Hrópandi Kristur sagði á sínum tíma dæmisögur fólki til leiðbeiningar.
Hrópandi Kristur sagði á sínum tíma dæmisögur fólki til leiðbeiningar. — Mynd/OpenAI
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kennari: Það var óviturlegt að úthýsa biblíusögum úr kennslustofunni, og ég ætla að berjast fyrir því að þær verði teknar inn í skólana á ný. Engin bók hefur haft meiri áhrif á vestræna menningu og listir en einmitt biblían; fyrir svo utan það að…

Tungutak

Baldur Hafstað

hafstad.baldur@gmail.com

Kennari: Það var óviturlegt að úthýsa biblíusögum úr kennslustofunni, og ég ætla að berjast fyrir því að þær verði teknar inn í skólana á ný. Engin bók hefur haft meiri áhrif á vestræna menningu og listir en einmitt biblían; fyrir svo utan það að sjálf er hún stílfræðileg fyrirmynd. Tökum til dæmis stílbragðið andstæður sem þar er beitt af snilld: „Ekkert er hulið sem eigi verður opinbert, né leynt sem eigi verður kunnugt. Því mun allt það, sem þér hafið talað í myrkrinu, heyrast í birtunni, og það, sem þér hafið hvíslað í herbergjunum, mun kunngjört verða á þökum uppi“ (Lúk. 8).

Þessi orð mælti Kristur eftir að hafa sagt dæmisögu af hræsni sem endaði á orðunum: „Varist súrdeig farísea, sem er hræsnin.“

Nemandi 1. Já, vörumst hræsnina og hugsum til Krists sem bjargaði syndugu konunni með orðunum: „Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrstur steini á hana“ (Jóh. 8).

N2. Ég hlusta alltaf á morgunandaktina í svefnrofunum kl. 6:55 á Rás 1. Þar fær hver prestur nokkra morgna til ráðstöfunar og það er gaman að fylgjast með sérkennum hvers og eins. Jóhanna Gísladóttir á Akureyri er afar áheyrileg og talar líka fallegt mál; já, og hún þorir að segja „allir“ í stað „öll“, og hafnar þar með nýlensku.

N3. Ég hlusta líka á prestana á morgnana og það er súrt að heyra suma þeirra bregða fyrir sig nýlensku. En svo gleyma þeir sér og hrökkva aftur í gamla gírinn; þetta verður kokteill af nýlensku og íslensku. Ég hef það fyrir satt að okkar góði biskup, Karl heitinn Sigurbjörnsson, hafi iðrast þess sáran að hafa látið undan þrýstingi frá örlitlum hóp sem vildi „skreyta“ nýja biblíuþýðingu með nýlensku. Ég held nú samt að ekki hafi verið gengið svo langt að „allir tollheimtumenn og bersyndugir“ yrðu „öll tollheimtufólk og bersyndug“.

N4. Einn prestur talaði um „nemendur Krists“, eitthvað hræddur við lærisveina.

N5. Við skulum vera bjartsýn. Allir lykilfréttamenn RÚV hafa nú hafnað nýlensku og ber að þakka það. Stúdentar hafa gert það líka, og kennarar hafa snúið vörn í sókn og veifa rökum okkar virtustu málfræðinga sem hafa barist hetjulega gegn nýlensku.

K: Eitthvað að lokum?

N6. Í spjallþætti á föstudögum koma ungir menningarvitar saman á Rás 1 og ræða um „menningarneyslu“, „hámhorf“ og fleira í þeim dúr. Hvergi á þeirri rás sletta viðmælendur meiri ensku. Þar halda þeir sínum stress-leveli niðri; tala um „geitvei (gateway) að verkinu“, velja alternatíft; og fá konsensus í þetta; eitt er rífressing, annað obbvíos, enterteining, prídixíos, hæp, hætekk, besta anímeisjón, hjús og svaka steitment; dumpa svo og skilja pojntið og segja þúst/þveist 125 sinnum í þætti.

N7. Svo „tekur“ ráðherrann „viðtalið“ og „ávarpar vandann“.

N8. Tölum þannig við börnin að þeim fari að þykja vænt um móðurmálið sitt.

N9. Tölum íslensku við nýaðflutta.

N10. Tökum upp samræmd próf á ný.