Vettvangur
Björn Bjarnason
bjorn@bjorn.is
Berist fréttir af lokun fyrirtækis á landsbyggðinni skapast oft mikill ótti um framhaldið. Hann birtist til dæmis í þessum orðum Vilhjálms Birgissonar, formanns Verkalýðsfélags Akraness, í byrjun júlí 2024:
„Var að koma af fundi rétt í þessu en þessi fundur var vægast sagt gríðarlega erfiður en á þessum fundi tilkynntu forsvarsmenn hátæknifyrirtækisins Skaginn 3 X 128 starfsmönnum að fyrirtækið yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Þetta gjaldþrot þessa rótgróna fyrirtækis þýðir að 128 fjölskyldur missa lífsviðurværi sitt en um 100 af þessum 128 hafa búa hér á Akranesi og nágrenni en Skaginn 3 X er einn af stærstu vinnustöðunum hér á Akranesi. Rétt er að geta þess einnig að fjöldi afleiddra starfa tapast einnig samhliða þessu gjaldþroti.“
Skaginn 3X var í miklum viðskiptum við Rússland fyrir Covid-19-faraldurinn. Í febrúar 2020 lamaðist allt alþjóðlegt viðskiptalíf vegna faraldursins og var svo í rúm tvö ár. Þá hægðist á öllu í Rússlandi og Skaginn 3X stofnaði ekki til nýrra verka. Þegar Rússar réðust inn í Úkraínu 24. febrúar 2022 var viðskiptum Skagans 3X við Rússland sjálfhætt.
Nú hafa íslensk stjórnvöld kynnt lagafrumvarp um auðlindagjald sem ógnar framtíð arftaka Skagans 3X og fjölmargra annarra lítilla og meðalstórra fyrirtækja um land allt. Verkalýðsforystan vill örugglega ekki lenda í þeim sporum sem Vilhjálmur Birgisson lýsir hér að ofan.
Stjórnendur félaganna KAPP ehf. og KAPP Skaginn ehf. (varð til við kaup á þrotabúi Skagans 3X) segja auðlindagjaldsfrumvarpið leiða til þess að félögin neyðist „til að ráðast í hagræðingaraðgerðir, sem eiga eftir að bitna verst á verðmætum störfum, sem mörg hver eru á landsbyggðinni … Ef félögin neyðast til þess að ráðast í niðurskurð yrði það ekki aðeins þeim þvert um geð heldur hefði það slæm áhrif á íslenskan efnahag og byggðir landsins“.
Telja stjórnendurnir að „hér höggvi sá sem hlífa skyldi í knérunn verðmætasköpunar og öflugs sjávarútvegs á Íslandi“. Hvetja þeir atvinnuvegaráðuneytið eindregið til þess að „endurskoða áform sín með það fyrir augum að tryggja áframhaldandi uppbyggingu atvinnulífs, innviða og mannauðs“.
Félögin sem hér um ræðir sérhæfa sig í kæliþjónustu, vélasmíði, innflutningi og þjónustu á tækjabúnaði fyrir sjávarútveg, fiskeldi og annan iðnað. Vegna óbeinna áhrifa skyndiákvörðunar um tvöföldun auðlindagjalds ríkir ótti um að svo verði þrengt að þessum félögum að forskot þeirra sem reist er á rannsóknum, þróun og nýsköpun verði að engu, það leiði til stöðnunar og síðar hnignunar.
Ríkisstjórnin segist standa fyrir „leiðréttingu“ á reiknistofni í viðskiptum útgerða og fiskvinnslu. Þetta hækkar auðlindaskatt á útgerðir um 100%. Hækkunin er atlaga að útgerðinni og öllum gróðri sem þrífst vegna arðbærra umsvifa í sjávarútveginum. Vinnubrögðin einkennast af frekju og tillitsleysi. Við ein vitum, segja ráðherrarnir innan og utan ráðuneyta sinna. Samtalið er ekki tekið heldur þjösnast áfram.
Umsagnir í samráðsgátt stjórnvalda um málið eru annars vegar frá einstaklingum, einmana andstæðingum ríkjandi skipulags, og hins vegar umbjóðendum almannahagsmuna sem leggjast með rökum gegn áformum stjórnvalda.
Grundarfjarðarbær á mikið undir atvinnugreinum sjávarútvegs. Þar er að finna útgerðir smærri og meðalstórra fiskiskipa og fiskvinnslur. Fiskmarkaðir hafa þar útibú og öflugt flutningafyrirtæki. Þá er þar löndunarþjónusta, ísverksmiðja, netaverkstæði, frystigeymsla, vélsmiðja og rafeindavirkjun, auk þess stunda iðnaðarmenn, verslanir og fleiri fyrirtæki og þjónustuaðilar bein og óbein viðskipti tengd sjávarútvegi.
Í umsögn sinni gerir Björg Ágústsdóttir bæjarstjóri athugasemd við að atvinnuvegaráðherra kynni frumvarpsdrög sín „án þess að fyrir liggi greining á áhrifum boðaðra lagabreytinga fyrir sveitarfélögin og tekjustofna þeirra, s.s. eftir samsetningu tekna sveitarfélaga, umfangi greina sjávarútvegs í atvinnulífi sveitarfélaga, samsetningu eða tegundum sjávarútvegsfyrirtækja o.fl.“
Grundarfjarðarbær hafi mikla hagsmuni af því að áhrifamat og góðar greiningar á boðuðum lagabreytingum um veiðigjöld liggi fyrir sem grunnur að upplýstri umræðu um áhrif breytinganna á hagsmuni samfélagsins og bæjarsjóðs. Sama hljóti að gilda um önnur sjávarútvegssveitarfélög á Íslandi.
Þessi orð bæjarstjórans eru í samræmi við varnaðarorð allra annarra vegna frumvarpsins. Framganga ríkisstjórnarinnar brýtur gegn góðum stjórnarháttum. Horft er fram hjá þeirri reglu sem er að finna í samþykkt ríkisstjórnarinnar að hafi lagafrumvarp fyrirsjáanleg fjárhagsleg áhrif á sveitarfélög skuli fara fram sérstakt mat á slíkum áhrifum, sbr. 129. gr. sveitarstjórnarlaga. Skuli matið lagt fyrir Samband íslenskra sveitarfélaga til umsagnar.
Skortur á öllum grunngögnum fyrir upplýsta umræðu skapar ótta.
Um þetta snerust fyrirspurnir til Viðreisnarþingmannsins Hönnu Katrínar Friðriksson atvinnuvegaráðherra á alþingi fimmtudaginn 10. apríl. Hún hafnaði því þó „algjörlega“ að skort hafi samráð af hennar hálfu eða ráðuneytisins.
Ræður hennar lykta af lýðskrumi, hún miðlar aðeins því sem henni hentar og segir það best fyrir almenning. Gagnrýnendur vinnubragða ráðherrans eru þó helst talsmenn sveitarfélaga og atvinnufyrirtækja sem óttast almennan afkomubrest vegna ríkisstjórnarinnar.
Auðlindagjaldsfrumvarpið umdeilda hefur ekki enn séð dagsins ljós. Vinnubrögin við smíði þess lofa ekki góðu.