Pistill
Orri Páll Ormarsson
orri@mbl.is
Okkar besti gjörningalistamaður heldur áfram að fremja gjörninga sína í Hvíta húsinu og bætir heldur í frekar en hitt. Ég hygg að það sé einsdæmi í listasögunni að allur heimurinn hafi verið undir, þá slík list er framin. Listsagnfræðingar hljóta þegar að vera byrjaðir að rýma til í kennslubókum.
Nú hefur okkar maður sagt frjálsum viðskiptum stríð á hendur, beint ofan í aðför hans að mannréttindum og almennu frelsi þegna sinna. Í minni gömlu sveit kallaðist slíkt háttalag kommúnismi, muni ég rétt. Ekki óraði mann fyrir því meðan maður var að vaxa úr grasi í kalda stríðinu að kommúnisti ætti eftir að fara með lyklavöldin í Hvíta húsinu. En alltaf áhugavert þegar mannkynssagan tekur óvænta stefnu. Maður sér fyrir sér að Enver Hoxha sé eitt bros í gröf sinni í Albaníu en sjálfur skildi hann við þjóð sína í miðri áttunni einangraða og logandi hrædda við umheiminn. Ætla Bandaríkin að verða Albanía 21. aldarinnar?
Maður finnur að þessi óvænta staða kemur mörgum á óvart. Hvernig getur maður sem áratugum saman hefur verið holdgervingur kapítalismans allt í einu verið orðinn harðsvíraður kommi? Og það þegar menn stóðu í þeirri meiningu að búið væri að drepa öll slík kvikindi og grafa þau undir múrnum. Þá komum við aftur að kjarna málsins, krakkar mínir. Þetta er list. Og þar gilda engar reglur. Allt má í listum.
Tilfinning manna fyrir metnaðarfullri listsköpun er mismikil og það er eins og sumir haldi að okkar besta gjörningalistamanni sé í raun og veru alvara. Róta stuðningsmenn hans nú í hinum ýmsu skúffum og hirslum eftir rökum til að verja tollagjörning hans. Allt hljóti þetta að vera hluti af einhverri eitursnjallri og úthugsaðri samningatækni sem á endanum muni skila Bandaríkjunum ótakmörkuðum auði og algjörum yfirburðum á alþjóðavísu.
Svo eru hinir sem grípa um höfuð sér og leita á náðir bænarinnar. Þeir eru einnig afskaplega illa að sér um listir. Þá listamaðurinn hefur sleppt takinu af verki sínu, í þessu tilviki tollagjörningnum, er ábyrgðin ekki lengur hans, heldur okkar hinna. Það er okkar hlutverk að túlka verkið, ekki hans. Þannig að ábyrgðin á móðursýkinni sem nú hefur gripið um sig í tilefni af yfirvofandi efnahagsmóðuharðindum og nýjum heimsfaraldri er alfarið okkar, ekki hans. Það skulum við muna þegar við níðum skóinn af listamanninum og brennum uppblásnar brúður í hans líki á torgum.