Sigríður Jónsdóttir fæddist 7. október 1954. Hún lést 22. mars 2025.

Útförin fór fram 10. apríl 2025.

Með djúpri sorg kveð ég Lillu frænku mína og vinkonu, sem var mér svo kær.

Við vorum systradætur, fæddar á sama árinu. Frá því að vera leikfélagar, fylgjast að í grunnskóla og skemmta okkur á sveitaböllum unglingsáranna, til þess að styrkja hvor aðra í gegnum lífið, var samband okkar bæði náið og einstakt.

Lilla var einstaklega hlý, góð og óeigingjörn manneskja sem var aldrei spör á umhyggju sína. Hún var lífleg, hreinskiptin og elskuleg persóna sem allir báru virðingu fyrir. Þegar lífið reyndi á mig á erfiðum tímum var hún þar fyrir mig og veitti mér umhyggju og styrk. Að sama skapi hugsaði hún svo vel um móður mína eftir að hún flutti á hjúkrunarheimili, með reglulegum heimsóknum og kærum samræðum sem mamma kunni svo vel að meta.

Lilla var næstelst í stórum systkinahópi og deildi þeirri styrku samheldni sem fjölskyldan hefur alltaf haft. Hún eignaðist góðan mann og saman byggðu þau upp hlýlegt og notalegt heimili þar sem fjögur börn þeirra og barnabörn nutu ástar og samstöðu. Fjölskyldan var og er ómetanlegur styrkur sem hún hlúði að með hjarta og sál.

Á síðustu árum glímdi Lilla við erfið veikindi sem að lokum tóku hana frá okkur. Þrátt fyrir erfiðar aðstæður sýndi hún eindæma hugrekki, æðruleysi og styrk, þegar hún þurfti að horfast í augu við að læknismeðferðir skiluðu ekki árangri. Lilla var sönn fyrirmynd um hvernig hægt er að standa sterk í storminum og lifa með reisn þar til yfir lýkur. Síðasta samtalið okkar á sjúkrahúsinu á Selfossi skömmu áður en hún kvaddi mun ætíð lifa með mér.

Lilla reyndi sannarlega að njóta lífsins til hins ýtrasta þar til yfir lauk. Það gladdi mig að heyra hvernig hún átti gæðastundir með fjölskyldu sinni á síðustu vikunum. Hún keypti sér skvísuskó og klæddi sig upp til að fagna brúðkaupi dóttur sinnar, gat notið þess að borða veislukræsingar eftir einhliða næringardrykkina, stóð upp og hélt ræðu blaðlaust. Á næstu dögum náði hún að gæða sér á fleiri gómsætum máltíðum sem hún naut í botn, meira að segja sprengidagsmáltíð, keypti sér málverk sem hana hafði lengi langað til að eignast og fann þeim stað á heimili sínu áður en hún mætti aftur á spítalann. Þessar minningar sýna lífsgleði hennar, styrk og þakklæti fyrir lífið sjálft og það sem það hefur upp á að bjóða.

Minningar um Lillu frænku mína munu lifa áfram í hjarta mínu. Hún var ekki bara fjölskylda heldur líka sannur vinur – fyrirmynd um óeigingirni, ástúð og heilsteypta persónu sem ég mun ávallt sakna. Ég sendi fjölskyldu hennar mínar innilegustu samúðarkveðjur og óska þeim styrks og samheldni í sorginni.

Sjöfn frá Stóra-Moshvoli.