Halldór Gunnarsson
Í eftirminnilegri föstumessu hjá sr. Kristjáni Val Ingólfssyni vígslubiskupi í Mörkinni 6. apríl sl. sagði hann m.a.: „Við í okkar vestræna samfélagi tökum ekki upp grjót til að grýta náungann. Það er gert í öðrum okkur framandi samfélögum. En við erum ekki laus við grjótið. Við höfum lært þann nýja samskiptamáta að grýta fólk með orðum, beittum orðum sem fara miklu víðar en grjótkastið, drepa ekki eða meiða líkamann, en skaða eða eyðileggja mannorðið og valda sárum á sálinni sem oft gróa aldrei.“
Grjótkastið
Þessi orð sr. Kristjáns í prédikun vöktu mig til vitundar um að þegja ekki lengur um hvernig sr. Friðrik Friðriksson var grýttur, með lestri og umfjöllun bókar Guðmundar Magnússonar sagnfræðings um sr. Friðrik og drengina hans, þar sem hann ýjar að því aftur og aftur að hann hafi haft kynferðislanganir til drengja og vitnar til ónafngreinds manns máli sínu til stuðnings um að sr. Friðrik hafi káfað á honum. Í framhaldi kynnti Egill Helgason bókina með viðtali við Guðmund 25. október 2023 í Kiljunni, bókmenntaþætti ríkisjónvarpsins, þar sem bætt er í dylgjurnar. Og enn frekar er bætt við í sjónvarpinu, í einhliða viðtölum við sjálfskipaða sérfræðinga daginn eftir, Drífu Snædal forstöðumann Stigamóta og sr. Bjarna Karlsson, þar sem þau gefa í skyn fjölda vitnisburða um kynferðisbrot sr. Friðriks. Og áfram er haldið uppi orðrómi í fjölmiðlum og í Kastljós kom þáverandi biskup Agnes Sigurðardóttir fram nokkru síðar, sem tók þátt í umræðunni, því miður.
Framhaldið var auglýsing KFUM og K 5. nóvember um að samtökin hefðu leitað til sr. Bjarna Karlssonar og Sigrúnar Júlíusdóttur félagsráðgjafa um að þau ættu að hitta „þolendur og vitni sem tengst gætu hugsanlegum brotum gegn kynferðismörkum barna og ungmenna af hálfu sr. Friðriks Friðrikssonar“.
Krossfestingin
Hún var framkvæmd með samhljóða samþykkt borgarstjórnar Reykjavíkur 25. nóvember um að fjarlægja minnismerki Sigurjóns Ólafssonar myndhöggvara um sr. Friðrik og drengina hans á horni Lækjargötu og Amtmannsstígs og bókað að það væri gert í „kjölfar umfjöllunar og ásakana um að sr. Friðrik hafi beitt drengi kynferðislegu áreiti eða ofbeldi“. Styttan, sem er ekki í eigu borgarinnar, var látin týnast eða grafin í gröf.
KFUM og K eða íþróttafélagið Valur, sem sr. Friðrik stofnaði, lagði sitt af mörkum við krossfestinguna með því að fjarlægja bronsmynd af honum utandyra og mynd af honum í Fjósinu við hlið Valsheimilisins – en myndin var sett upp aftur og fjarlægð aftur. Hvort tveggja látið týnast eða grafið í gröf. Kapellunni við heimilið virðist hafa verið lokað. Endanleg krossfesting var síðan fullgerð með vísan í leynilega skýrslu Bjarna og Sigrúnar til stjórnar KFUM og K þar sem þau segja að einstaklingar hafi gefið sig fram „og að málið væri alvarlegra en í fyrstu var óttast og var meðal annars á þessum fundi spiluð upptaka, sem að þeirra mati var trúverðug“.
Niðurstaða þessa grjótkasts og krossfestingar frá 2023 er, að enginn kom fram undir nafni í frásögn sinni og í eftirleitinni komu aðeins fjórir vitnisburðir fram, sem ég hef heyrt munnlega sagt frá og segja í engu frá „kynferðislegu áreiti eða ofbeldi“, heldur fremur virðingu í garð sr. Friðriks, eftir um 80 til 90 ár í minningu.
Vitnisburður minn
Fyrir 74 árum hitti ég sr. Friðrik, þá 83 ára í Vatnaskógi. Þetta var í eina skipti sem ég hitti hann, þá 10 ára. Hann var hálfblindur, kom að mér og bað mig að koma með sér í kapelluna. Hann spurði mig fyrst hvernig mér þætti að vera í Vatnaskógi og síðan um nafn og ætt. Hann bað mig að koma til sín, tók fyrst um hendur mínar og fór höndum um mig og síðast um andlit mitt. Að lokum kyssti hann augu mín og enni og blessaði mig.
Ég brást einnig
Við messu hjá sr. Sigríði Kristínu Helgadóttur í Stórólfshvolskirkju haustið 2023 fjallaði hún í prédikun um mál sr. Friðriks sem sakamanns, sem kirkjan væri að taka rétt á. Ég ætlaði að ganga út, en fannst ég ekki geta það, því þetta kynni að vera rétt. Í lok messunnar við kirkjudyr spurði ég sr. Sigríði hvernig hún hefði getað sagt þetta um sr. Friðrik og hún svaraði mér „að hún vissi þetta sjálf“. Hvernig gat hún það? Síðan hef ég verið ósáttur við að þessar ásakanir hafi ekki verið rannsakaðar til hlítar. Sjálfur minnist ég stundarinnar með sr. Friðriki þegar hann helgaði mig og blessaði. Þess vegna hef ég kynnt mér málið, sem ég tel enn vera vanreifað, en hleypidómar verið felldir.
Niðurstaða mín
Ég skora því á ríkissjónvarpið að bæta úr fráleitum fréttaflutningi um málefni sr. Friðriks með því að kalla fram þá sem gagnrýnt hafa þessa umfjöllun, ásamt þeim sem hafa tjáð sig einhliða um málið. Sr. Friðrik á það skilið að hann fái að njóta í opinberri umfjöllun réttlátrar umfjöllunar, m.a. vegna ómetanlegs framlags síns, sem trúarsálmar hans bera vitni um, æskulýðs- og kirkjustarfs hans og íþróttafélaga sem hann stofnaði og enn starfa.
Látum tvö minnismerki og mynd koma fram úr felum, rísa upp úr sinni gröf til vitnisburðar um ævi og farsæl kærleiksríks störf sr. Friðriks Friðrikssonar.
Höfundur er fyrrverandi sóknarprestur í Holti.