að skilja heiminn örlítið betur.
Leitin að skilningi á nánasta umhverfi okkar og heiminum í heild einkennir margar af mínum uppáhaldsbókum. Jarðsetning eftir Önnu Maríu Bogadóttur er einstök í þeim flokki þar sem hún fjallar á áhrifaríkan hátt um tengsl efnis og anda í manngerðu umhverfi okkar, náttúru og samfélagi.
Sjálfsskilningur okkar byggist nefnilega ekki síst á sambandi okkar við annað fólk eins og lesa má um í bókinni Mom & Me & Mom eftir Mayu Angelou þar sem flókið en fallegt samband hennar við mæður sínar sem og hennar eigið móðurhlutverk er í fyrirrúmi. Ég hlusta á hljóðbókina í flutningi Mayu sjálfrar og upplifði lesturinn oft eins og persónulegt samtal við vinkonu.
Bestu lestrarstundirnar á ég þó með börnunum mínum. Nýverið rifjuðum við upp yndislega sögu sem ég las fyrir þau þegar þau voru yngri. Bókin Hvíti björninn og litli maurinn eftir José Federico Barcelona í þýðingu Ólafs Páls Jónssonar er saga sem snertir við hverjum sem les.