Volodimír Selenskí Úkraínuforseti sagði í gær að bandamenn Úkraínu þyrftu að skýra betur út hvernig mögulegt herlið frá ríkjum Evrópu, sem Bretar og Frakkar hafa haft forgöngu um, myndi líta út.
„Við þurfum að skilgreina skýr smáatriði um fjölda, skipulag, staðsetningu, birgðakerfi, vistir sem og tæki og vopn þessara öryggissveita í Úkraínu,“ sagði Selenskí, en áætlanir Breta og Frakka gera ráð fyrir að slíkt herlið fari til landsins eftir að samið verður um vopnahlé við Rússa. Muni það hafa það hlutverk að koma í veg fyrir að Rússar hefji innrás að nýju.
Margt er þó á huldu um umfang herliðsins, og þó að um þrjátíu ríki hafi lýst yfir vilja til þess að styðja við verkefnið hafa einungis sex ríki tilkynnt að þau muni leggja hermenn til liðsins.
Selenskí sagði einnig í gær að ljóst væri að nokkur hundruð kínverskra málaliða tækju nú þátt í bardögum í Úkraínu, og það sýndi að Rússar væru til í að framlengja stríðið, jafnvel á kostnað kínverskra mannslífa.
Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði í gær að Rússar þyrftu að taka sig á og flýta fyrir vopnahléi í Úkraínu, en erindreki hans, Steve Witkoff, fundaði í gær í St. Pétursborg með Vladimír Pútín Rússlandsforseta. Sagði Trump á samfélagsmiðli sínum Truth Social að Úkraínustríðið hefði aldrei átt að hefjast.
Dimitrí Peskov, talsmaður Pútíns Rússlandsforseta, sagði í gær að ekki væri ástæða til þess að ætla að árangur myndi nást af viðræðum Witkoffs og Pútíns, heldur væru þær einungis liður í að koma samskiptum Bandaríkjanna og Rússlands aftur í fyrra horf. Sagði Peskov að þeir myndu mögulega ræða leiðtogafund á milli Trumps og Pútíns.