Steikt Ófeigur bakari hér með soðbrauð dagsins, sem er steikt í 2-3 mínútur í 200°C heitri feitinni. Vinnubrögðin eru eftir vana og varan er frábær.
Steikt Ófeigur bakari hér með soðbrauð dagsins, sem er steikt í 2-3 mínútur í 200°C heitri feitinni. Vinnubrögðin eru eftir vana og varan er frábær. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
„Uppskriftin að soðnu brauði kemur víst einhvers staðar héðan úr sveitunum og er ævagömul. Kona sem hér starfaði endur fyrir löngu átti á blaði hvað þyrfti í kökurnar. Eftir því var unnið og fólki líkaði varan alveg ljómandi vel,“ segir Ófeigur Marinósson í Kristjánsbakaríi á Akureyri

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Uppskriftin að soðnu brauði kemur víst einhvers staðar héðan úr sveitunum og er ævagömul. Kona sem hér starfaði endur fyrir löngu átti á blaði hvað þyrfti í kökurnar. Eftir því var unnið og fólki líkaði varan alveg ljómandi vel,“ segir Ófeigur Marinósson í Kristjánsbakaríi á Akureyri.

Í verslunum fyrir norðan er soðið brauð í hávegum haft og er eftirsótt vara, sem Norðlendingar taka fagnandi. Í búðum fyrir sunnan er þessi vara hins vegar sjaldséð. Kemur þar til að hún hefur ekki náð hefð á markaði í borginni og þar með líklegt að salan stæði ekki undir væntingum.

Dagskammtur er 500 kökur

Soðið brauð eru þykk stykki, kökur þar sem í deigið fara hveiti, mjólk, pálmaolía, súrmjólk, sykur, smjörlíki, vatn, salt, bragðefni, lyftiduft og matarsódi. Allt er þetta tekið eftir kúnstarinnar reglum og skammtur dagsins hjá Ófeigi og hans fólki er gjarnan 500 kökur, sem eru steiktar á 2-3 mínútum í kraumandi potti þar sem hitinn á feitinni er gjarnan um 200 gráður.“

Allan sólarhringinn

„Þessi bakstur er aukageta hjá okkur, en nokkuð sem gripið er í flesta daga,“ segir Ófeigur bakari. Hann hefur unnið í Kristjánsbakaríi í 43 ár og kann því flest í faginu. Unnið er nánast allan sólarhringinn í bakarínu sem er á Brekkunni á Akureyri. Þetta er gamalgróið fyrirtæki í bænum, nú í eigu Gæðabaksturs-Ömmubaksturs í Reykjavík sem er orðið hluti af samstæðu Ölgerðarinnar.

Framleiðsla hvers sólarhrings í Kristjánsbakaríi hefst fljótlega eftir miðnætti og þá er farið í bakstur á algengasta brauði. Undir morgun, þegar Ófeigur kemur til starfa, er svo farið í ýmsa sérvöru, svo sem rúnstykki, pítsudeig, ostaslaufur, pylsu- og hamborgarabrauð, vínarbrauð og svo mætti áfram telja. Og auðvitað líka soðna brauðið, sem á heimasíðu bakarísins er sagt að passi fullkomlega með smjöri og hangikjöti.

Breytt vinnubrögð

„Bakstur er auðvitað alltaf mjög svipaður, en vinnubrögðin hafa breyst mikið í áranna rás,“ segir Ófeigur. „Fjölbreytnin hér er meiri; áður voru hér unnar kannski fjórar tegundir af algengustu matbrauðum en í dag skipta tegundirnar tugum. Svo hefur auðvitað margt fleira bæst við í framleiðslunni, sem að stórum hluta er orðin sjálfvirk og starfsfólkið nokkru færra en var.“

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson