Guðmundur Einarsson fæddist 25. júní 1943. Hann lést 1. apríl 2025.
Útför Guðmundar fór fram 10. apríl 2025.
Guðmundur Einarsson var fjölhæfur maður sem lét víða til sín taka til góðs í íslensku samfélagi og í bæjarfélagi okkar Seltirninga sérstaklega. Sjálfur tel ég hann meðal mikilvægra áhrifavalda í lífi mínu. Sem formaður sóknarnefndar Seltjarnarness fór hann þess á leit við mig að taka sæti í þeirri nefnd 1995 og nokkrum mánuðum síðar hringdi hann og þá sem forseti Rótarýklúbbs Seltjarnarness og bauð mér að ganga til liðs við klúbbinn. Hvort tveggja reyndist mér gæfuspor.
Frá árinu 1990 sat Guðmundur í sóknarnefnd og gegndi frá 1994 formennsku sóknarnefndar allt til 2022, er hann vegna veikinda varð að draga úr því starfi en gegndi áfram varaformennsku. Starfstími hans spannar allt mótunarskeið kirkjunnar, og áhrif hans voru djúpstæð og dýrmæt.
Uppeldi Guðmundar í kristnum foreldrahúsum í Reykholti lagði traustan grunn að þeirri þjónustuhugsjón sem einkenndi allt hans starf. Hann bar með sér trúarstyrk sem endurspeglaðist í viðmóti og verkum. Í samhljómi við boðun Páls postula í Rómverjabréfinu 12. kafla leit hann á kirkjuna sem einn líkama með marga limi, þar sem hver og einn hefur sína köllun og náðargjöf til að leggja til samfélagsins. Meðfram háskólanámi vann Guðmundur við brúarsmíði og hér skal því haldið fram að brúarsmíði í óeiginlegri merkingu hafi einkennt allt hans starf síðan. Honum var lagið að brúa bilið milli ólíkra sjónarmiða og vinna að sáttum.
Guðmundur hafði víðtæka reynslu úr atvinnulífinu og hefði sem Rótarýfélagi, í þeim félagsskap sem leggur m.a. áherslu á kynningu ólíkra starfsgreina, getað staðið sem fulltrúi nokkurra ólíkra greina. Guðmundur var hógvær í framkomu og tók sér aldrei þann sess að hans orð væru endanlegt svar. Þvert á móti hlustaði hann, hvatti og studdi aðra til verka. Boðskapur Rótarý um þjónustu ofar eigin hag er eins og talaður úr hjarta Guðmundar.
Seta hans í bæjarstjórn í þrjú kjörtímabil hafði tvímælalaust sitt að segja um að félagslegar áherslur með kristnar rætur fengu þar góðan hljómgrunn. Skólamál, heilsugæsla og öldrunarmál voru meðal áhersluatriða hans.
Heimili Guðmundar var í næsta nágrenni við kirkjuna og hann lét sig aldrei muna um að skjótast yfir til að ganga í verk sem þurfti að vinna utan hefðbundins tíma. Ljósmyndun var honum kær og falleg jólakort hans voru jafnan prýdd nýrri mynd af kirkjunni – kirkjunni sem hann þjónaði af einlægni. Ársskýrslur hans þóttu einstakar í sinni röð. Einnig liggja fyrir ítarleg og dýrmæt drög hans að sögu kirkna og kristnihalds á Seltjarnarnesi frá tólftu öld. Þau vitna um nákvæmni og ekki síður tæknilega kunnáttu og færni sem m.a. birtist í mjög smekklegu umbroti hans.
Minningin um Guðmund Einarsson er minning um hógværan og hæfileikaríkan heiðursmann sem lagði dýrmætan skerf til samfélagsins, hvort heldur á vettvangi bæjarfélagsins, Rótarýhreyfingarinnar eða kirkjunnar.
Við hjónin biðjum góðan Guð að blessa minningu kærs vinar og samstarfsmanns og styrkja Dóru og aðra ástvini hans í sorginni.
Gunnlaugur A. Jónsson.
Dummi var hann ávallt kallaður, skólabróðir minn, fermingarbróðir, en fyrst og fremst góður vinur frá barnsárum okkar í Reykholtsdal. Það fór ekki mikið fyrir honum þessum ljúfa dreng. Dagfarsprúður er hugtak eða heiti sem mér fannst hann bera með sæmd alla tíð.
Við kynntumst fyrst í barnaskóla, en leiðir okkar lágu ekki lengi saman þar. Mig minnir að hann hafi verið með okkur tvo eða þrjá vetur, hafði áður notið kennslu á menntasetrinu Reykholti, þar sem góðir kennarar miðluðu þekkingu sinni til barna staðarins.
Auðvitað var oft mikið fjör og talsverð læti í barnaskólanum, eins og gengur á slíkum stöðum. Strákar áttu það til að takast á í frímínútum, en Dummi kom þar hvergi nærri. Ég held helst að það hafi verið honum eðlislægt að forðast slík strákapör. Okkur fannst þetta eðlilegt, prestssonurinn tæki auðvitað ekki þátt í neinu þess háttar, þótt öðru máli gegndi um læknissoninn, ekkert athugavert við að hann skvetti svolítið úr klaufunum.
