Veturinn 1997-98 var Valdimar Sverrisson í ljósmyndanámi erlendis. Hann kom heim í jólafrí og fékk að framlengja dvöl sína til að vinna að verkefni fyrir skólann. Það fólst í því að mynda fræga/þekkta Íslendinga í sínu náttúrulega umhverfi, það er heima hjá þeim eða í vinnunni.
Á listanum var Rúnar Júlíusson tónlistarmaður sem Valdimar hafði hvorki hitt né talað við. „Ég sló á þráðinn til Rúnars og hann tók mér vel; sagði þetta alveg sjálfsagt og bauð mér að koma heim til sín í Keflavík,“ segir Valdimar sem lét ekki segja sér það tvisvar. Tók með sér vin sinn Einar Óla Einarsson ljósmyndara til halds og trausts.
Rúnar bauð þeim inn á neðri hæðina, þar sem plötuútgáfan hans, Geimsteinn, var til húsa og hljóðverið Upptökuheimilið, eins og það kallaðist. Valdimar leit í kringum sig og prófaði að mynda húsráðandann hér og þar. Ekkert af því var þó almennilega að gera sig. „Þá sýndi hann mér baðherbergið og ég sá um leið að ég yrði að mynda hann þarna. Mér datt fyrst í hug senan úr Pulp Fiction, þar sem John Travolta situr á klósettinu, en áttaði mig hins vegar á því að ég gæti ekki myndað Rúnna Júl á klósettinu,“ segir Valdimar.
„Þá kom ég auga á baðkarið og hugsaði: Hvað ef ég læt hann standa í því með bassann? Rúnni var alveg til í það og stillti sér upp. Hvernig væri að fá smá töffarasvip? spurði ég og þá kom um leið þessi svipur sem sjá má á myndinni,“ bætir hann við.
Yrði mikil upphefð
Þetta var fyrir tíma stafrænnar ljósmyndunar og Valdimar hélt því sem leið lá heim með filmuna til að láta framkalla hana. Tjáði Rúnari að hann væri á leiðinni aftur út í skólann og að hann myndi hafa samband um haustið þegar hann kæmi aftur heim til að sýna honum myndirnar. „Rúnni hafði þá orð á því að hann fengi kannski að nota mynd á geislaplötukóver ef þær kæmu vel út. Þetta þótti mér að vonum mjög spennandi. Það yrði mikil upphefð fyrir mig, ungan ljósmyndara, að koma mynd á kóver hjá Rúnna Júl.“
Valdimar stóð við gefið loforð og færði Rúnari myndir um haustið. Honum leist vel á en kvaðst ætla að bera þær undir fjölskyldu sína og vera í sambandi. Leið nú og beið og ekkert heyrðist frá rokkaranum. Valdimar leiddist þófið og sló á þráðinn til Keflavíkur. Þá kom á daginn að fjölskyldu Rúnars hafði þótt baðkarsmyndin of lík einhverri annarri mynd og hún kæmi fyrir vikið því miður ekki til greina. Valdimar varð að vonum vonsvikinn en ekkert við þessu að segja.
Þar með er þó ekki öll sagan sögð. Fljótlega eftir þetta hringdi Pétur Blöndal, blaðamaður á Morgunblaðinu. „Heill Valdimar! Við erum með heilsíðu í Morgunblaðinu þar sem við birtum myndir frá ljósmyndurum sem segja söguna á bak við þær. Ertu til í að taka þátt í þessu?“
Að sjálfsögðu. Valdimar mætti með portfólíó til Péturs, meðal annars myndina af Rúnari í baðkarinu, og sagði honum sögur. Daginn sem greinin birtist í Mogganum eða daginn eftir kom Valdimar heim og þá biðu hans skilaboð á símsvaranum. Það var Rúnar Júlíusson sem bað hann að hringja til baka um leið og hann fengi skilaboðin. „Hvað er í gangi núna?“ hugsaði Valdimar með sér.
Hann hringdi um hæl og þá upplýsti Rúnar hann um að hönnuðurinn sem væri að hanna nýja plötuumslagið fyrir hann vildi fá baðkarsmyndina og enga aðra mynd. Hann hefði séð hana í Morgunblaðinu. Það var nú aldeilis sjálfsagt mál og var myndin, eins og hún birtist hér að ofan, á umslagi sólóplötu Rúnars, Farandskugganum.
Á lakkskóm í hrauninu
Eftir þetta myndaði Valdimar Rúnar mörgum sinnum og fleiri myndir eftir hann prýða plötuumslög rokkarans. Ein þeirra er hér efst á síðunni en hana tók Valdimar í hrauninu á Reykjanesi við Kúagerði. „Rúnni var á lakksóm, töffarinn sem hann var, og það var eftirminnilegt að sjá hann staulast þarna um hraunið. Ég var í góðum gönguskóm,“ segir Valdimar en platan heitir einfaldlega Reykjanesbrautin. Valdimar á einnig myndina framan á plötunum Leið yfir og Trúbrotin 13. Þá gerðu þeir Einar Óli tónlistarmyndbönd við tvo lög eftir Rúnar.
Spurður um persónuna og goðsögnina svarar Valdimar því til að Rúnar hafi verið ljúfur maður og þægilegur í samskiptum.
„Hann var rosalega rólegur og yfirvegaður og það lak af honum töffaraskapurinn án þess að hann þyrfti að hafa neitt fyrir því. Það var sterk ára í kringum Rúnar og það var ómetanlegt að fá að kynnast honum.“