Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri er fróður um sögu, ekki síst hagsögu, og gerði hana að sérstöku umræðuefni á ársfundi Seðlabankans í fyrradag. Þar var verslunarfrelsið í aðalhlutverki, og kemur ekki til af góðu. Ásgeir minnti á að Jón Sigurðsson forseti hefði sett fríverslun á oddinn og beitt klassískri hagfræði, í anda þeirra Adam Smith og David Ricardo, til að skýra þróun Íslandssögunnar.
Jón hefði talið verslunarfrelsi forsendu fyrir þjóðfrelsi og Ásgeir rifjaði upp hátíðarhöldin 1904, sem hefði verið sigurhátíð, en hálfri öld fyrr hefðu síðustu leifar dönsku verslunareinokunarinnar verið afnumdar. Margt ávannst á þessum tíma og á næstu árum þegar Ísland braust úr fátækt til bjargálna, eins og það hefur verið orðað.
Þá minnti Ásgeir á að eftir verðfallið mikla á Wall Street árið 1929 hefðu Bandaríkjamenn brugðist við með 20% verndartolli á umheiminn. Önnur ríki hefðu svarað og tollastríð hafist, með 60-70% samdrætti heimsviðskipta næstu tvö árin, „sem óneitanlega dýpkaði Kreppuna miklu“.
Nú hefur tollastríð tekið sig upp í heiminum á nýjan leik og aftur eru það Bandaríkjamenn sem hefja þann leik. Vonir standa til að ætlunin sé fremur að ná samningum en háum tollum. Það breytir því ekki að slíkur leikur er hættuspil, eins og kom í ljós í vikunni.