Ívan stefnir á að flytja aftur fréttir af innrásarstríði Rússa. Fyrst þarf hann þó að ná bata.
Ívan stefnir á að flytja aftur fréttir af innrásarstríði Rússa. Fyrst þarf hann þó að ná bata. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég brotnaði á fæti og særðist á hendi. Ég missti augað og er með brotnar tennur. En ég er á lífi og ég ætla að ná mér. Ég ætla að vera sterkur og ég ætla að ná mér.

Ég gef mig á tal við mann, um fertugt á að líta, þar sem hann er að ljúka styrktaræfingu með þjálfara. Hann er enn með alla útlimi en gengur haltur. Á hann vantar einnig hægra augað.

„Já, auðvitað,“ segir hann glaður í bragði og lifnar allur við þegar ég spyr hvort hann megi sjá af nokkrum mínútum fyrir viðtal. „Það gleður mig svo mikið að sjá að fólk frá Evrópu hefur áhuga á því sem á sér stað í Úkraínu og líka því sem gert er hérna.“

Ívan Ljúbisj-Kirdey heitir maðurinn og fljótt verður ljóst að hann hefur gengið í gegnum mikið frá upphafi stríðsins og upplifað margt, enda verið myndatökumaður fyrir fréttastofuna Reuters frá því áður en Rússar réðust inn í landið, og hlotið orðu úr hendi forsetans Volodimírs Selenskís fyrir vel unnin störf.

„Allt mitt líf hef ég verið myndatökumaður og ljósmyndari, fyrir dagblöð, sjónvarpsstöðvar og fréttamiðla,“ segir Ívan.

Bakhmút, Ilovaísk, Avdívka og Pokrovsk eru staðarheiti sem margir þeir kannast við sem fylgst hafa með tíðindum af stríðinu. Á öllum þessum stöðum og víðar hefur Ívan starfað og reynt að leiða umheiminum fyrir sjónir miskunnarlaust innrásarstríð Rússa.

Svo fór að stríðið sýndi honum sjálfum enga miskunn.

Skotflaug Rússa hæfði hótelið

Það var á sjálfstæðisdegi Úkraínu í fyrra, 24. ágúst, sem Ívan og fimm aðrir á vegum Reuters lögðust til hvílu á hóteli í Kramatorsk, helstu borginni sem enn er á valdi Úkraínumanna í Donetsk-héraði. Innan við 20 kílómetrar eru þaðan að víglínunni.

Klukkan 22.35 hæfðu Rússar hótelið með Iskander-eldflaug, öflugri skotflaug sem drífur allt að 500 kílómetra að skotmarki sínu. Á svipstundu var það nær jafnað við jörðu.

Einn úr hópnum lést, 38 ára Breti að nafni Ryan Evans. Heima átti hann eiginkonu og fjögur börn, það yngsta átján mánaða. Lík hans fannst í rústum hótelsins eftir nítján klukkustunda leit.

Tveir blaðamenn særðust einnig, eins og Reuters greindi frá næsta dag, annar þeirra alvarlega. Það var Ívan. Hann hafði verið í herberginu á móti Evans.

„Við vorum að flytja fréttir af fólkinu í Kramatorsk. Rússar hæfðu hótelið þá um kvöldið,“ segir Ívan um þennan síðsumarsdag.

Dagana á eftir var honum vart hugað líf. Síðan er liðið um hálft ár, en aðeins fjórir dagar frá því hann steig hér fyrst inn fæti. Enn er langur vegur að bata.

„Í tvo mánuði lá ég meðvitundarlaus. Svo mundi ég ekki neitt. Ég brotnaði á fæti og særðist á hendi. Ég missti augað og er með brotnar tennur. En ég er á lífi og ég ætla að ná mér. Ég ætla að vera sterkur og ég ætla að ná mér.

Því það geisar stríð í landinu mínu. Og ég verð að vinna til að sýna fólkinu í Evrópu hvað er í gangi í Úkraínu. Það verður að taka þetta upp og sýna öllum ríkjum Evrópu og Bandaríkjunum, sérstaklega. Sýna hermennina okkar og hvernig þeir verjast óvininum.“

Það fer ekki á milli mála að Ívan er staðráðinn í að snúa aftur til starfa.

„Ég ætla að vinna aftur fyrir Reuters. Enginn vafi á því, ég ætla að taka myndavélina mína og ég ætla að mynda.“