Sjónarhorn
Kolbrún Bergþórsdóttir
kolbrun@mbl.is
Verkalýðsforinginn Sólveig Anna Jónsdóttir hefur alveg einstaka hæfileika til að koma umhverfi sínu í uppnám. Það þarf ekki alltaf mikið til, eins og þegar hún sagði á dögunum þau sjálfsögðu tíðindi að woke væri ömurlegt. Það ætti að blasa við hverjum hugsandi manni að það er alveg rétt hjá henni. En eins og við vitum getur fólk verið einkennilegt og woke-istarnir, sem maður hélt að hefðu fyrir löngu séð að sér og iðrast, góluðu ógurlega vegna þessara orða hennar. Þegar þeir höfðu nokkurn veginn jafnað sig fóru þeir að reyna að útskýra fyrir okkur hinum hversu göfug og mannúðleg stefna woke væri. Þeir sem væru á móti woke væru einfaldlega vondar og fordómafullar öfgasinnaðar hægrimanneskjur sem bæri að varast: Fasistar, rasistar, kvenhatarar, hatursmenn samkynhneigðra og trans fólks og allt hitt ljóta sem hægt er að vera.
Óneitanlega veltir maður fyrir sér hvernig fólk sem svona talar getur haft svo lítinn skilning á samtíma sínum. Jarðtengingin virðist lítil sem engin en það gerist vitanlega þegar fólk lokast inni í bergmálshellinum. Góða fólkið er nefnilega merkilega gefið fyrir að loka sig þar af og hjala saman. Það sést langar leiðir að almenningur er orðinn hundleiður á woke-inu en góða fólkið tekur ekkert eftir því, það er svo upptekið af að dekra við sína gervi-góðmennsku.
Vel má vera að woke-ið hafi í byrjun verið falleg og göfug hugmyndafræði sem vildi rétta hlut minnihlutahópa. Sá dýrðartími stóð þá stutt. Við tóku vondu tímarnir. Í vestrænum ríkjum, sem kenna sig við lýðræði, voru listaverk ritskoðuð, í endurprentunum á gömlum bókum voru felldir niður kaflar sem þóttu ekki þjóna nútímasiðfræði, útgefendur afneituðu þeim höfundum sínum sem þóttu ekki vera á réttri línu, varað var við kvikmyndum, sjónvarpsþáttum og leikritum sem þóttu ekki standast kröfur og verkin voru jafnvel tekin úr sýningu. Alls kyns ummæli einstaklinga, gömul og ný, oft sakleysisleg, urðu til þess að viðkomandi var útskúfað. Afsökunarbeiðnir streymdu frá hinum „seku“ enda sáu þeir fram á endalok ferils síns sýndu þeir ekki yfirdrifna iðrun.
Í andrúmslofti eins og þessu kjósa margir að láta lítið fyrir sér fara því ekki vilja þeir lenda á sakamannabekk almenningsálitsins. Í sakleysi hefði maður til dæmis haldið að listamenn, sem taka nær ætíð málstað frelsis, myndu koma kollegum sínum til varnar. Flestir listamenn kusu að þegja. Sú þögn er áfellisdómur yfir þeim.
Þeir sem nú verja woke-ið hvað ákafast létu lítið í sér heyra þegar málfrelsi og tjáningarfrelsi einstaklinga var fótumtroðið og refsigleði og heift tóku völd. Kannski finnst þeim raunverulega að þessir slaufunartímar hafi verið allt í lagi og líta svo á að þöggunin og kúgunin sem var beitt hafi verið í þágu góðs málstaðar. Vitanlega er þeim frjálst að réttlæta ofstækið en um leið blasir við flestum að þeir hafa rangan málstað að verja.
Sólveig Anna sagði mjög réttilega að vinstrið myndi halda áfram að tapa fylgi meðan það héldi sig við woke-ið. Örlög Gömlu-Samfylkingarinnar eru þarna gott dæmi. Það eina sem var með lífsmarki í þeim flokki var woke-ið og því fór sem fór. Það var ekki eins og flokkurinn breiddi út faðminn til kjósenda heldur voru send út köld skilaboð um að flokkurinn kærði sig einungis um kjósendur sem stæðust siðferðisviðmið og hugsuðu rétt. Afleiðingarnar urðu þær að svo að segja þeir einu sem kusu flokkinn voru aðstandendur frambjóðenda. Þessu hafði Kristrún Frostadóttir vit á að breyta og vísaði woke-inu á dyr með þeim afleiðingum að almenningur hefur dálæti á flokknum.
Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, sem eins og Sólveig Anna verður seint flokkuð sem hægrisinnuð, lýsti woke-inu sem „ógnarstjórn góðmennsku“. Woke-ið sýndi okkur að fólk sem telur sig vera með réttu svörin getur verið hættulegt þegar það telur allt leyfilegt í þágu hugmyndafræði sinnar.