HM 2025
Jökull Þorkelsson
jokull@mbl.is
„Mér fannst þær komast ágætlega frá þessu,“ sagði Kristín Guðmundsdóttir, fyrrverandi landsliðskona í handknattleik og reynslubolti úr efstu deild, en hún var valin besti leikmaður úrvalsdeildarinnar árið 2015, um leiki íslenska landsliðsins um sæti á HM gegn Ísrael á Ásvöllum. Ísland tryggði sér sætið á HM með tveimur sannfærandi sigrum, 39:27, og 31:21.
Leikið var fyrir luktum dyrum en vegna stríðsins fyrir botni Miðjarðarhafs gerði greiningarsvið ríkislögreglustjóra áhættugreiningu í tengslum við leikina og komst að þeirri niðurstöðu að réttast væri að gera það. Mótmælendur mættu fyrir utan Ásvelli bæði kvöldin og börðu harkalega á hurð meðan fyrri leikurinn fór fram. Það varð til þess að kveikt var á tónlist í salnum.
Allt voru þetta nokkuð sérstakar aðstæður og ómögulegt að meta frammistöðu Íslands án þess að taka þær með í reikninginn, að mati Kristínar.
„Mér fannst þær spila allt í lagi, sérstaklega miðað við aðstæður. Þetta var upp og niður og ég hef alveg séð þær spila betur með meiri stemningu og baráttu í sér, en ég held að það sé ekki hægt að bera það saman.
Að spila svona ótrúlega stóra leiki, sem geta komið þér á HM, fyrir tómu húsi er skrítið og krefjandi. Undanfarin tvö ár höfum við líka fyllt Ásvelli og mikill hugur í öllum.
Við getum engan veginn sett okkur í spor leikmanna og þess sem hefur gengið á síðustu daga. Eins mikið og maður vill skilja þetta ástand þá getur maður það ekki. Ótrúlega margt var tekið af þeim, en skiljanlega, maður vissi ekkert við hverju mátti búast. Ég held að þær séu þó sammála um að þetta hafi ekki verið nein flugeldasýning, en þær komust ágætlega frá þessu,“ sagði Kristín.
Vörnin kom mest á óvart
Þó að erfitt sé að dæma leiki íslenska landsliðsins vegna aðstæðna þá voru þó nokkrir hlutir sem Kristínu fannst ganga vel og aðrir sem hefðu mátt betur fara.
„Við skorum nógu mörg mörk í báðum leikjum. Tölulega séð er ekki mikið hægt að setja út á sóknarleikinn, sem hefur oft verið okkar akkilesarhæll. Vörnin kom mér eiginlega mest á óvart. Hún var ekki léleg en það voru auðveldir hlutir að fara í gegn og vantaði baráttuna. Það tengist hins vegar þessum aðstæðum. Þú spilar ekkert vörn nema vera í mega stemningu.
Þótt þetta sé ekki gott lið þá er Ísrael með líkamlega sterkar stelpur sem eru stærri en við og erfiðar viðureignar. Það er alltaf erfitt, sama hvað hver getur í handbolta. Einnig fannst mér stelpurnar á köflum svolítið ótengdar. Í seinni leiknum tók maður eftir því að þær voru ekki að tala saman. Leikmenn Ísraels gátu hlaupið fyrir aftan þær án þess að þær vissu af því. Svolítið sambandsleysi eins og þú værir með nýtt lið, sem er ekki raunin. Mér finnst þó erfitt að benda á eitthvað lélegt því ég veit eiginlega ástæðuna fyrir því,“ hélt Kristín áfram.
Líður öllum vel í kringum hana
Kristín talaði mjög fallega um fyrirliðann Steinunni Björnsdóttur sem spilaði sína síðustu landsleiki og sagði að erfitt yrði að fylla hennar skarð, helst út frá því hvers konar karakter hún er.
„Þú getur ekki haft betri fyrirliða í svona ástandi eins og var í vikunni. Hún er svo ótrúlega hvetjandi. Ég veit að Steinunn er alltaf fyrst til að koma til ungra stelpna sem koma á landsliðsæfingar og tekur á móti þeim og segir hversu frábært er að fá þær.
Það líður alltaf öllum vel í kringum hana. Hún passar að klappa öllum á bakið og maður tekur rosalega mikið eftir því í leikjum. Hún nær alltaf augnsambandi við þann sem klúðrar og klappar þann einstakling upp. Þetta er bara hún í hnotskurn, jákvæða týpan sem hættir aldrei. Ég held það verði aðallega erfitt að fylla í hennar spor í þessu. Nú verður landsliðið að finna þennan ofurleiðtoga sem allir tengja við,“ sagði Kristín.
Inga Dís Jóhannsdóttir lék aftur á móti sinn fyrsta landsleik í fyrradag og fannst Kristínu hún koma vel inn í verkefnið.
„Hún er hávaxin og hefur verið að spila í svipuðu hlutverki með yngri landsliðum. Hún gerði vel þessar mínútur sem hún fékk. Pínu stress á henni í byrjun en hún náði síðan að koma inn marki, sem var frábært. Það er gott að fá svona hávaxna manneskju inn sem getur truflað aðeins. Mér fannst hún nýta sínar mínútur mjög vel.“
Þetta skiptir sköpum
Kristín segir erfitt að dæma um hvort Ísland hafi bætt sig. Liðið sé þó komið með meiri reynslu af stórmótum, sérstaklega lykilmennirnir Elín Klara Þorkelsdóttir, Elín Rósa Magnúsdóttir og Thea Imani Sturludóttir.
„Við erum alltaf að tala um að bæta okkur. Núna eru þó stórir stólpar farnir út og sem áður verður erfitt að fylla þeirra skarð. Við erum með tuttugu manna hóp sem er valinn í landsliðið og síðan eru þrír til fimm leikmenn í víðbót í deildinni sem gætu verið þarna.
Stelpurnar eru hins vegar komnar með reynsluna. Við höfum prófað að fara á HM og EM. Elín Klara, Elín Rósa og Thea eru reynslumeiri og taka stórt skref með að fara á þessi mót. Síðan var gott að fá Þóreyju Önnu [Ásgeirsdóttur] aftur inn. Ég gæti alveg trúað því að þær verði svipaðar og á síðasta móti. Nú erum við í styrkleikaflokki þrjú og það fara þrjú lið upp úr riðlinum. Markmiðið á að vera skýrt: að komast upp úr honum,“ bætti Kristín við.
Krístin var síðan spurð út í mikilvægi þess að íslenska liðið væri að komast oftar og oftar á stórmót kvenna megin, nú þrjú ár í röð.
„Auðvitað hefur þetta breyst og liðin orðin fleiri á mótinu, en það skiptir heldur betur sköpum. Þegar við fengum boð á síðasta HM þá breyttist margt en stundum þarf bara smá hjálp til að komast á þessa braut.
Þetta er líka gott til að gefa leikmönnum hungur, því þegar þú kemst aldrei inn á stórmót þá er þetta ótrúlega erfitt. Maður fékk eiginlega aldrei leiki þar sem það voru möguleikar á að vinna. Þá hugsar maður: ég kemst aldrei á stórmót.
Nú erum við með ungar stelpur sem ætla sér á stórmót, ég er með slíka 19 ára heima. Þegar þú ætlar ekki bara að verða atvinnumaður eða vinna íslensku deildina, heldur eitthvað stærra, þá eru miklu meiri líkur á að þú haldir áfram. Þótt það gerist kannski aldrei er mjög mikilvægt að ungar stelpur setji sér þessi markmið,“ bætti Kristín við í samtali við Morgunblaðið.