Á rakarastofu við Bergstaðastræti.
Á rakarastofu við Bergstaðastræti. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Tollar á Kína og í Kína eru nú komnir í hæstu hæðir, þegar horft er til beggja stórþjóða. Trump bendir á, að hann hefur ítrekað varað Kína við því, að ganga sífellt lengra á sinni leið, sem líkur standi til, að muni því miður enda illa.

Það er fróðlegt að fylgjast með „vönduðum“ fjölmiðlum í Bandaríkjunum gera nú upp sakirnar við sjálfa sig. Í þetta sinn snýst það um þann skjöld sem þeir töldu sér skylt að bera fyrir Joe Biden, þáverandi forseta Bandaríkjanna, gagnvart þeim sem héldu því fram að því færi fjarri, að forsetinn gengi á öllum, en skrifarar á ýmsum miðlum töldu allt benda til þess, að þannig væri staðan því miður orðin hjá forsetanum og væri sú staðreynd óneitanlega orðin mjög vandræðaleg fyrir Bandaríkin.

Þeir sem stýrðu miðlunum litu svo á, og hafa lengi gert, að þeir væru einir færir um að gæta sannleikans í Bandaríkjunum, og úrskurðuðu einir og sér um það, hvað væri satt og hvað ekki. Má segja að þessir fjölmiðlar, sem mjög margir vestra og ekki síst evrópskir fjölmiðlar töldu sér skylt að snobba fyrir og löguðu sannleikann í hendi sér, svo að hann tæki sitt mið af því, að sannleikurinn eini ætti þar rót og væri að mestu þar runninn upp, og gerðu þar með sjálfa sig að eftirapandi bjálfum. En síðustu vikurnar sást á þeim fjölmiðlum, að þeir töldu að nú væri kominn tími sem gerði þeim allt að því öruggt að viðurkenna, að vera mætti að í þessum efnum hefðu þeir, þegar horft væri um öxl, í ýmsu gengið allt of langt. En þá bera þeir þær afsakanir fyrir sjálfa sig og segja, að skoða verði þessi mál í alþjóðlegu samhengi.

Talsmenn fjölmiðlanna, sem hér eiga hlut að máli, austan hafs og vestan, benda á, að vissulega sé komið á daginn og megi kannast við, að þeir hafi gengið of langt í vörnum sínum fyrir Joe Biden forseta, með fullyrðingum um að þar væri vafasamur áróður á ferð, sem andstæðingarnir stunduðu núna, og hefðu gert um langa hríð, að fullyrða að forsetinn væri ekki heill heilsu, og birtu óþægilegar myndir og fréttir eins og „hægri“ fjölmiðlarnir stunduðu, með fréttum sínum, og færu þá offari þegar þeir birtu óhikað neikvæðar og ankannalegar og aulalegar fréttir af forsetanum, þegar, til að mynda, hann var á erlendum fundum þar sem jafnvel ábyrgir fjölmiðlar hikuðu lítt og gengu allt of langt í að segja pínlegar fréttir af bandaríska forsetanum á erlendri grund. Nú þegar fyrrnefndir fjölmiðlar bera í bætifláka fyrir sig, þá segja þeir helst að líta yrði til þess, að þeir hefðu ekki verið að ganga erinda Joes Bidens forseta með því að fela það hvernig „andlegt atgervi“ hans væri orðið.

Fjölmiðlamennirnir segja, að eðlilegt sé að sýna sanngirni og horfa til þess, að þeim hefði verið ljóst, að tækju þeir undir fréttir um vandræðagang Bidens forseta, sem þeim hefðu verið kunnar fyrir löngu, þá væru þeir ekki síst að ýta undir Trump, og framgang hans í kosningum, og það hefði vissulega ekki verið stemning fyrir slíku í viðkomandi fjölmiðlum. Til þessa verður almenningur að horfa, segja þeir, en ekki einungis hins, að fjölmiðlarnir hefðu ítrekað ýtt réttum en neikvæðum fréttum um forsetann til hliðar og um það hafi verið lítill ágreiningur á meðal þeirra, enda þegar horft væri til þeirrar hliðar málsins, af sanngirni, mætti auðvitað réttlæta þau vinnubrögð, þótt einnig mætti viðurkenna, að hugsanlega hafi verið gengið of langt og of lengi í ýmsum efnum.

Ólöglegir innflytjendur

Núverandi forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, hefur vissulega ákveðið að taka „þann slaginn“, sem Joe Biden vanrækti algjörlega í sinni tíð, til þess að slá á taumlausan straum ólöglegra innflytjenda og hefur hann vissulega látið ganga hratt fram, sem um má deila hvort hafi í öllum efnum verið nauðsynlegt og innan eðlilegra marka. Muna má, að fyrrverandi forseti fullyrti hvað eftir annað, að engin leið væri fær til þess að stöðva þennan hömlulausa straum yfir suðurlandamæri ríkisins.

