Anton Guðmundsson
Suðurnesjabær er ört vaxandi sveitarfélag á Suðurnesjum, og íbúum fjölgar jafnt og þétt.
Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands er íbúafjöldi í Suðurnesjabæ nú kominn yfir 4.000, eða alls 4.312 nú í byrjun apríl. Þegar Suðurnesjabær varð til við sameiningu Sandgerðisbæjar og Sveitarfélagsins Garðs fyrir sjö árum var íbúafjöldinn um 3.400. Íbúum hefur því fjölgað um 912 manns á þessum tíma, sem samsvarar rúmlega 26,8% fjölgun.
Uppbygging í heilbrigðismálum á Íslandi hefur verið töluverð á undanförnum árum.
Fyrrverandi heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórsson, lagði mikla vinnu í þau mikilvægu verkefni sem honum voru falin og sýndi mikla vinnusemi á þeim tíma sem hann gegndi embættinu.
Heilbrigðisþjónusta í heimabyggð að raungerast
Bæjaryfirvöld í Suðurnesjabæ hafa lengi kallað eftir því að heilsugæsluþjónusta verði veitt í sveitarfélaginu. Við bæjarfulltrúar Framsóknar í Suðurnesjabæ hófum tafarlaust samtöl við þingmenn okkar í Suðurkjördæmi og heilbrigðisráðherra eftir sveitarstjórnarkosningarnar 2022, enda var þetta eitt af helstu áherslumálum okkar – að tryggja heilbrigðisþjónustu í heimabyggð.
Eftir góð og greinargóð samtöl við þingmenn Framsóknar í Suðurkjördæmi og Willum Þór Þórsson, þáverandi heilbrigðisráðherra, var skrifað undir viljayfirlýsingu þann 30. ágúst 2024 um að opna skyldi heilsugæslustöð í Suðurnesjabæ.
Markmið verkefnisins er skýrt
Markmiðið er að bæta aðgengi að heilsugæslu í sveitarfélaginu, færa þjónustuna nær íbúum og styrkja þannig þjónustu við fólk í heimabyggð. Á starfsstöðinni verður boðið upp á almenna heilsugæslu á ákveðnum tímum og fellur þetta fyrirkomulag vel að áherslum stjórnvalda um jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu – óháð búsetu.
Það er því sérstaklega ánægjulegt að sjá þetta mikilvæga réttlætismál raungerast, þetta mikla baráttumál okkar í Framsókn.
Opnun er áætluð í maí 2025, í samræmi við viljayfirlýsingu ráðherra, þar sem fram kom að þjónustan skyldi hefjast ekki síðar en 1. maí 2025.
Með miklum samtakamætti og samvinnuhugsjón að leiðarljósi er þessi mikilvæga þjónusta nú að verða að veruleika – heilbrigðisþjónusta fyrir íbúa í heimabyggð.
Stefna Framsóknarflokksins um heilbrigðismál undirstrikar þetta vel: „Heilbrigðiskerfið er hornsteinn samfélagsins og byggir undir hagsæld þjóðarinnar. Heilbrigðiskerfið byggir á félagslegum grunni þar sem hið opinbera tryggir landsmönnum jafnt aðgengi að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu. Framsókn leggur áherslu á mikilvægi þess að standa vörð um heilbrigðiskerfið og umfram allt tryggja jafnt og tímanlegt aðgengi að öflugri heilbrigðisþjónustu, óháð efnahag og búsetu.“
Ég leit við í húsnæðið á dögunum og þar er allt á fullu og framkvæmdir ganga vel og áætlun stefnt er á opnun núna í maí.
Takk fyrir samstarfið í þessu mikilvæga verkefni Willum Þór Þórsson.
Höfundur er oddviti Framsóknar í Suðurnesjabæ.