Haustið 1956 hófum við félagarnir nám í Reykholtsskóla. Þar var ég þrjá vetur, en Dummi vinur minn tvo þar sem hann gat hlaupið yfir 2. bekkinn, eflaust vegna góðs undirbúnings sem hann hlaut við fyrrnefnda kennslu Reykholtskrakkanna, barnaskólafræðslunnar og þar að auki var hann mjög góður námsmaður. Í þessu sambandi ber þess og að geta að foreldrar hans, frú Anna Bjarnadóttir og séra Einar Guðnason, voru kennarar við skólann og eðlilega naut hann þess að nema fræðin hjá þeim afburðakennurum.
Þurý mín minntist oft á skemmtilega sumarleiki barnanna og unglinganna á Reykholtsstað. Margt frænd- og vinafólk kom oft í heimsóknir, og þá voru allir krakkar virkjaðir í leiki og sprell. Eitt nefndi hún sérstaklega um Dumma, en hann átti það til að segja félögunum hvaða bíll var á ferð sem ekið var inn dalinn og nálgaðist Reykholt. Hann þekkti eflaust vélarhljóð og fleira þar sem hann var snemma sérhæfður í bílategundum, og alla tíð held ég að hann hafi fylgst með örum tæknibreytingum og öryggisnýjungum á þessu sviði.
Síðan tók við frekara nám hjá okkur báðum, hann fór í MR og ég í Bifröst, og samskiptin minnkuðu. Þau jukust hins vegar þegar við vorum samtímis í stjórn Félags forstöðumanna ríkisstofnana, en þar rétti ég honum keflið u.þ.b. einu og hálfu ári eftir stofnun félagsins.
Síðan liðu mörg ár. Nokkrir Reykhyltingar sem höfðu farið í aðgerð vegna hjartasjúkdóma ákváðu að stunda göngur reglulega. Síðan bættist hressilega í hópinn, og við gömlu félagarnir hittumst á ný og gengum saman. Dummi gat ekki mætt reglulega, þar sem kirkjan kallaði á hann. Hann var í sóknarnefnd Seltjarnarneskirkju, þar af formaður í mörg ár, og nefndin hélt fundi á sama tíma og við aðrir aldnir Reykhyltingar iðkuðum göngur af krafti, og gerðum kaffiveitingum góð skil á eftir.
Mér er efst í huga þakklæti til þessa gamla góða vinar míns, og sendi Dóru og fjölskyldunni allri mínar innilegustu samhryggðarkveðjur. Genginn er drengur góður.
Óli H. Þórðarson.
Guðmundur Einarsson, fyrrverandi forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, er látinn. Mig langar að minnast hans með örfáum orðum en ég vann undir hans stjórn i mörg ár.
Guðmundur var einstaklega ljúfur maður og samstarf okkar var gott. Hann var ávallt reiðubúinn að ræða mál sem upp komu, var skilningsríkur og vildi starfsfólkinu vel. Skipti aldrei skapi þótt ef til vill hefði verið ástæða til.
Ég minnist þess þegar þurfti að gera skipulagsbreytingar hjá stofnuninni, sem var mjög erfitt fyrir marga starfsmenn. Guðmundur gerði allt sem hann gat til þess að leysa málin á þann hátt að sem flestir gætu vel við unað. Það var ómetanlegt að vera á vinnustað þar sem ríkti skilningur og velvild.
Ég minnist Guðmundar með þakklæti í hjarta og votta Dóru konu hans og fjölskyldu þeirra einlæga samúð.
Jóna Lára Pétursdóttir.
Guðmundur Einarsson tók við forstjórastarfi Heilsugæslunnar í Reykjavík árið 1994. Næstu árin á eftir var opinber heilsugæsluþjónusta í Mosfellsumdæmi, á Seltjarnarnesi og í Kópavogi einnig færð undir hans stjórn. Við stofnun Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins árið 2006 komu Garðabær og Hafnarfjörður undir sama hatt og náði þjónustan þá til alls höfuðborgarsvæðisins. Jafnframt var þjónustunetið þétt með nýjum heilsugæslustöðvum, heimahjúkrun og geðverkefnum. Það er því ekki ofsögum sagt að á fjórtán ára forstjóratíma Guðmundar hafi opinber heilsugæslustarfsemi tekið stakkaskiptum – og ekki síst fyrir einarða forystu hans.
Það var oft erfið sigling, enda fjárveitingar ríkisins til heilbrigðisþjónustu oft takmarkaðar á þessum tíma. Skortur á fagmenntuðu starfsfólki var einnig viðvarandi og því var merku framhaldsnámi lækna í heimilislækningum komið á fót innan stofnunarinnar fyrir hans tilstilli.
Guðmundur var vel til þess fallinn að bera svo mikla ábyrgð á þróun grunnheilbrigðisþjónustu þjóðarinnar. Leit var að manni með ríkari ábyrgðartilfinningu og trúmennsku við hlutverk sitt. Hann lagði sig fram um að leita hagkvæmra leiða, var opinn fyrir nýjungum og þróaði nýjar aðferðir við að meta árangur heilsugæslustarfsins. Og sjaldan voru ákvarðanir teknar áður en fyrir lægju útreikningar á áhrifum þeirra – en tölulegt mat var sérstakt áhugamál hans og viðfangsefni.
Samstarfsfólkið minnist Guðmundar sem einstaklega ljúfs og skilningsríks stjórnanda. Dyr hans voru jafnan opnar og hann hlustaði þolinmóður á öll erindi. Guðmundur hvatti fólk áfram á sinn hægláta hátt. Það er með þakklæti í huga sem starfsfólk Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins minnist hans sem lagði grunninn að því starfi sem stofnunin hefur síðar sinnt.
Jónas Guðmundsson
og Sigríður Dóra
Magnúsdóttir.