Valur hafði betur gegn Breiðabliki, 1:0, í leiknum um meistara meistaranna í knattspyrnu kvenna á Kópavogsvelli í gærkvöldi.
Valur varð bikarmeistari á síðasta tímabili eftir sigur á Breiðabliki í úrslitaleik á meðan Breiðablik varð Íslandsmeistari eftir að hafa skákað Val í kjölfar æsispennandi toppbaráttu.
Sigurmarkið í gærkvöldi kom á 27. mínútu. Það skoraði Jasmín Erla Ingadóttir þegar hún fylgdi eftir skoti Fanndísar Friðriksdóttur hægra megin úr vítateignum sem Katherine Devine í marki Breiðabliks hafði varið út í teiginn.
Fyrirséð er að þessi tvö lið heyi harða rimmu um Íslandsmeistaratitilinn líkt og undanfarin ár enda tvö bestu lið landsins. Margir spá Breiðabliki titlinum og Val öðru sæti. Valskonur minntu hins vegar á sig svo um munaði og munu selja sig dýrt á tímabilinu. Besta deild kvenna hefst á þriðjudag.