Bandaríkjaher tilkynnti í gær að ofurstanum Susönnuh Meyers hefði verið vikið úr starfi, en hún var áður yfirmaður Pituffik-herstöðvarinnar á Grænlandi.
Er uppsögnin rakin til þess þegar J.D. Vance varaforseti Bandaríkjanna heimsótti herstöðina fyrir tveimur vikum, en Meyers ritaði tölvupóst til starfsmanna herstöðvarinnar í kjölfar heimsóknarinnar, sem túlkaður var sem gagnrýni á ræðu sem Vance flutti í heimsókn sinni.
Sagði meðal annars í tilkynningu bandaríska geimflotans, sem rekur herstöðina, að Meyers hefði verið rekin vegna trúnaðarbrests, og að ætlast væri til þess að yfirmenn forðuðust flokkadrætti í störfum sínum. Var það hins vegar ekki útskýrt nánar í tilkynningunni.