Breska indípopphljómsveitin Pulp, undir forystu forsprakkans Jarvis Cockers, sendi frá sér yfirlýsingu í vikunni þess efnis að von væri á glænýrri plötu frá henni sem ber heitið More. AFP greinir frá og segir hljómsveitina, sem þekktust sé fyrir smellina „Common People“ og „Disco 2000“ frá árinu 1990, ætla að gefa út þessa 11 laga plötu hinn 6. júní hjá Rough Trade Records. Platan, sem er sú fyrsta frá sveitinni síðan platan We Love Life kom út árið 2001, er tileinkuð fyrrverandi bassagítarleikara sveitarinnar, Steve Mackey, sem lést í mars 2023, 56 ára að aldri.
Cocker, sem er 61 árs, sagði í yfirlýsingunni, sem birt var á vefsíðu Rough Trade, að platan hefði verið tekin upp á þremur vikum í norðausturhluta London. „Við höfum aldrei tekið upp Pulp-plötu á jafn skömmum tíma. Við vorum greinilega tilbúnir í þetta verkefni,“ sagði hann og bætti við að engin gervigreind hefði komið við sögu við gerð plötunnar.