Pétur Hafsteinn Pálsson
Pétur Hafsteinn Pálsson
Það er hægt að færa rök fyrir því að samtenging veiða og vinnslu eigi stóran þátt í forskoti Íslendinga.

Pétur Hafsteinn Pálsson

Meira en hálfri öld áður en kvótakerfi í fiskveiðum var innleitt hér á landi var samtenging veiða og vinnslu orðin regla á Íslandi frekar en undantekning. Eflaust á það rætur að rekja til legu landsins og möguleika þess tíma til verðmætasköpunar. Í hundrað ár hefur þetta form verið hornsteinn í íslenskum sjávarútvegi og höfðum við það fram yfir Norðmenn þegar kvótasetning fisktegunda varð ekki umflúin. Þetta er ástæðan fyrir því að stærstur hluti aflans í Noregi hefur verið fluttur óunninn úr landi en á Íslandi er stærstur hluti aflans unninn á heimaslóð.

Samþætting veiða og vinnslu mikilvæg

Með kvótakerfinu gátu fyrirtæki byggt á fyrirsjáanleika í veiði og skipulögðu vinnsluna út frá því. Það leiddi til fjárfestinga í tæknivæddum fiskvinnslum og samhliða því tengdust þau betur sölu á sínum eigin afurðum. Með aukinni fjárfestingu í nýjustu tækni urðu til tækni- og iðnfyrirtæki sem framleiddu nýstárlegar útflutningsvörur sem finna má í vinnsluhúsum víða um heim. Það er því hægt að færa rök fyrir því að samtenging veiða og vinnslu eigi stóran þátt í forskoti Íslendinga.

Erlendar fiskvinnslur kaupa íslenskan afla

Um 20% bolfiskaflans eru seld á íslenskum fiskmörkuðum og þar geta öll fyrirtæki keypt fisk, bæði þau sem vinna aflann hér á landi og þau sem flytja hann óunninn til útlanda. Þarna komast erlendar fiskvinnslur í beina samkeppni við þær íslensku um aflann. Þær vinnslur eru niðurgreiddar og laun sem þar eru greidd eru langtum lægri en gengur og gerist á Íslandi. Þar af leiðandi hafa þær í auknum mæli haft yfirhöndina í samkeppninni við Íslendinga um hráefnið og í dag fara um 40% af því til erlendrar fiskvinnslu, á meðan allur aflinn sem fer í eigin vinnslur er unninn hér á landi.

Opinber stofnun og kjarasamningar tryggja rétt verðmæti til skips

Samið er við sjómenn um tvenns konar verðlagningu á afla upp úr skipi og er það grunnurinn að launum sjómanna. Annars vegar er það hæsta verð sem selt er á til þriðja aðila, gegnum fiskmarkaði eða með öðrum leiðum, og hins vegar hlutfall af afurðaverðmætinu sem verður til þegar unnið er úr aflanum í eigin vinnslum. Samkvæmt lögum um Verðlagsstofu skiptaverðs frá árinu 1998 funda sjómenn og útgerðarmenn mánaðarlega um fiskverð til eigin vinnslu. Samkvæmt samningum á milli þeirra skal það vera 80% af skilaverði uppboðsmarkaðarins, sem að jafnaði skilar útgerðinni 55% af útflutningsverðmæti afurðanna en fiskvinnslan heldur eftir 45%. Eftirlit með uppgjöri við sjómenn á grundvelli þessa er síðan í höndum Verðlagsstofu skipaverðs.

Það verður að segja sjómönnum það til hróss að afstaða þeirra til þessarar verðlagningar er bæði skynsamleg og virðingarverð. Skynsamleg af því að hlutur þeirra er bæði gengis- og afurðaverðstryggður. Hann er ekki háður erlendum niðurgreiddum kaupendum og sjómenn eru hluti af skipulagi veiða og vinnslu sem tryggir þeim heilsársvinnu og atvinnuöryggi. Hún er virðingarverð af því að með þessari afstöðu sinni sýna þeir í verki að þeim er annt um starfsfólk í íslenskum fiskiðnaði og íslenskum tæknifyrirtækjum, sem og íslenskan efnahag.

Þar sem ég hef starfað með sjómannaforystunni í aldarfjórðung að þessu verkefni get ég fullyrt að aldrei hefur verið meiri sátt um þessa verðlagningu en nú. Því til staðfestingar má nefna að síðustu samningar sem gerðir voru við sjómenn gilda í tíu ár og er það einsdæmi í samningum við verkalýðsfélög á Íslandi, en verðlagning afla hefur oftar en ekki verið ástæða verkfalla og deilna. Það er því ljóst af ofansögðu að verðmyndun afla upp úr skipi á Íslandi er bæði byggð á lögum frá Alþingi og samningum á milli sjómanna og útgerðarmanna og um hana ríkir almennt sátt.

Áhrif tvöföldunar veiðigjalds

Nú ber svo við að stjórnvöld horfa til kaupgetu erlendu fyrirtækjanna þegar viðmið á skattstofni útgerða á Íslandi er ákveðið. Verði sú raunin verða skattar og gjöld á íslenskar útgerðir grundvölluð á getu niðurgreiddrar fiskvinnslu í Evrópu, en ekki á þeim verðmætum sem verða til á Íslandi. Hættan við þessa nálgun stjórnvalda er þríþætt. Í fyrsta lagi: ef eingöngu verður um skattahækkun upp á milljarðatug að ræða dregur það úr samkeppnishæfninni, stuðlar að samþjöppun og minnkar fjárfestingargetu fyrirtækjanna. Í öðru lagi: ef fiskvinnslunni er gert með lögum að greiða það sem erlendar niðurgreiddar fiskvinnslur geta borgað fer öll afkoman yfir á útgerðina og hvatinn til fjárfestinga í fiskvinnslu í landi hverfur. Í þriðja lagi: ef þetta leiðir til norsku leiðarinnar og samtenging veiða og vinnslu verður rofin fáum við norsku afleiðingarnar með í kaupbæti og íslensk fiskvinnsla eins og við þekkjum hana heyrir sögunni til.

Atvinnulíf í Grindavík hefur alla tíð byggst upp á samtengingu veiða og vinnslu. Til viðbótar við alþjóðlegan óróleika og tollastríð slást Grindvíkingar nú við eldgos og jarðhræringar og hefur sú barátta gengið upp hingað til. Það sjá hins vegar allir að eitt þúsund og fimm hundruð milljóna veiðigjöld munu þyngja þá baráttu verulega. Verði hins vegar rof á milli veiða og vinnslu verður fátt um svör.

Höfundur er framkvæmdastjóri Vísis í Grindavík.

Höf.: Pétur Hafsteinn Pálsson