Seðlabanki Ásgeir Jónsson hefur lagt áherslu á sterka stöðu.
Seðlabanki Ásgeir Jónsson hefur lagt áherslu á sterka stöðu. — Morgunblaðið/Karítas
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það þykir ólíklegt að Seðlabanki Íslands kalli til aukafundar í peningastefnunefnd fyrir næsta reglulega fund í maí, þrátt fyrir versnandi efnahagsástand víða um heim og mikinn óróa á mörkuðum. Peningastefnunefndin hefur lækkað stýrivexti tvisvar á…

Matthías Johannessen

mj@mbl.is

Það þykir ólíklegt að Seðlabanki Íslands kalli til aukafundar í peningastefnunefnd fyrir næsta reglulega fund í maí, þrátt fyrir versnandi efnahagsástand víða um heim og mikinn óróa á mörkuðum.

Peningastefnunefndin hefur lækkað stýrivexti tvisvar á síðustu mánuðum; um 0,5 prósentustig í febrúar og 0,25 prósentustig í mars. Þessar lækkanir voru í takt við minnkandi verðbólgu, sem mældist 3,8 prósent í mars síðastliðnum.

Þó að alþjóðleg þróun hafi áhrif á íslenskt hagkerfi hefur Seðlabankinn ekki gefið vísbendingar um aðgerðir utan venjubundinna funda en orðrómur hefur verið um slíkt milli markaðsaðila.

Morgunblaðið leitaði til Hafsteins Haukssonar, aðalhagfræðings Kviku banka, sem benti á:

„Það er mjög óvanalegt að seðlabankar víki frá reglulegri fundadagskrá nema það séu einhverjar mjög aðkallandi aðstæður sem kalli á það, til dæmis áhyggjur af fjármálastöðugleika eða þess háttar.“

Hafsteinn bætir við: „Við höfum auðvitað séð töluverðar lækkanir á hlutabréfaverði undanfarna daga, en þær hafa að mínu viti ekki verið þess eðlis að þær ógni fjármálastöðugleika. Seðlabankastjóri lagði nú síðast í vikunni áherslu á sterka stöðu fjármálakerfisins og góðan viðnámsþrótt hagkerfisins, svo það var ekki að heyra að það væri neitt sérstakt sem kallaði á vaxtaákvörðun milli funda.“

Höf.: Matthías Johannessen