Nú er orðið augljóst, að tekist hefur furðu vel að fylgja eftir fyrirmælum núverandi forseta, um að koma megi í veg fyrir innflutning tugþúsunda innflytjenda, sem voru komnir yfir landamærin í algjöru heimildarleysi, en það var jú eitt af helstu kosningaloforðum Donalds Trumps.

En þótt Bandaríkjamenn lýsi vissulega ánægju sinni með fyrrnefnt framtak forsetans, þá eru margir mjög óánægðir með tollabardaga Trumps, sem hefur drjúgan hluta heimsins undir. Ýmsir nefna þó til sögunnar, að Barack Hussein Obama forseti, með stuðningi þingmeirihluta síns, reyndi svipaða leið og þá, sem Trump hefur lagt í nú, og mörgum stuðningsmönnum hans þykir óneitanlega offors hans í þessum efnum of mikið, og sama megi segja um gassaganginn, sem þessum aðgerðum fylgir.

En forsetinn bendir sjálfur á, að mikill meirihluti ríkja veraldarinnar hafi þegar lýst yfir vilja sínum til að taka upp samningaviðræður við húsbóndann í Hvíta húsinu, sem honum þykir staðfesta góðan vilja og skilning, og það þótt mörgum hafi brugðið, þá séu mörg ríki nú að komast á beinu brautina, sem líklegt er að leiði til prýðilegrar niðurstöðu á milli þeirra ríkja og Bandaríkjanna. Hafa því margvíslegir „tollar“, sem Trump hafði tilkynnt að lagðir yrðu á, verið settir í biðstöðu, á meðan kannað sé, að raunverulegur samningsvilji sé reyndur. En þó sé „tollum“, sem beinast að Kína, enn haldið áfram og haldið heitum. Tollar á Kína og í Kína eru nú komnir í hæstu hæðir, þegar horft er til beggja stórþjóða. Trump bendir á, að hann hefur ítrekað varað Kína við því, að ganga sífellt lengra á sinni leið, sem líkur standi til, að muni því miður enda illa.

Kínverskir andstæðingar Trumps, varðandi þetta sérkennilega stríð, vara hann mjög við því, að halda áfram á sinni varasömu braut, sem hvorki hann sjálfur, né kínversk yfirvöld, geti að lokum unnið, og jafnvel muni báðir aðilar hafa sáralítið eða ekki neitt upp úr sínu krafsi.

Stuðningsmenn Trumps, heima í Bandaríkjunum, vísa einkum til sögunnar og framgangs einstakra ríkja gagnvart þeim. Þeir segja að margir fyrirsvarsmenn þessara þjóða hafi lengi gengið út frá því, að Bandaríkin hafi lengi sýnt að þau muni una því, til að halda ró um önnur atriði í heiminum. Og allmörg vinaríki hafi raunar gengið á lagið og talið að hinn vinalegi „stóri bróðir“ myndi láta sér í léttu rúmi liggja, þótt góðir grannar, bandalagsþjóðir með ríkulega sögu, þá muni þeir að lokum fylgja Bandaríkjunum, þegar þeirra eigin leiðtogum þykir nokkuð liggja við. En nú er kominn á ný í Hvíta húsið forseti, sem þykir sjálfsagt að virða með þakklæti öflugt samstarf um langa hríð, en þá megi það ekki gleymast, að þessi vinaríki hafi svo sannarlega fengið mikið í sinn hlut, og þá ekki síst, að öryggi þessara vinaríkja hafi verið tryggt, svo að þau hafi komist hjá, að verja gríðarlegum fjármunum til þessa grundvallaratriðis, öryggi og frelsi þjóðar, sem mestu máli skipti í raun um örugga tilveru þjóða í válegum heimi.

Svívirða

En það er margt, stórt og smátt, sem óneitanlega vekur viðbjóð. Bréfritara ofbauð þegar sýndur var í sjónvarpi ótrúlegur framgangur við íslenska hesta. Virtist skömmin vera unnin í tengslum við meðferð blóðmera. Allt var það nægjanlega ógeðfellt. En svo bættist við að hrossin voru lúbarin á alla lund, og það var ljóst að blessaðar skepnurnar áttuðu sig á að þær voru komnar í hendurnar á ómennum. Þau reyndu meira að segja, í ömurlegum ótta sínum, að brjótast út úr básagirðingum sínum, sem var of mikið fyrir hrossin. Langt er síðan önnur eins skömm var sýnd í sjónvarpinu. Það hefur ekki enn verið upplýst hvaða ömurlegu skálkar voru þarna á ferð, sem ætti þó að vera skylt að gera grein fyrir.